Sigríður Eyþórsdóttir látin

Sigríður EyþórsdóttirSigríður Eyþórsdóttir, kennari og leikstjóri, lést 22. júlí 2016 á Landspítalanum.

Sigríður fæddist í Torfabæ í Selvogi 21. ágúst 1940. Hún lauk leikaranámi frá Leiklistarskóla LR og kennaraprófi frá KÍ. Að loknu námi fékkst Sigríður um langt skeið við leiklistarkennslu og leikstjórn, auk þess sem hún sá um barna- og unglingaþætti í Ríkisútvarpinu. Árið 1982 stofnaði hún leikhópinn Perluna sem sett hefur upp fjölda leikrita og flutt sýningar víða um heim. Fyrir menningarstörf sín hlaut Sigríður margvíslegar viðurkenningar bæði erlendis og hérlendis. Hún fékk riddarakross fálkaorðunnar árið 1997.

Sigríður birti bæði ljóð og smásögur í tímaritum og bókum og skrifað greinar í dagblöð en skrifaði fyrst og fremst bækur og leikverk fyrir börn. Eftir hana liggja m.a. bækurnar Gunnar eignast systur (1979) og Lena Sól (1983) og útvarpsleikritin Ennþá gerast ævintýr og Á Hulduhamri með Kötu frænku.

Rithöfundasambandið vottar afkomendum og aðstandendum Sigríðar samúð.

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email