Search
Close this search box.

Spjallþráður

RSI2015-Hofundurinn-pistlar

Kristín Ómarsdóttir og Sigurlín Bjarney Gísladóttir skrifast á:

Nokkrar hugleiðingar um buxnaklaufar, hormóna og Fridu Kahlo

14.3.2016

 

Sæl, mín kæra!

Takk fyrir bréfið og bréfin öll. Það er lúmsk þerapía fólgin í því að skrifa bréf og skrifast á við pennavinkonu. Ég ætla núna að gera tilraun til að greina í hverju þerapían er fólgin: 1. Ávarp: að segja öðrum frá er hollt og gott. 2. Samtalið: bréfaskrif eru vísir að samtali sem fær andrúm og tíma. Bréfinu er hægt að breyta allt þar til það er sent og þá hefst biðin og engin leið að vita hvað viðtakandinn er lengi að lesa og svo svara. 3. Frásögnin: Þörfin fyrir að segja öðrum frá, vera heyrð og séð, er mjög djúpstæð og örugglega ein af grundvallarþörfum manneskjunnar. Rithöfundar og listamenn almennt hafa þessa þörf í miklum mæli mundi ég halda. 4. Man ekki hvað númer fjögur gæti verið (eins og í laginu með Violent Femmes en þar var það nr. 8, þekkirðu það?) 5. Eitthvað orð eða hugtak sem er nafnorð í eintölu karlkyni sem er síðan útskýrt á röklegan hátt. Fyrirgefðu, þetta fór út í einhverja vitleysu. En sem sagt ég hef komist að þessari niðurstöðu (svo ég haldi mig við rökhugsunina): Rétt eins og læknar ávísa lyfseðlum, hreyfiseðlum og vonandi líka ávísun á ljóðabókalestur þá ættu læknar að ávísa bréfaskrifum og gefa nafn og heimilisfang á nýjum pennavini og segja ,,Skrifaðu bréf. Segðu þetta allt í bréfi!” Já, þetta gæti haft góð áhrif á heilsufar þjóðarinnar.

Í nótt var ég í draumum mínum stödd á æskuheimili mínu. Lá í gamla rúminu og var að lesa í bók en þá fór alltaf að rjúka úr henni og einhverjar glæður að kvikna. Ég reyndi að blása á þær og hrista bókina útum gluggann en alltaf blossaði reykurinn upp. Vaknaði síðan við brunabjölluna í húsinu en það var enginn eldur. Þessi bjalla fer reglulega af stað í hér húsinu og ég er alltaf mjög róleg yfir því þar sem hingað til hefur enginn eldur kviknað. Núna stóð mér hins vegar ekki á sama, út af draumnum. Ætla að túlka hann þannig að ekkert fær stöðvað skáldskapareldinn, neistinn er kviknaður. Í dag ætla ég að blása eldmóði.

Allt í einu hugsa ég mikið um nótissubækur yfirleitt. Vonandi nota allir svona bækur sem hækju, sálarhækju. Vonandi smitum við alla sem lesa  þessi bréf til að nota svona hækjubækur. Bókin mín er að verða búin, bara ein opna eftir. Áðan blossaði texti inn í hana. Ég fyllist alltaf mikill angist þegar bækurnar klárast því þá verða skil eða rof sem tilviljunin ein býr til og ég þarf að byrja á nýrri bók. Eins og hugsun sem er knúin til að slitna í sundur. Færð þú svona nótissukompusöknuð þegar bækurnar þínar klárast?

Skáldskapurinn og listin brjóta alls konar múra. Til dæmis múra tíma og rýmis, þar getum við verið á mörgum stöðum og mörgum tímum samtímis. Skáldskapurinn teiknar uppskrift að nýrri tímaskynjun, nýrri rýmisskynjun og blandar saman á óvæntan hátt, gefur nýja skynjun sem er bæði fersk og forn. Kannski (ef til vill) erum við alltaf (án þess að taka eftir því) á mörgum stöðum og mörgum tímum samtímis, margþættar samsetningarverur. Engir tveir hafa sömu tíma- og rýmisskynjun og þess vegna geta listaverkin verið svo ólík. Ætli virkni skynfæra erfist? Ætli sé hægt að þjálfa skynfæri? Ég ætla að bjóða upp á hóptíma í íþróttahúsi þar sem sjónskynjun er þjálfuð með svita og tárum, bragðskynið líka. Hmmm, hér er komin ný íþróttagrein: skynfæraþjálfun og skynfærafræðingar skrifa lærðar greinar um ávinninginn fyrir heilsu þjóðarinnar.

Í dag ætla ég að vinna í ljóðahandriti þar sem ég hef útnefnt Fridu Kahlo sem leiðsögumann minn (hún er svolítið að reyna að troða sér inn í ljóðin). Ætla að eyða deginum í hennar kompaníi. Í síðustu bók var heilög Barbara leiðsögumaðurinn og héðan í frá ætla ég alltaf að hafa leiðsögumann sem verndar mig og hvetur áfram. Að halda inn í skáldskapardýpið er hættulegt og þá kemur leiðsögumaðurinn til bjargar. Það má greina örlítið trúarlega þræði í vinnu minni, tröllatrú á mátt skáldskaparins.

Adios,

Bjarney

Ps hlakka til að fá mynd frá þér en ég lofa mynd með næsta bréfi.

~

15 iii 016

Sæl, mín kæra!

Á tímabilinu sem bréfið barst og ég les fékk ég  kvef, sit undir kanadísku teppi sem er af gerð sem á að hafa dreift bólusótt á meðal indjána; einhverjir segja söguna ósanna; aðrir telja að teppunum hafi verið dreift á meðal indjána í efnahernaðsaðgerð; aðrir að slys hafi gerst. Mikið rétt: bréfaskipti eru þerapía – þó ekkert okkur hrjái auðvitað; já, læknar ættu að ávísa bréfaskrifum sem meðferð. Til hamingju með drauminn sem braut múrana. Verður ekki Skynþjálfunardeild stofnuð á nýja Landspítalanum? Oftast sakna ég janúars þann fyrsta febrúar og febrúars fyrsta mars, en ekki nótissubókanna þegar þær klárast. Takk fyrir þetta: l ei ð s ö  g u m a ð u r ! Mun hefja leit strax. Frida Kahlo var ekkert blávatn. Ég rakst á þessa klausu, í bréfi frá henni, hérna nefnir hún André Breton og félaga, en hún dvaldi á heimili hans í París en dreif sig fljótlega á hótel:

Ef þú vissir hvað þetta eru miklir asnar, mig langar að gubba, bölvuð gáfumenni, svo rotnir að ég gat ekki lengur haldið þeim uppi. Það er sannarlega of mikið fyrir mína persónu. Frekar sæti ég á gólfinu á Toluca markaðnum og seldi tortillur en að eiga samskipti við þessar listrænu hórur Parísar. Þeir verma rassinn tímunum saman á kaffihúsunum og ræða stöðugt um menningu, list, byltingu, ímynda sér þeir séu guðir, eitra loftið með kenningum sem rætast aldrei. Daginn eftir er ekkert til að borða því enginn vinnur, en þeir lifa eins og sníkjudýr á ríkum hórum sem dá þá sem listræna snillinga.  

Kannski lygaklausa, fölsuð. Frida mun leiða þig á slóðir utan alfaraleiðar – væmið að segja þetta – hún hefði aldrei orðað þetta svona – skemmtileg, passjónheit, erfið – veit það ekki.

Í fyrradag sá ég kvikmynd á RÚV-sarpnum sem vinkonur mínar bentu mér á, hún var sýnd í sjónvarpinu þann sjötta mars og heitir Wadjdaa, eftir aðalpersónunni, og fjallar um stelpu sem langar í reiðhjól. Sjáðu myndina. Leikstjórinn heitir Haifaa Al Mansour, fyrsti kvenleikstjóri Sádi Arabíu. Myndin segir margt í fáum orðum en ég tala ekki um efniviðinn hér, fór bara að velta þessu fyrir mér eftir á:

Menningarverkfræðingar í samfélaginu – sem þykist vera praktískt – eru ansi ópraktískir. (Ath.: Stundum er praktík í uppáhaldi, stundum í skammarkrók). Stelpur eru aldar upp við hannyrðir, látnar setja saman liti, fletta tískublöðum. Á meðan tefla strákarnir við öldungana sem eru orðnir of linir til að stunda hýðingar. Þó hæfileikarnir liggi ekki endilega á útlitssviðinu fá þær þjálfun í að púsla litum og formum, þjálfun í fegurðarskyni. Bíómyndir eftir konur hafa fallegt útlit. Þær strúktúréra bæði frásagnarbygginguna og útlitsbygginguna og einhvern veginn öðruvísi. Hér fer orka og menntun til spillis, á meðan fjárkistlar kvikmyndasjóðanna haldast jafn læstir fyrir þessu fagauga. Það vildi ég sagt hafa.

Um daginn fór ég í búð sem selur dýr konuföt, gekk milli slánna, hugsaði: þetta er búð fyrir einmana konur. Það var búið að teikna einsemd í blússurnar, peysurnar, kjólana.

Hvað er teiknað í lopapeysur? Jakkaföt? Vel á minnst: Hefðbundnar buxnaklaufar nú á dögum þykja mér vélrænar, þær minna á hanskahólf. Áfram buxur og pils með hliðar- eða mjaðmaklauf. Að teikna línu eftir miðjum líkamanum er dáldið óhuggulegt, ef maður fer að pæla í því, eins og að kljúfa manninn í tvennt, frá hvirfli, beint niður. Það meiðir augað, + symmetrían, + eitthvað sem ekki sést. Línan samanstendur sem dæmi af hnöppum niðureftir skyrtunni, við tekur rennilás; hálsbindi hylur skurðinn að hluta. Miðjusaumur að aftan særir ekki augað afþví bakið er sterkt, framhliðin er viðkvæm, vulnerable – viltu bráðum finna orð handa RSÍ í stað vulnerable?

Spennutreyjur eru hérmeð stranglega bannaðar.

Adios,

k

ps   mynd fylgir

FullSizeRender (3)

~

17. mars 2016

Sæl, mín kæra!!

Takk fyrir bréfið og orðin hennar Fridu og fyrir myndina fínu. Getur verið að næsti leiðsögumaður þinn leynist á myndinni? Á þessu augnabliki er ég algjörlega blankó, flæðilínan stífluð og fingurnir stirðna reglulega á lyklaborðinu. Handskrifar þú texta? Notarðu blýant eða penna? Er ég nokkuð að taka viðtal við þig, svona óbeint? Ég hef frá áramótum skrifað morgunsíður á hverjum degi (bókin sem ég las sagði þrjár síður og þá skrifa ég tvær, aldrei að hlíða, aldreialdrei) en núna síðustu daga hefur kvarnast úr þessu. Ástarþráin er eitthvað að trufla mig. Best finnst mér að skrifa með blýanti sem hefur nýlega verið yddaður, orðin verða mýkri ef blýantur fær að draga þau upp. Ætla að prufa að teikna eða myndpára með blýanti. Þar sem orðin koma svona hægt fram og fingurnir stífir á borðinu þá ætla ég að koma mér í háttinn og gera aðra tilraun á morgun. Morgunmýkt og blýantsmýkt fá að mætast í dögun, bráðum kemur dögun, það er alltaf bráðum að koma dögun. Nú ganga orðin til hvílu, buenos noches!

18. mars 2016

Kæra Kristín!

Til að koma í veg fyrir rugling hjá lesendum þar sem nú kemur nýtt bréf á nýjum degi þá ákvað ég að ávarpa þig með nafni, því ávarpið sýnir strax hvor röddin talar. Það er formlegra og meira í ætt við bréfaskrif á pappír. Ég ætla að athuga með þessa bíómynd sem þú nefndir, takk fyrir ábendinguna, það er svo gaman að fá svona bíómyndameðmæli. Punkturinn um þjálfað sjónrænt fegurðarskyn kvenna er áhugaverður og núna ætla ég að horfa eftir því þegar kemur að bíómyndum eftir konur. Vonandi, vonandi fáum við bráðum fleiri íslenskar bíómyndir eftir konur um konur og í staðinn fyrir að Ingvar E. Sigurðsson sé á brókinni í hrörlegu húsi í litlu þorpi fáum við Ólafíu Hrönn Jónsdóttur í galakjól að leysa heimsvandann. Ólafía er leikkonan með undirölduna en hún getur galdrað fram djúpan harm með nærverunni einni saman, með því að standa á sviðinu og vera. Í einu leikritinu sem ég skrifaði einu sinni og er nú í skúffunni og verður þar áfram eru tvær persónur og ég sá alltaf fyrir mér Ólaf Darra og Ólafíu Hrönn í hlutverkunum: Ólafía og Ólafur, tvær undiröldur. Það væri þess vegna hægt að setja þau á svið og láta þau þegja, það yrði alltaf upplifun. En sem sagt fleiri bíómyndir þar sem krísur kvenna fá að blómstra, við erum búin að fá svo margar fínar myndir um krísur karla og þegar við fáum krísur kvenna líka þá sjáum við mögulega að þær eru alveg eins, þessar krísur sko eða næstum því, eina sem er ólíkt er hormónasamsetningin en það jafnast eflaust út einhvers staðar, einhvern tímann á einhvern dularfullan hátt. Vorum við nokkuð búnar að ræða um hormónana? Ég veit að það eru í rauninni þeir sem stjórna heiminum. Alls konar hormónar í alls konar hlutföllum sem eru alltaf að breytast og við erum berskjölduð gagnvart áhrifamætti þeirra. Trausthormónið oxitocyn (tengist víst óskilyrtri ást) er nauðsynlegt en getur orðið hættulegt ef við höfum of mikið af því, það er hættulegt að treysta öllu og öllum í blindni. Taugaboðefnið dópamín stjórnar mjög mjög miklu þegar kemur að kynhegðun og umgengni við mat og eftir því sem árin færast yfir þá fá konur víst meiri karlhormón og karlar meira af þeim kvenlegu (ég er að tala um estrógen og testósterón) og þess vegna verða karlar mýkri og meyrari með aldrinum á meðan konur fara að taka miklu meira pláss og þora að stuða. Kannski erum við sjálfar að sigla inn í testósterón tímabil en estrógenið heldur því vonandi í skefjum. Jafnvægið er alltaf æskilega ástandið en ætli við séum nokkurn tímann í jafnvægi? Er janvægi til sem ástand? Æ hver ákvað að jafnvægi væri æskilegasta ástandið? Þú hefur öruggleg margt og mikið að segja um hormóna en það væri gaman að skrifa út frá þeim og leyfa þeirra rödd að hljóma. Æ, svo langar mig að komast út úr kynjatvenndarhugsuninni, hefja mig yfir hana því í henni felst svo mikill samanburður og líka valdabarátta. Það er svo stutt í karlfyrirlitninguna hjá mér og líka innbyggðu kvenfyrirlitninguna (og dómhörkuna yfir höfuð sko sko). Mig grunar að hlutir eins og raddstyrkur (dýpt), líkamsbeiting og fas hafi allt að segja. Til dæmis er engin tilviljun að Sigmundur Davíð sé í valdastöðu með  þessa djúpu og fallegu rödd en fátt annað grunar mig, sjáum fyrir okkur Sigmund Davíð með skræka rödd, tafsandi skræka rödd – stundum sjást hugsanirnar okkar utan á okkur, þær laumast inn í liðamótin og beygja þau til. Ég held við séum á villigötum og ættum ekki að skoða kyn né hormón heldur liðamótin. (Mér sýnist ég stöðugt grafa undan öllu sem ég segi, slengi fram staðhæfingum og brýt þær síðan niður jafnóðum, byggja og brjóta, byggja og brjóta, eins gott að ég er ekki múrarameistari). Hmm, þessi liðamótahugmynd var að dúkka upp, þarf aðeins að melta hana og pússa til og útskýri hana betur seinna (og þá þarf að spyrja hvar viltu búa kæra hugmynd? Í bréfi, ljóði eða prósa, eða samtali yfir kaffibolla?). Hér er tilgátan: lífsgátan býr í liðamótunum! Ef við skoðum liðamótin getum við læknað heimsharminn, ræktað mannkynið eins og aldingarð þar sem engar sláttuvélar klippa sundur barnagrös.

Bestubestu liðamótakveðjur,

Bjarney

2016-03-18 19.32.27

~

18 iii 016

Sæl, mín kæra Bjarney,

Útaf kvefinu hafa hugsanirnar fléttast í nokkrar margar fléttur sem binda saman alls konar hár á hausum, ég hélt áfram að skrifa fyrra bréfið eftir að ég lauk því, í huganum, og svara í huganum fyrsta bréfinu þínu, og um leið því næsta, úr varð flækja sem ég leysi ekki með skærum. Einnig útaf kvefinu tafðist að klára að lesa bókina þína – hún er líka bíó, leikrit – ég las bara tímaritsgreinar, um saklausan mann á dauðalista, um hvernig nýir fjölmiðlar breyta stjórnmálum, um últraríkar kommúnistadætur sem eyða hálfri milljón í áfengi á fyrsta klukkutíma afmælisveislunnar. Í dag á ballerína í Bolshoi ballettflokknum afmæli. Til hamingju Anita Putikova. Drekka þau kampavín í kvöld?

Já, ég vélskrifa og handskrifa, blýant, penna, túss, tréblýant, kreyóla, blek, nota ég, vinstri og hægri. Fáðu þér b-blýant, hef alltaf notað hb, núna bé. Skrúfblýant: 9 mm. Á tvo gula yddara, vildi helst hafa yddara og strokleður á öllum borðum, en ég nota ekki mikið strokleðrin núna, en það þýðir ekki að ég stroki ekki út.

Á meðan ég hef pest tel ég mig vita hvernig vinir mínir eigi að haga lífi sínu, síðan breytist ég í fatahönnuð: ég finn mig knúna til, áður en lengra er haldið, og ég hef enn kvef, að bæta við hugrenningarnar um miðjuklaufina og hliðar-, en á þeim endaði bréf mitt í fyrradag:

Eins og ég nefndi ristir, klýfur miðjusaumur búkinn í tvennt, hliðarsaumur fer varlegar í að sneiða líkamann. Í miðjusaumnum sést klofningurinn sem býr í sambandi manneskjunnar við sjálfa sig, við aðra, við heiminn. Sbr.: ástin hressir og bætir, breytist í rányrkju, endar með sársauka, stríði. Þessi mannskepna, við erum hennar gerðar, er galin, og líklega er hormónunum um að kenna. En kannski er best, affarasælast, að unaður endi með hryllingi. Ævi mannsins er: niðurtalning. Ef það væri ekki fyrir kvefið væri ég á leið í afmælisveislu í kvöld.

Takk fyrir ábendinguna um jafnvægið.

Viðbrögðin við krísum kvenna og karla eru (harla) ólík. (Þoli ekki orðið harla). Leikrit um ungan karlmann sem verður geðveikur eða fremur sjálfsmorð er tragedía. Ungar og gamlar grátkonur sitja eftir á leiksviðinu, kyngja tárunum, stokka spilastokk, byrja að gefa í kana, munu spila kana þar til þær deyja í hárri elli. Enginn grætur unga stúlku sem verður geðveik eða fremur sjálfsmorð í bíómynd. Drengurinn er dýrmætari. Hún var alltaf hvort eð er skrýtin, átti ekki sjens. Verðlagið á krísunum – svo ég haldi áfram að tala á $$$$ nótunum – er (harla) ólíkt.

Ætti ég að læra hagfræði?

Hvað kostar fyrsti klukkutíminn í afmælisveislu íslensks olígarks? Að sjálfsögðu kemur mér það alls ekki við. Sérhver dropi á skilyrðislausan rétt á að væta hrjóstugar morgunmjúkar varir hans.  

Mig langar líka að sjá eitthvað annað, ég er sammála þér: ekkert svart hvítt vinstri hægri sál líkami myrkur ljós andi efni peningar kærleikar kona karl hjarta hugur tilfinningar skynsemi; tvenndir sem kljúfa atóm og tefja ferð okkar til óendanleikans.

Kæri pennavinur  minn, uppreisnargirnd þína tek ég mér til fyrirmyndar – systir mín er uppreisnargjörn, mamma mín var það,  ég ætla að verða eins og þið. Áfram oxitocyn og óskilyrt ást! Mig langar að sjá leikritið þitt með Ólafíu og Ólafi. Það er hægt að láta afskrá kynið á sér í Þjóðskránni, eða fer að verða möguleiki – ætli maðurinn fái þá kynmillibilslaun? Áfram liðamót! Skemmtu þér vel í kvöld, yðar einlæg, k

ps     mynd fylgir

frhld ps   manstu: ég tek viðtal við þig í vor

frhld frhld ps   er rétt sem ég frétti rétt áðan að gamma og hið íslenska bókmenntafélag hafi skrifað undir samstarfssamning?

FullSizeRender (2)

~

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email