Ólöf Eldjárn, þýðandi og ritstjóri, lést 15. ágúst eftir erfið veikindi, 69 ára að aldri
Ólöf fæddist í Reykjavík 3. júlí 1947 og ólst upp í Vesturbænum. Hún var dóttir hjónanna Kristjáns Eldjárns, þjóðminjavarðar og forseta, og Halldóru Ingólfsdóttur Eldjárn. Ólöf lauk prófi í ensku frá Kaupmannahafnarháskóla og og starfaði lengi sem verslunarstjóri Bóksölu stúdenta og ritstjóri hjá Bókaforlagi Máls og menningar og Eddu útgáfu. Frá 2007 var hún sjálfstætt starfandi þýðandi og yfirlesari og eftir hana liggur fjöldi þýðinga, m.a. Purpuraliturinn (1986) e. Alice Walker, Heimur feigrar stéttar (1990) og fleiri verk eftir Nadine Gordimer, Umbreytingin (1997) eftir Liv Ullman og Kastaníugöngin (1979) eftir Deu Trier Mørch.
Ólöf vann til fjölda ára trúnaðarstörf fyrir Rithöfundasambandið og hafði verið félagslegur endurskoðandi sambandsins í tæp tuttugu ár.
Rithöfundasamband Íslands þakkar Ólöfu Eldjárn samfylgdina og sendir fjölskyldu hennar samúðarkveðjur.