Search
Close this search box.

Aðventa lesin í Gunnarshúsum og víðar

adventa2webSaga Gunnars Gunnarssonar um eftirleitir Fjalla-Bensa og förunauta hans á Mývatnsöræfum, verður að venju lesin í Gunnarshúsum í Reykjavík og á Skriðuklaustri 9. desember, annan sunnudag í aðventu.

Hjá Rithöfundasambandi Íslands í Gunnarshúsi á Dyngjuvegi 8 les Jón Björnsson, sálfræðingur og rithöfundur, og hjá Gunnarsstofnun á Skriðuklaustri les Halldóra Malin Pétursdóttir leikkona. Lesturinn hefst á báðum stöðum kl. 13.30. Aðgangur ókeypis og allir velkomnir.

Frá árinu 2005 hefur Gunnarsstofnun staðið fyrir upplestri á Aðventu Gunnars Gunnarssonar og unnið að því að breiða þá hefð út. Sagan er ekki eingöngu lesin upphátt á aðventunni hér á landi því að t.a.m. geta Þjóðverjar notið hennar í Berlín þar sem íslenska sendiráðið hefur veg og vanda að upplestrinum og í Moskvu sér ODRI, vináttufélag Íslands og Rússlands um upplesturinn.

Gunnar Gunnarsson skrifaði nóvelluna Aðventu árið 1936 og kom hún út í fyrsta sinn það ár í Þýskalandi. Síðan þá hefur sagan um Benedikt, Eitil og Leó verið lesin víða um heim af milljónum manna, ekki síst í desember. Aðventa er það verk Gunnars sem þýtt hefur verið á flest tungumál og selst í stærstum upplögum. Hún kemur reglulega út í Þýskalandi hjá Reclam forlaginu og selst í allt að 2000 eintökum á ári enn þann dag í dag. Árið 2016 kom hún út á ítölsku og fleiri tungumálum og bara á Ítalíu seldist hún í um 10 þús. eintökum. Nýjasta þýðingin kom út sl. sumar í Aserbaídsjan og þar með varð Aðventa fyrsta íslenska skáldsagan til að vera þýdd á asersku.

ATH. meðfylgjandi mynd er myndskreyting úr enskri útgáfu á Aðventu frá 5. áratug síðustu aldar.

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email