Search
Close this search box.

Ræða Kristínar Ómarsdóttur við afhendingu Maístjörnunnar

Þetta verður löng ræða sem endar aldrei

Bestu þakkir kæra Landsbókasafn og bestu þakkir Rithöfundasamband Íslands fyrir að veita kóngulóm í sýningarglugga hina yndislegu og fallegu Maístjörnu, takk. Hér niðri á Þjóðdeild vann ég nokkrar umferðir í handritinu, fyrir rúmu ári, tók út ljóð og orti önnur. Takk fyrir aðstöðuna. Hér er gott að vera, lesa og skrifa.

Á Landsbókasafnið við Hverfisgötu kom ég fyrst átján ára og gerði mér ekki grein fyrir hvað lokkaði mig, hverfi ég í huganum þangað veit ég nú að það voru þögnin, lyktin, andaktin, hljóðin þegar stóll var færður til, þegar bókavörðurinn sem sat í hásæti í öðrum salarendanum og las, mjór, í fallegri vestispeysu, stóð upp og hvarf bakvið, þar leit út fyrir að vera hlið inní draum. Hvíslið, lágværar raddir karlkyns. Skúffurnar með spjöldunum sem ég nennti ekki að fletta, kunni aldrei að fletta í, gat ekki lært það, praktískt hef ég fundið á mér að fljótlega þyrfti maður ekki að kunna það. Mjóa konan í fatahenginu sem brosti, hvert smáatriði fatahengisins, síminn á veggnum eða súlunni þar sem maður gat hringt í vin – ég gat kortlagt alla almenningssíma á Stór Reykjavíkursvæðinu á sama tímabili, hvaða sjoppur seldu aðgang að síma og seldu ekki aðgang og tíkallana á símtölunum. Gólfflísarnar og klósettið sem var einsog hvítt garðhýsi eða lystihús.

Þegar ég var 18 nítján ára skólastúlka var ég njósnari (af guðsnáð) – starf sem mér hefði hugnast jafn vel og ritstörf alla vega í órum mínum – á meðan ég las skólabækur njósnaði ég um Einar Kárason sem sat gjarnan við sama borðið yfir hvítu þykku handriti með ritvélastöfum á, ég öfundaði hann – mig langaði að vera með þykkt handrit fyrir framan mig en ég sá ekki fram á að geta samið jafn ótrúlega margar blaðsíður. Græni liturinn í salnum verður alltaf einn uppáhaldslita.

Ég var örugglega óprúttinn njósnari, kunni ekki að skammast mín, átti erfitt með að beizla augnaráðið, gæti hafa eignast heimili í lögreglunni hefði ég haft þörf fyrir að gera réttvísinni gagn, og greiða, haft skoðun og vit á hvað réttast og venjulegast er að aðhafast í flestum málefnum, og þannig helgað líf mitt njósnum – sem ég geri að mörgu leyti – ekið á milli bæjanna í Árneshreppi um daginn og leitað að meintum svonefndum lögheimilisflökkurum sem grunaðir voru um að taka sér stjórnmálafólk til fyrirmyndar og skrá lögheimili á eyðibýlum og öðrum bæjum. En á meðan á aðgerðinni fyrir norðan stóð sat ég uppá Akropólis og ákallaði stríðsgyðjuna sem mælti:

Fátt í heiminum skiptir jafn mikilvægu máli og að elska, minna um vert er að vera elskuð, mest um vert er að elska –

Nú hvað segirðu, mælti ég, ég hélt að ástin væri herfang.

Auðvitað er hún líka herfang – og – elskir þú herfang þitt þarftu ekki að áorka mörgu fleiru á lífsins ferli.

Nú – hm, svaraði ég þegar andvari lavenderblóma strauk vangann.

En hvað ef maður er sjálfur herfang, spurði ég næst.

Snúðu bara útúr, svaraði gyðjan, það er sama aðgerð er herfang elskar og hinn.

Ó – mig langaði til að hlæja en gyðjan vildi græta mig og sagði:

Það er alltaf auðveldast, ódýrast og huglausast að láta einsog fífl en það er of margt annað óhugnanlegra í heiminum, ég hef ekki tíma í hjal –

Ó! Ég hef e e e e e e  lskað – ég e e e e e r – söng andvarinn.

Stjórnmála-

fólk

ljóð

skáld

og

elskhugar

nota tungumálið til að lokka og táldraga – kjósendur, lesendur, elskendur – blekkja, svindla, látast, fíflast, háfleygast – í sömu lotu lofa þau manni sannleikanum – ég verð þín að eilífu. Enginn biður þau samt um að réttlæta list sína og leik með sannleiksvopninu en með einhverjum aðferðum býr maður til þörfina fyrir sig og einhvern tímann f löngu ákvað ég um áramót að heita því að segja alltaf satt – og nú er ég að tala um sjálfa mig sem persónu sem býr ekki í lokuðu herbergi fyrir framan óteljandi dúkkuhús og auðar merkur. Ákvörðunin reyndist heillavænleg. Þegar kom að nýjum áramótum og mér hafði gengið vel að halda heitið í eitt ár, ætlaði ég að fara að slaka á kröfunum, en þörfin fyrir sannleikann var orðin að fíkn, sannleiksást, ég fann enga þörf til tilslakana, með árunum byrjaði ég svo að segja meira satt en nauðsyn bar oft til, svo satt að særði, og nú er reynsla mín önnur: maður verður einmana af því að segja satt – ætli einsemd hverfi eða líði undir lok með lygi?

Þetta var útúrdúr, þetta var útúrdúr með póltitískum boðskap, ég sit enn uppá Akrópólis. Við ætluðum, hélt ég, að ræða hvort ástin væri stríðsrekstur en gyðjan grípur fram í og segir að ég sé líka óvinur minn, blóðflokkarnir þeir sömu, líf mitt njóti góðs af arðráni foringja minna, líf mitt grundvallist á herfangi vinningsliðs og vilji ég breyta því skuli ég stroka út allt sem ég hafi skrifað hingað til og byrja upp á nýtt –

Hm.

Djók.

Ég vil fá að þakka Álfrúnu, Maríu, Vigdísi –  Sigríði /Siggu Rögg, Emilíu og Úu á Forlaginu – Óttari, Þórdísi, Zoe, Yrsu, Ólafi, Árna Birni, Borghildi, Huldu Siggu, Mugga, Sveinbjörgu, Höllu, Gurru, Steinari, Soffíu Dögg, Höllu Dóru, Susan, Grétu, Haraldi, Gunnhildi, Soffíu og freyðivínsklúbbnum, og foreldrum mínum, þau hétu Hrafnhildur og Ómar, og bókin er tileinkuð þeim, Launasjóði rithöfunda og Maístjörnunum Elísabetu, Bergþóru, Eydísi og Jónasi Reyni og öllum hinum ljóðskáldunum í heiminum – öllum – lifandi og dánum – takk fyrir mig – svo vil ég líka fá að þakka hröfnunum á Stór Reykjavíkursvæðinu – á svæðinu eru um tíu hrafnslaupur og ekkert þeirra nýtur verndar, það virðist mega eyðileggja hreiður hrafns ef einhverjum aðila dettur það til hugar. Án fugla verða ekki til ljóð – og ekki bara ljóð – fuglarnir eru aðal fyrirmynd skálda og þeir eru líka lögmætir íbúar landsins, hér er lögheimili þeirra en ekkert ráðuneyti.

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email