Search
Close this search box.

Skáld í skólum 2017 – dagskráin komin

Skald-i-skolum-2017-forsida-myndHaustið 2017 draga 10 skáld frá Höfundamiðstöð RSÍ nemendur í grunnskólunum landsins með sér í puttaferðalag gegnum platorð og flækjusögur, leiðinlegar sögur, leiðinleg ljóð og skemmtilegar sögur og skemmtileg ljóð. Sum skáldin segja frá leyndarmálum úr dagbókum frá unglingsárunum, gæludýrum og ógeðslega víðum unglingafötum. Önnur skáld útskýra hvernig maður getur smíðað sér sinn eiginn heim og átt heima á hafsbotni, úti í geimi, í ævintýraveröld, hversdagslífinu eða á stað sem er hvergi til. Maður verður bara að átta sig á hvar er best að vera. Skáldin frá Höfundamiðstöðinni eru líka öll hálærðir sérfræðingar í hugmyndaveiðum. Það er nefnilega nauðsynlegt að kunna að veiða, verka, krydda og matreiða girnilegar hugmyndir ofan í sjálfan sig og gráðuga lesendur. Allt í kringum okkur eru hugmyndir á sveimi, hver sem er má fanga þær og stinga í pottinn sinn. Maður þarf ekkert veiðileyfi, bara réttu veiðarfærin!

Bókmenntaverkefnið Skáld í skólum hóf göngu sína haustið 2006. Allt frá upphafi tóku grunnskólar landsins því fagnandi og hefur verkefnið löngu sannað sig sem ómissandi þáttur í kynningu nútímabókmennta í grunnskólum landsins. Þegar hafa yfir 60 mismunandi dagskár orðið til innan vébanda verkefnisins og er það í stöðugri þróun. Í fyrra kynntum við nýjung sem margir höfðu kallað eftir, ritsmiðjuheimsóknir þar sem vanir rithöfundar leiða nemendur inn í ævintýraheim skapandi skrifa. Þær heppnuðust vonum framar og í ár bjóðum við upp á spennandi ritsmiðjur fyrir bæði miðstig og unglingastig þar sem skólar geta valið um hvort höfundarnir hitta nemendur einu sinni, tvisvar eða þrisvar sinnum í ritsmiðjum. Hinar hefðbundnari rithöfundaheimsóknir eru að venju afar metnaðarfullar og spennandi, sumar eru framsæknar en aðrar sækja í menningararfinn.

Skoða dagskrá 2017

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email