Search
Close this search box.

Vorvindar IBBY

img_3473

Sunnudaginn 13. maí veitti Íslandsdeild IBBY sínar árlegu viðurkenningar fyrir framlög til barnamenningar, Vorvinda, við athöfn í Gunnarshúsi, húsi Rithöfundasambands Íslands.

Vorvindum er ætlað að vekja athygli á verkum og starfsemi sem hleypir ferskum og endurnærandi vindum inn í íslenska barnamenningu. Að þessu sinni voru Vorvindahafarnir fjórir.

Bókaráð Hagaskóla hlaut Vorvinda fyrir framlag sitt til barnamenningar. Bókaráð Hagaskóla samanstendur af 15 nemendum úr unglingadeild Hagaskóla. Ráðið stóð fyrir málþingi fyrr í vetur, Barnið vex en bókin ekki, sem sýndi fram á tilfinnanlegan skort á barna- og unglingabókum á íslensku. Fjölmargir sóttu þingið, meðal annars menntamálaráðherra Íslands sem í kjölfar málþingsins boðaði til aðgerða og setti á fót sérstakan styrktarsjóð til handa barnabókaútgáfu.

Lestrarvinir hlutu Vorvinda fyrir starf sitt. Lestrarvinir leiða saman sjálfboðaliða annars vegar og börn sem þurfa á aðstoð að halda við lestur og fjölskyldur þeirra hins vegar. Sjálfboðaliðarnir lesa fyrir börnin á heimilum þeirra og fara með þeim á bókasöfn.

Sævar Helgi Bragason hlaut Vorvinda fyrir að miðla fróðleik til barna- og unglinga af mikilli eljusemi, ástríðu og fórnfýsi. Þetta gerir hann á hinum ýmsu miðlum en er jafnframt alltaf boðinn og búinn að svara öllum spurningum barna og unglinga, halda fyrirlestra í skólum og hvar þar sem fróðleiksþyrst börn koma saman.

Ævar Þór Benediktsson hlaut Vorvinda fyrir lestrarátak Ævars vísindamanns. Hann hefur staðið fyrir einstökum og metnaðarfullum lestrarátökum árlega síðan árið 2014. Þetta eljusama og fágæta framtak Ævars hefur skilað sér í því að börn á Íslandi hafa lesið 230 þúsund bækur í fjórum lestrarátökum.

Íslandsdeild IBBY óskar verðlaunahöfum til hamingju og hvetur þá alla til frekari dáða.

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email