Rithöfundasamband Íslands

The Writers' Union of Iceland


Um starfslaun listamanna

Pétur Gunnarsson rithöfundur

Pétur Gunnarsson rithöfundur

Pétur Gunnarsson:

Erindi haldið á málþingi BÍL 24. nóvember 2018

Fyrir daga starfslauna listamanna voru við lýði hin svokölluðu listamannalaun sem pólitískt skipuð úthlutunarnefnd úthlutaði við árvissa óánægju allra. Úthlutunin lá jafnan undir ámæli um að spegla valdahlutföllin á Alþingi frekar en listrænt mat uns svo var komið að rithöfundar, sem annars voru um þær mundir klofnir í  tvær fylkingar, tóku höndum saman í baráttu fyrir tilkomu ritlaunasjóðs sem höfundar gætu sótt í til að vinna fyrirfram skilgreind verk, en faglega skipuð nefnd fjallaði síðan um umsóknirnar. Slíkur sjóður tók til starfa árið 1972 og varð tuttugu árum síðar, árið 1992, að módeli fyrir starfslaun listamanna þegar myndlistarmenn og tónskáld bættust í hópinn, ásamt listasjóði sem var ekki eyrnamerktur sérstakri listgrein. Lagt var upp með pott sem í voru 1200 mánaðarlaun sem áttu að taka mið af byrjunarlaunum menntaskólakennara. Leið svo heill áratugur án þess mánuðum væri fjölgað þrátt fyrir fjölgun þjóðarinnar og knýjandi þörf fyrir eðlilega og sjálfsagða nýliðun listamanna. Við svo búið mátti ekki standa og á aðalfundi BÍL í Borgarnesi í ársbyrjun árið 2007 var samþykkt ályktun þar sem þess var krafist að stöðnunin yrði rofin og sjóðurinn aukinn. Erindinu var fylgt eftir á samráðsfundi með menntamálaráðherra í mars það ár og þá um haustið, nánar tiltekið á 80 ára afmælisfagnaði BÍL, boðaði menntamálaráðherra í hátíðarræðu til fundar með fulltrúum listamanna um fjölgun og fyrirkomulag starfslauna. Fundurinn átti að fara fram þá um haustið, eða þann 9. október, en af honum varð aldrei – þremur dögum áður bað forsætisráðherra Guð að blessa Ísland og fundi var frestað um óákveðinn tíma.

Stjórnin féll og ný stjórn tók við sem ákvað, þrátt fyrir ískyggilegar horfur og þungbúinn þjóðfélagshimin, að standa við gefin fyrirheit. Á fundi nýs menntamálaráðherra með fulltrúum BÍL þann 7.janúar 2009  – sem stóð í heilar sjö klukkustundir – var nýtt fyrirkomulag starfslauna kynnt og samþykkt, sjóðum fjölgað úr þremur í sex og mánuðum fjölgað um 400 sem síðan skiptust á milli listgreina eftir samningaviðræður hlutaðeigenda sem gengu ekki þrautalaust fyrir sig.

Og enn eru liðin tíu ár, BÍL er orðið nírætt, og hlýtur að vera mál til komið að knýja á um nýja fjölgun. Til að réttlæta hana ætti ekki að þurfa önnur rök en fjölgun þjóðarinnar og listamanna í hlutfalli við hana. En til viðbótar koma breytingar sem orðið hafa og eru stöðugt að verða á landslagi listanna og aðstöðu listamanna. Þar er  gerólíku saman að jafna nú eða fyrir aldarfjórðungi þegar lögin um starfslaun voru fyrst sett. Til dæmis að taka hafa heilu meginlöndin á borð við hljómplötur og diska svo að segja gufað upp, upplög bóka hafa minnkað um helming og menn sækja í auknum mæli á netið efni sem áður var höfundarvarið. En á sama tíma hefur þörfin fyrir hugverk aldrei verið brýnni og þáttur hins opinbera hlýtur þar af leiðandi að vaxa að sama skapi.

Góðir félagar, stofnun BÍL fór ekki hátt á sínum tíma, þótt leitað sé með logandi ljósi í blöðum frá því fyrir níutíu árum sér þess hvergi stað að samtök okkar hafi verið stofnuð, sennilega ekki þótt fréttnæmt. Og stjórnmálamenn hafa löngum verið uppteknari af BÍLL, þ.e. bandalagi látinna listamanna, bæði hafa meðlimirnir þá sannað sig og eru mun léttari á fóðrum en þeir sem enn draga andann. Engu að síður er það svo að þegar við horfum aftur um níutíu ár eru það einmitt listamennirnir sem stóðu að stofnun BÍL sem standa á sviðinu, ég nefni af handahófi: rithöfundana Gunnar Gunnarsson, Halldór Laxness, Kristínu Sigfúsdóttur, Þórberg Þórðarson og Davíð Stefánsson, myndlistarmennina Kjarval, Guðmund frá Miðdal, Kristínu Jónsdóttur, Ásgrím Jónsson, Júlíönu Sveinsdóttur, Einar Jónsson, Jón Stefánson, Gunnlaugana Blöndal og Scheving, tónskáldin Jón Leifs og Pál Ísólfsson …

Íslenska fullveldið var þá tíu ára og frumherjarnir voru þess fullvissir að án blómlegrar menningar væri það orðin tóm. Hugmyndasmiðurinn og arkitektinn að stofnun BÍL, Jón Leifs tónskáld, líkti því við landvarnir og sagði að ef stjórnvöld veittu þó ekki væri nema broti af því sem aðrar þjóðir kostuðu til landvarna væri björninn unninn. Og einn úr þeirra hópi, Halldór Laxness, komst svo að orði:

„… Gildi þjóðar fer eftir menníngu hennar. Þjóð sem ekki þykist hafa efni á því að eiga menníngu á eingan tilverurrétt. Ef vér íslendíngar þykjumst ekki hafa efni á því að eiga menn sem setja fram merkilegar hugsanir á merkilegan hátt, þá eigum vér að fara burt úr þessu landi og það strax á morgun. Vér eigum að fara til Mexíkó eða eitthvað þángað.

Ef vér viljum ekki nota aðstöðu vora hér til þess að skapa menníngu, þá er ekki til neins fyrir okkur að vera hér, því að vér höfum hér einga köllun nema menníngarlega. Það er miklu betra að lifa einsog skepnur í Mexíkó heldur en hér, ef vér höfum ekki annað á stefnuskránni en lifa einsog skepnur.“ [1]

Þetta var fyrir níutíu árum þegar íslenskt samfélag var sannarlega fátækt og smátt, í dag er það eitt það ríkasta í víðri veröld og hefur úr auðlindum að spila á borð við sjávarfang, vatn, orku og ferðamannastraum.

Að endingu þetta: heimurinn horfist nú í augu við takmörk sín, öll ytri umsvif eiga fyrir höndum að skreppa saman, sá lífs- og neyslumáti sem enn viðgengst á eftir að þykja fáránlegur, glæpsamlegur jafnvel. Að sama skapi mun hið innra vaxa, innlöndin, sköpunin, upplifunin, tjáningin – vistsporið á eftir að grynnka, listsporið að dýpka.

[1] Erindi um menningarmál sem HKL hélt í nýstofnaðri útvarpsstöð í Reykjavík 3. júlí 1926 og birtist í Alþýðublaðinu 21. ágúst 1926 og ritgerðarsafninu Af menníngarástandi 1987, bls. 110-116.


Pistill frá höfundi

RSI2015-Hofundurinn-pistlar

Pétur Gunnarsson:

Teningunum kastað

Sagt er að aðeins 4% af efni alheims sé sýnilegt, afgangurinn er hulduefni plús orka tómsins sem mun vera hvorki meira né minna en hreyfiafl alls sköpunarverksins. Eins er um egó unga mannsins, mjög lítill hluti af því er sýnilegur, hið innra rúmar hann hulduefni og svarthol. Haustið ´66 hef ég samt afráðið að taka örlagaríkt skref inn á hinn opinbera vettvang. Ég ýtti upp glerhurð Morgunblaðshallarinnar. Vélarhljóð frá prentvélum á jarðhæð barst til eyrna inn í lyftuna á leið upp á þriðju hæð. Brosmild stúlka vísaði mér á skrifstofu þar sem ritstjóri Lesbókar, Sigurður A. Magnússon, sat með hárið í bylgjum upp frá háu enni, vangaskegg og hökutopp eins og grískur Pan. Jafnframt hárbeittum Lesbókarpistlum, var hann hnífskarpur leikdómari blaðsins. En tók mér af ljúfmennsku, meðtók ljóðið og sagði mér að hringja eftir helgi.

Um leið var eins og jörðin hægði á snúningi sínum, það var föstudagur og um kvöldið fór ég á Borgina og fékk mér að venju tvöfaldan asna. En að þessu sinni fann ég ekki nein hrif. Ég sló Stebba vin minn fyrir öðrum, en það sama gerðist, það gerðist ekki neitt. Undir venjulegum kringumstæðum hefði ég átt að verða þvoglumæltur og riða á fótum. Á heimleið lék ég mér að því að ganga eftir þráðbeinni línu gangstéttanna.

Kominn heim úr skóla á mánudeginum hóf ég að hringja í skiptiborðið á Mogganum. En Sigurður var ekki í húsi. Ekki heldur á hálftíma fresti. Á þriðjudeginum hafði ég skipt um skoðun og hætt við birtingu, vonaði að ljóðið fengi að lognast út af í skúffu ritstjórans. En á föstudeginum greip mig einhver hybris og nú var engu líkara en Sigurður hefði beðið við símann. Hann ætlaði að birta ljóðið.

Hvenær?
Núna!

Það þyrmdi yfir mig. Lesbók Morgunblaðsins var þvílíkt stórveldi. Hún fylgdi sunnudagsblaðinu sem var þeim mun voldugri stærð að dagblöð komu ekki út á mánudögum, þetta var lesforði til þriggja daga. Gamall maður, kinnfiskasoginn með yfirgreidda kúpu, hóf að afgreiða blöð út um lúgu seint á laugardagskvöldi. Á stéttinni fyrir framan var ævinlega hristingur af fólki, fólk sem var úti á lífinu, unglingar í útisetum, en líka virðulegir borgarar sem þágu með þökkum að geta skyggnst inn í framtíðina með lestri sunnudagsblaðs á laugardagskvöldi. Og svo auðvitað ungskáld sem biðu óþreyjufull eftir að sjá hvort ljóðið þeirra eða smásaga hefði hlotið náð.

Óðar og ég hafði klófest eintak leitaði ég hælis í Fischersundi og opnaði blaðið við gluggaljósin frá Ingólfsapóteki. Og þarna var það. Á samri stundu helltust yfir mig áhrifin af asnanum fjórfalda frá því fyrir viku, ég fléttaði götuna heim. Heimkominn las ég ljóðið aftur, líkt og það gæti tekið breytingum frá einum lestri til annars. Sem það og gerði! Í n-tu yfirferð kom ég auga á prentvillu. Það var eins og rýtingur stingist í hjartað á mér, upphefðin snerist í niðurlægingu, ég var búinn að vera.

Undir hádegi á sunnudegi vakti mamma mig, útgrátin, með blaðið í hendinni. Ég hélt í fyrstu að hún væri að gráta út af prentvillunni, en það var ljóðið sem hafði orkað svona sterkt á hana. Hafði hún þá ekki tekið eftir prentvillunni? Ég renndi hratt yfir hennar eintak og prentvillan var líka þar.

Það voru þung sporin í skólann á mánudeginum. Og nú gerist atvik sem staðsetur okkur rækilega í öðrum tíma: fyrir einu ári fátt í hálfri öld lásu allir menntskælingar Lesbók Morgunblaðsins með ljóði og öllu.

ljod-lesbok-1966-PGunn

Og enginn hafði tekið eftir prentvillunni.