Kristín Ómarsdóttir og Sigurlín Bjarney Gísladóttir skrifast á:
Blóm í vasa og fluga á visku
29. febrúar 2016
Sæl mín kæra,
Takk fyrir siglinguna sem varð til í bréfinu þínu. Tekurðu eftir vorinu sem lúrir í loftinu? Það er farið að birta svo skart að mig sundlar og í dag er aukadagur á dagatalinu og því ber að fagna með enn fleiri kaffibollum en áður. Ég er aftur farin að taka inn hörfræolíu og finn mun á mér, allt verður mýkra í lífinu ef olíurnar fá að flæða um æðar. Já, þú spurðir um borgarsálfræðinginn. Nei, hann hefur ekki haft samband og kallað mig í stólinn, væri gaman að fá formlegt bréf um stólasessjón. Reyndar hitti ég stundum aðra sálfræðingu til að dempa áfallastreitu og sjálfsefa og rækta sjálfsmildi (þetta er svona orð sem hefur lent í mýkingarefni). Sálfræðingan er klappstýra, hún hefur fulla trú á mér þó ég hafi það ekki alltaf. Svo hitti ég líka markþjálfa reglulega. Ó bój, ó bój, ég þekki svo marga sem fá hroll þegar talað er um markþjálfa og nú afhjúpa ég mig en sú sem ég hitti virkar eins og fimmföld sálfræðing, sjötíu háskólasjúkrahús. Við förum í göngutúr meðfram sjónum og hún nær með fallegri nærveru sinni og spurningum að hjálpa mér að finna þræði til að draga út úr mér, rekja mig upp og sauma mig saman aftur. Taka ákvarðanir í trylltu hugrekki, risastóru hugrekki, láta vaða og þora. Ég get nefnilega verið sjálfri mér svo vond að ég þarf að búa til öryggisnet í kringum mig. Vernda mig gegn sjálfri mér. Þarf að hemja boxarann innra með mér, niðurrifsraddirnar sem rífa mig á hol. Þær eru stundum svo sannfærandi.
Í gærkvöldi skrifaði ég í huganum megnið af þessu bréfi en nú er það að mestu gleymt. Man að niðurstaðan um skrif var þessi: Mikið er gott að við róum ekki öll á sömu miðin. Á meðan sumir veiða karfa eru aðrir í þorski og ýsu og svo eru humarvertíðir og síldarvertíðir og kolmunni og smugan og djúpsjávartegundir og ofvirk síli. Ef við greinum bókmenntirnar eftir fiskitegundum þá er skáldsagan ýsa, við erum sjúk í ýsu og borðum varla annað, þó hinar tegundirnar séu líka góðar, jafnvel miklu betri. Hvað gæti verið humarinn? Ljóðið? Já, já, leyfum humrinum að vera ljóðið og þá eru hvalirnir sögulegar skáldsögur og steinbíturinn er ljóðasagan en hver gæti verið leikritið? Hvaða fiskur er með mesta dramað? Þú mátt lesa upp nöfn tilnefndra fiskitegunda og taka síðan umslagið og lesa nafn drama-sigurvegarans. Búum til svona verðlaunaafhendingu, eitt árið eru það fiskitegundir og svo næsta gæti það verið blómategundir og svo ístegundirnar hjá Valdísi. Hefurðu tekið eftir því hvað við lifum á miklum afturhaldstímum? Étum bara þurra ýsu, skáldsagan, skáldsagan, skáldsagan er norm allra norma og svo má hvergi glíma við formið, hvergi bylta né umbylta. Bækur sem komu út fyrir 20 árum mundu aldrei fást útgefnar í dag því þær eru of pönkaðar. Ef ég mundi skrifa Opinberunarbók Jóhannesar í dag mundi ég ganga á milli neikvæðra útgefenda (svo er ég tippalaus holukona í kaupbæti, uss, sorrí nú stuða ég, stuðstuðstuð). Ég hef búið mér til mælikvarða sem ákveður hvort ég nenni að hlusta á listamenn eða ekki og hann er einfaldur: Ef listamaðurinn þorir að vera ljótur þá er ég til í að horfa, leggja við hlustir. Mér finnst þetta algjört grundvallaratriði. Ert þú með einhvern svona mælikvarða, hugboð eða leiðarvísi?
Áðan dansaði ég í stofunni við Ane Brun, norska konan með dramatísku röddina. Dansinn leysti eitthvað úr læðingi, eitthvað sem ég veit ekki hvað er en er þarna samt. Ég á alveg eftir að tjá mig um hormónahlutföll, spegilfrumur og útópíur en læt það bíða annarra bréfa. Hlakka til að lesa næsta bréf frá þér og segðu mér nú endilega frá Óskarsverðlaunaafhendingunni sem var í nótt. Nú fæ ég hugboð: mér finnst að þú eigir að lýsa næstu júróvísjónkeppni í Sverge í beinni, það væri eitthvað.
Bestu kveðjur,
Bjarney
ps – hér er danslagið bassinn er svo flottur, bassinn er jörðin!
[youtube https://www.youtube.com/watch?v=1lI30Qw69AQ&w=560&h=315]
~
Fyrsti mars 2016
Sæl mín kæra,
Gott þú náðir að dagsetja bréf á sjaldgæfa gærdeginum, heppni fyrir bréfaskipti okkar að ná dagsetningunni á bréfhaus. Ó, já, ég tek eftir vorinu: í gærmorgun barst lykt af mold inn um gluggann, í morgun vaknaði fyrsti fuglinn klukkan kortér í sex.
Já, hann mun hafa samband – skildi ég hann rétt hefur hann áhuga á að aðstoða alla rithöfunda sem fyrir finnast. Í gær sendi hann e.f. skilaboð: „Örlæti er lykill sem gengur að öllum skrám.“ Ætli það sé málsháttur úr páskaeggi sem hann afritar? Ég svaraði með hraðpóstinum: „Hver hefur efni á örlæti? Ekki einu sinni ríkisstjórnin sem þú starfar fyrir.“ Svarið barst um hæl: „ !!! Örlæti andans, fröken alvitur !!! “ Ég: „Ert þú Jesús?“ Bráðum, eftir að ég las fyrstu kaflana í nýrri bók Dags Hjartarsonar, mun ég rannsaka fyrirbærið efi. Þegar ekkert svar frá sálfræðingnum barst við Jesús-spurninni náði ég í örlætislykilinn úr þrívíddarprentaranum, gekk að nokkrum skrám og mér til undrunar virkar hann, lykillinn. Ég stóð við þverhnípi og fann gust af frelsi án þess mig langaði til að kasta mér fram af, svona gust sem kynni að fylgja mér héldi ég áfram að vera örlát á andann. (It´s such a release, eins og segir þegar maður kemur frá tannlækninum.) Brauðmola-þeorían ilmar af nísku. Frjálshyggjan er ekki frjáls heldur nísk. Ég forsendi þér lykilinn hið snarasta, þú snýrð honum í skrána, skrárnar, ókunnugar dyr opnast: þú munt ekki stökkva fram af en anda að þér létti sem fylgir þér að næstu skrá og næstu, með stigmagnandi létti. Bjóddu óvini þínum út að borða! En við höfum ekki efni á því! Eins og þú segir – kannski ætti maður í stað þess að beita sjálfa sig ofbeldi að beita sig örlæti, en, fyrst og síðast: heiminn. Ég óttast líka sjálfa mig mest og líka þennan sálfræðing, ég efast.
Systir mín lánaði mér bílinn í eftirmiddag, hún er örlát og smá frjáls, ég ók út fyrir bæinn, á stað þar sem álfar gefa manni ósýnilegt nudd. (Endurgjaldslaust svo ég haldi áfram að hugsa jafn svakalega mikið á hagfræðinótum nú sem fyrr.)
Já, ljóð er humar, sushi, skáldsögur ýsa, pizzur, pottréttir, leikrit kolkrabbar, smokkfiskur – rækjusamloka? Ég elska líkingarnar þínar, líkingar skipstjóradóttur. Tími hinnar praktísku skáldsögu fer að líða hjá, gæti ég ímyndað mér, og tími hinnar ópraktísku hefst og endar þegar hún fær nóg af sjálfri sér og praktíska skáldsagan vaknar aftur af hvíld. Ég hef enga mælikvarða sett mér – notast kannski við þefskyn án orðabókar? – en kona sem ég þekkti sagði það sama og þú: ef leikarinn þorir að vera ljótur… Svo er það það með fegurð sem er ljót og lýtið sem er svo fagurt og dularfulla heiminn þar sem venjuleg merking lýsingarorða tapast. Inn í þannig heim hef ég horfið eins og álfur inn í bjarg. Leyniþjónustur heimsveldanna munu um eilífð aldrei leysa dulkóðana þar. Svefninn ræðst á mig, verð að hætta, segi þér frá Óskarsverðlaununum næst, og já, munum að tala um útópíurnar, fötlunina, speglanirnar, allt sem þú nefndir þegar við hittumst á kaffihúsinu (ég vildi ekki segja þér það þar, en borgarsálfræðingurinn sat við næsta borð).
Bestu kveðjur,
k
ps
verður aldrei hægt að selja inn á álfana, auðgast á heilunum þeirra – auglýsing:
iceland where the elves give one a massage for free
~
3. mars 2016
Sæl, mín kæra!
Takk fyrir bréfið fína og lykillinn mættur með sitt örlæti og svo eru líka læti í orðinu örlæti. Núna líður mér eins og heilinn sé að fara að springa og allt taugakerfið heimtar sundferð með tilheyrandi marineringu í potti og gufu. Ég sit yfir handriti sem var samið á sautjándu öld en ritað upp á þeirri átjándu og eftir þriggja daga lestur er ég loksins farin að skilja flest orðin en samt með herkjum. Þetta gengur allt of hægt, ég les allt of hægt og tíminn líður of hratt. Þú talar stundum um úthaldið sem er svo mikilvægt og núna reyni ég að halda þetta út, úthalda með þessu stagli en þetta er líka gaman, tímaflakk er skemmtilegt. Hér á bókhlöðunni sitja allir hoknir yfir skræðum og mér finnst að það ætti að taka upp hreyfitíma tvisvar á dag eins og í frystihúsunum í gamla daga. Þá stóðu allir í vinnslusalnum, tónband fór af stað í kallkerfinu þar sem kona leiddi lappalyftingar og höfuðhringhreyfingar í sal fullum af fólki með hvítar plastsvuntur og hvít hárnet og ég sé þetta fyrir mér hérna. Klukkan 10 fer röddin af stað, allir standa upp frá borðinu og gera leikfimisæfingarnar og setjast svo aftur, samtaka. Þetta sýnir kannski að ég nenni ekki að bera ábyrgð á eigin lappalyftingum heldur heimta rödd í hátalara sem segir mér hvað ég á að gera, oft þrái ég svona raddstjórnun en held að ef ég fengi hana myndi ég fljótlega byrja að hata hana. Ég óttast nefnilega fólk sem talar við mig í boðhætti, ég fer í baklás þegar boðháttur er settur í frumlagið og læt mig hverfa, gufa upp. Ég ætla einmitt í útgáfuhófið hans Dags á eftir og hlakka til að lesa bókina, hlakka líka til að samgleðjast, veit fátt betra en að samgleðjast af fullu hjarta. Því öllum bókum fylgir angist, auðvitað misjafnt á milli bóka en maður getur bókað það að þegar ný bók kemur út þá er það ekki langt í burtu höfundur sem hefur upplifað angist og knýjandi þörf og hefur náð að halda út, úthaldið sig við sköpunarangistina. Ætla að vinda mér í lestur og skrifa meira á morgun og þá verð ég önnur.
Sæl aftur! Nú er kominn fjórði mars. Vaknaði í morgun pínulítið önnur en í gær en tek varla eftir því. Ó ég hlakka til að lesa lýsingu þína á Óskarsverðlaununum og þá er gott að fabúlera um útópíuna. Ég byrja kannski aðeins, tek forskot á sæluna. Sko, ég hef mikið verið að velta þessu fyrir mér hvað dystópían er algeng í skáldskap og leikritum og margir höfundar helga sig henni. Dystópían sýnir hvað heimurinn og samfélagið getur orðið slæmt og á að virka (held ég) sem viðvörun, á að vekja okkur til meðvitundar um ástandið, hversu slæmt það er og hvernig það getur orðið enn verra. Dystópían á að fá okkur til að snúa skipinu við. Sjálfkrafa tengi ég dystópíu við skarpa hugsun og nístandi innsæi á meðan ég tengi útópíuna svolítið við barnaskap og flótta. En ég held að það sé meira spunnið í útópíuna en virðist í fyrstu. Hvenær mun tími útópíunnar koma? Heimurinn og þjóðfélagið getur líka orðið betri en hann er í dag, af hverju lýsum við því ekki í skáldskap? Útópían hefur líka haft þann stimpil á sér að lýsa hinum fullkomna heimi en hann er auðvitað ekki til. Verðum við ekki að redda þessu, skrifa útópísk verk sem leyfa okkur að sjá hvers við erum megnug, að heimurinn og lífið séu að verða betri? Þá munu orðin sprauta í okkur örlitlum skammti af svimandi tilhlökkun í staðinn fyrir lamandi vonleysi.
Ég er ennþá að lesa handritið ÍB 35, fol. og það varð skemmtilegur samsláttur þegar ég rakst á kramda flugu inni í handritinu og ég læt mynd fylgja hér með. Flugan valdi sér fallegan stað til að deyja á en hún liggur yfir orðinu ,,visku” þar sem stendur ,,visku mánans”. Fluga sefur á visku mánans, texti saminn 1660 en skrifaður upp löngu seinna og svo hef ég ekki hugmynd um hvenær hún settist á mánaviskuna og hvort hún dó áður en bókinni var lokað eða hvort hún krambist til dauða og þrýstist algjörlega inn í viskuna.
Bestubestu ciao adios! (ég skora á spegilfrumur þínar að herma þessa kveðju eftir)
Bjarney
ps. það er svo gaman að segja eitthvað smá þegar maður er í raun búinn að kveðja, þá vill maður koma einhverju að sem hafði gleymst eða árétta eitthvað en er alveg að renna út á tíma.
ps ps. Þessi tilfinning plagar mig þessa dagana, mér finnst ég vera að renna út á tíma og þarf að snúa þessu við og láta tímann vinna með mér, snúa mér þannig að meðbyrinn feyki mér í rétta átt eins og fluga sem leitar visku.
~
4. mars 2016
Sæl, mín kæra!
takk takk takk, elska að lesa bréfið, takk. Það ilmar við stofuborðið af blómum í vasa, sem ég keypti um síðustu helgi, nú opnast þau, byrja að syngja, söngurinn heyrist víst ekki með þessum eyrum. Hef prófað að teikna blómin og það er jafn erfitt og að teikna flögrandi fiðrildi og tré í logni. Úff, litla flugan sem flaug á viskuna, settist ofan á hana og dó. Hér minnumst við hennar. En eigum við að minnast viskunnar? Er hún dáin? Hefur hún yfirgefið samfélagið? Úff, hún á alla vega erfitt um vik, heimurinn kýs fáfræði sem hefur fengið ágætt jarðnæði síðustu áratugi, nú blómstrar hún, eins stéttaskiptingin, misskipting, auðsöfnun fárra á kostnað hinna, upplausnarástand ríkir – í morgun vaknaði ég með hroll og hugsaði: hvers vegna fóru menn ekki betur með lítið land? Fólk er fátækt, reitt, brjálað, öfl í samfélaginu nýta sér ástandið til að beina reiðu tilfinningunum í þennan farveg sem heitir fasismi. Úff. Ég skil ekki hvers vegna var farin sú leið að rústa landinu og hvernig má t.d. ignorera vilja fólksins til að halda uppi nútímavæddu heilbrigðiskerfi – í t.d. herlausu landi !!! – í hvað fer almannafé ??? Viskan hvílir undir líki flugunnar. Flugan og hún krömdust saman. Úff. En það hlýtur að vera gaman að rýna í og lesa mörg hundruð ára gömul handrit – þegar þú lýstir hreyfitímanum á safninu mundi ég eftir lýsingum vinar míns sem vann í byggingarvinnu með verkamönnum alls staðar að úr heiminum. Á hálftíma fresti kallaði japanski verkstjórinn japanska hópsins sem vinur minn vann með pása, allir stöðvuðu vinnu og kveiktu sér í sígarettu, reyktu í fimm mínútur, vinnan hófst að nýju. Í staðinn fyrir sígarettupakkann eru komnir símar. Báðum fyrirbærunum fylgir e.k. hugleiðsla. Útvarpið í morgun byrjaði að upptelja hættuleikana sem fylgir tölvuöld: nú dvelji maður stöðugt í óraunveruleika netheimsins, alltaf lækandi á feisbúkk; þetta sé hræðilega óhollt. En býr ekki manneskjan í heimi hugmyndanna og hefur alltaf gert? Þessar vikur finnst mér allt óhollt hollt og gott. Kannski af því ég lifi svo meinhollu lífi. Gefum letinni, nautninni, fíkninni, hvötunum, mennskunni, pláss í útópíunni, þar verður reykt, tölvuleikir leiknir, menn stöðugt að læka og enginn segir orðið: viátf (stafarugl, einn stafurinn kemur x2 fyrir), því viskan býr í súrefninu þar. Þegar ég las bréfið þitt langaði mig strax að skrifa útópíu: um eyju þar sem allt er gott.
Bestubestu ciao adios! k
ps
gátlisti
ekki búin að gleyma Óskarsverðlaununum
eða blómaverðlaununum og fisktegundaverðlaununum
tók á bókasafninu bókina Útópía (Fyrirmyndarlandið) eftir Wislawa Szymborska í þýðingu Þóru Jónsdóttur
ekki heldur búin að gleyma umræðunni um iðnvæðingu skáldskaparins
eða fötluninni
etc
(nú heyri ég allt í einu viðlag sem er svona: ekki búin að gleyma, ekki búin að gleyma, ekki búin að gleyma…)
heyrumst fljótt
~
Fyrsti spjallþráður: Tryllt tungl, kannski-árátta og vissjónsessjón. Lestu meira …
Annar spjallþráður: Hitasótt og hjartasár. Lestu meira …