Search
Close this search box.

Pistill frá höfundi

RSI2015-Hofundurinn-pistlar

Pétur Gunnarsson:

Teningunum kastað

Sagt er að aðeins 4% af efni alheims sé sýnilegt, afgangurinn er hulduefni plús orka tómsins sem mun vera hvorki meira né minna en hreyfiafl alls sköpunarverksins. Eins er um egó unga mannsins, mjög lítill hluti af því er sýnilegur, hið innra rúmar hann hulduefni og svarthol. Haustið ´66 hef ég samt afráðið að taka örlagaríkt skref inn á hinn opinbera vettvang. Ég ýtti upp glerhurð Morgunblaðshallarinnar. Vélarhljóð frá prentvélum á jarðhæð barst til eyrna inn í lyftuna á leið upp á þriðju hæð. Brosmild stúlka vísaði mér á skrifstofu þar sem ritstjóri Lesbókar, Sigurður A. Magnússon, sat með hárið í bylgjum upp frá háu enni, vangaskegg og hökutopp eins og grískur Pan. Jafnframt hárbeittum Lesbókarpistlum, var hann hnífskarpur leikdómari blaðsins. En tók mér af ljúfmennsku, meðtók ljóðið og sagði mér að hringja eftir helgi.

Um leið var eins og jörðin hægði á snúningi sínum, það var föstudagur og um kvöldið fór ég á Borgina og fékk mér að venju tvöfaldan asna. En að þessu sinni fann ég ekki nein hrif. Ég sló Stebba vin minn fyrir öðrum, en það sama gerðist, það gerðist ekki neitt. Undir venjulegum kringumstæðum hefði ég átt að verða þvoglumæltur og riða á fótum. Á heimleið lék ég mér að því að ganga eftir þráðbeinni línu gangstéttanna.

Kominn heim úr skóla á mánudeginum hóf ég að hringja í skiptiborðið á Mogganum. En Sigurður var ekki í húsi. Ekki heldur á hálftíma fresti. Á þriðjudeginum hafði ég skipt um skoðun og hætt við birtingu, vonaði að ljóðið fengi að lognast út af í skúffu ritstjórans. En á föstudeginum greip mig einhver hybris og nú var engu líkara en Sigurður hefði beðið við símann. Hann ætlaði að birta ljóðið.

Hvenær?
Núna!

Það þyrmdi yfir mig. Lesbók Morgunblaðsins var þvílíkt stórveldi. Hún fylgdi sunnudagsblaðinu sem var þeim mun voldugri stærð að dagblöð komu ekki út á mánudögum, þetta var lesforði til þriggja daga. Gamall maður, kinnfiskasoginn með yfirgreidda kúpu, hóf að afgreiða blöð út um lúgu seint á laugardagskvöldi. Á stéttinni fyrir framan var ævinlega hristingur af fólki, fólk sem var úti á lífinu, unglingar í útisetum, en líka virðulegir borgarar sem þágu með þökkum að geta skyggnst inn í framtíðina með lestri sunnudagsblaðs á laugardagskvöldi. Og svo auðvitað ungskáld sem biðu óþreyjufull eftir að sjá hvort ljóðið þeirra eða smásaga hefði hlotið náð.

Óðar og ég hafði klófest eintak leitaði ég hælis í Fischersundi og opnaði blaðið við gluggaljósin frá Ingólfsapóteki. Og þarna var það. Á samri stundu helltust yfir mig áhrifin af asnanum fjórfalda frá því fyrir viku, ég fléttaði götuna heim. Heimkominn las ég ljóðið aftur, líkt og það gæti tekið breytingum frá einum lestri til annars. Sem það og gerði! Í n-tu yfirferð kom ég auga á prentvillu. Það var eins og rýtingur stingist í hjartað á mér, upphefðin snerist í niðurlægingu, ég var búinn að vera.

Undir hádegi á sunnudegi vakti mamma mig, útgrátin, með blaðið í hendinni. Ég hélt í fyrstu að hún væri að gráta út af prentvillunni, en það var ljóðið sem hafði orkað svona sterkt á hana. Hafði hún þá ekki tekið eftir prentvillunni? Ég renndi hratt yfir hennar eintak og prentvillan var líka þar.

Það voru þung sporin í skólann á mánudeginum. Og nú gerist atvik sem staðsetur okkur rækilega í öðrum tíma: fyrir einu ári fátt í hálfri öld lásu allir menntskælingar Lesbók Morgunblaðsins með ljóði og öllu.

ljod-lesbok-1966-PGunn

Og enginn hafði tekið eftir prentvillunni.

 

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email