Search
Close this search box.

Þorsteinn frá Hamri minning

Þorsteinn frá Hamri
Þorsteinn frá Hamri

Í dag fylgjum við heiðursmanni og þjóðskáldi, Þorsteini frá Hamri, til grafar.

Eftirfarandi eru kveðjuorð frá Rithöfundasambandi Íslands sem birtust í Morgunblaðinu í morgun:

Andrá
Að vísu
Að vísu
er stundin hverful og stutt
en gefum dýpt hennar gaum
sem alkyrrð vatni
og auga
(Þorsteinn frá Hamri)

Heiðursfélagi Rithöfundasambands Íslands kveður. Þorsteinn frá Hamri hverfur hljóðlega út í ljóðheiminn eilífa. Í sorg og söknuði finnum við hin svo þunglega hve stundin er hverful og stutt. En um leið gefum við dýpt hennar gaum í gegnum skilningarvit skáldsins. Við skynjum hve listsköpun Þorsteins stækkar heiminn og skilgreinir veröldina – hvernig verkin hans taka utan um hnattlífið og mennskuna í þéttu faðmlagi ljóða og orða.

Þannig var Þorsteinn líka sem manneskja og þess vegna er hann svo einstök, ógleymanleg og hljómmikil rödd skáldskaparins – af því að hann bjó yfir manngæsku, mildi og næmi fyrir fólki og tungumáli sem er algilt og sérstætt í senn. Umburðarlyndi, víðsýni og hlýja til þess sem nærist og andar gefur rödd skáldsins tæran hljóm, bergmál og dýpt – veitir henni vængi svo hún svífur hærra og segir sögu okkar allra á svo óendanlega vegu.

Tvítugur kvaddi þessi Borgfirðingur sér hljóðs með ljóðabókinni Í svörtum kufli. Þar með hafði hann stillt sinn áttavita og æviverkið er stórt – ljóð, þýðingar, skáldverk og sagnaþættir. Ljóð Þorsteins eru löngu samofin klassískum arfi þjóðar og víða má merkja áhrif hans á samferðaskáldin.

Það kólnaði og fölnaði þegar skáldið kvaddi. Við, félagar og samferðamenn, söknum og minnumst. Þorsteinn var heiðursfélagi sambandsins frá 2006 og sat í stjórn á árunum 1984 til 1988. Áður hafði hann setið í stjórn Rithöfundafélags Íslands 1966 til 1968. Hann var stéttvís maður, réttsýnn og trúfastur. Þannig fylgdist hann reglubundið með störfum sambandsins, var ráðagóður og bar hag félaga sinna og bókmenntanna ávallt fyrir brjósti. Gjöfult spjall, kímin og skýr sýn, hlýtt handtak, djúpstæður mannkærleikur og sefandi fas lifir í verkum sem við fáum í nesti áfram veginn.

Vísa
Söknuður í brjósti mínu:
svöl tjörn á fjallinu.
Í tærri lygnunni
titrar mynd þín,
þegar blærinn andar
hvísla bárurnar orð þín,
söknuður í brjósti mínu,
segðu það engum.
Svöl og djúp
tjörn á fjallinu.
                          (Þorsteinn frá Hamri)

Fyrir hönd Rithöfundasambands Íslands votta ég Laufeyju og fjölskyldu dýpstu samúð á kveðjustund. Blessuð sé minning Þorsteins frá Hamri.

Kristín Helga Gunnarsdóttir,
formaður Rithöfundasambands Íslands

 

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email