Dagskráin fyrir Skáld í skólum 2016 er komin út! Þetta árið kynnum við nýjung sem margir hafa kallað eftir, en það eru ritsmiðjuheimsóknir þar sem vanir rithöfundar leiða nemendur inn í ævintýraheim skapandi skrifa. Skólar geta valið um það hvort höfundarnir hitta nemendur einu sinni, tvisvar eða þrisvar sinnum í ritsmiðjum og bjóðast þær nemendum á öllum skólastigum. Hinar hefðbundnari rithöfundaheimsóknir eru einnig afar metnaðarfullar og spennandi, sumar eru framsæknar en aðrar sækja í menningararfinn. Við höldum til að mynda áfram að kynna meistara bókmenntasögunnar fyrir nemendum en þetta árið er boðið upp á skemmtilega fræðslu- og tónlistarstund um Tómas Guðmundsson fyrir nemendur á miðstigi.
Bókmenntaverkefnið Skáld í skólum er tíu ára í haust, en það hóf göngu sína haustið 2006. Allt frá upphafi tóku grunnskólar landsins því fagnandi, enda um margt nýstárlegt þar sem ólíkum höfundum er teflt saman og dagskárnar sem í boði hafa verið úr ýmsum áttum. Þegar hafa yfir 50 mismunandi dagskár orðið til innan vébanda verkefnisins og það er í stöðugri þróun.
Bæklinginn má kynna sér með því að smella á myndina fyrir ofan.