Search
Close this search box.

Sigurður Svavarsson minning

sisv

Í dag er jarðsunginn frá Hallgrímskirkju mætur félagi úr bókaútgáfu, Sigurður Svavarsson. Siggi var lífsglaður fagurkeri, ljúf og hlý manneskja með stóra faðminn og næman skilning á bókmenntunum. Hann kvaddi svo snemma og snögglega og það er skarð fyrir skildi meðal bókaútgefenda. ,,Og svo færðu borgað fyrir að gera það sem þér finnst skemmtilegast, “sagði hann þegar hann rétti mér fyrstu ávísunina fyrir ritverkin sumarið 1997 fyrir hönd Máls og menningar. Leiðir okkar lágu oftlega saman í útgáfu og í baráttunni fyrir bættu umhverfi bókmenntanna. Þar var Siggi alltaf réttsýnn og lausnamiðaður sáttamaður. Mild og næm kímnigáfan og elskusemin í garð samferðafólks er ljós sem skín og lýsir þeim sem áfram ganga. Ég er þakklát fyrir samfylgdina og mæli fyrir hönd ótal höfunda sem áttu Sigga að sem félaga og vin.  Eiginkona, fjölskylda og vinir fá dýpstu samúðarkveðjur á erfiðri stundu.        

Kristín Helga Gunnarsdóttir


Rithöfundasamband Íslands þakkar Sigurði samfylgdina og sendir fjölskyldu hans og ástvinum samúðarkveðjur.

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email