Alþjóðlega barnabókmenntahátíðin ÚTI Í MÝRI verður haldin í áttunda sinn dagana 6. til 9. október 2016 í Norræna húsinu í Reykjavík. Fjöldi innlendra sem erlendra rithöfunda, myndhöfunda og fræðimanna tekur þátt í hátíðinni, en yfirskriftin er að þessu sinni: Sjálfsmynd – heimsmynd. Dagskrá hátíðarinnar má finna á vef hátíðarinnar: www.myrin.is.
Föstudaginn 7. október er boðað til málþings og rýnt í margvíslegar heimsmyndir og sjálfsmyndir í barnabókum. Í fyrirlestrum og pallborðsumræðum verður meðal annars fjallað um norrænan arf, goðsagnir og fantasíur, spennusögur, raunsæi og rómantík, gagnvirkar barnabókmenntir, lestur og leik. Dagskrá og skráningu má kynna sér hér. Skráningar á málþingið skulu berist á netfangið myrinskraning@gmail.com fyrir 3. október 2016, en skráningargjald er 3.500 kr. Innifalið er kaffi og léttur hádegisverður.
Upplestrar, listasmiðjur og ritsmiðjur fyrir börn á öllum aldri eru í boði fyrir einstaklinga og skólahópa sem njóta frásagna og leiðsagnar úrvals fagmanna, listamanna og rithöfunda frá fimmtudegi til sunnudags. Tekið skal fram að allar vinnustofur og viðburðir fyrir börn eru ókeypis.
Lokadagur hátíðarinnar, sunnudagurinn 9. október, er tileinkaður heiðursgesti hátíðarinnar, Guðrúnu Helgadóttur, en í fyrsta sinn hefur hátíðin sérstakan heiðursgest og dagskrá tileinkaða honum.
Á sama tíma eru í Norræna húsinu tvær áhugaverðar barnamenningarsýningar sem enginn ætti að missa af: norræna hönnunarsýningin Öld barnsins í sýningarsölum á neðri hæð og norrænar myndlýsingar á sýningunni Into the Wind! í anddyri.
Nánari upplýsingar: https://myrin.is/