Search
Close this search box.

Nýtt leikskáld Borgarleikhússins

Tilkynnt var um val á nýju leikskáldi Leikritunarsjóðs Leikfélags Reykjavíkur við hátíðlega athöfn í Borgarleikhúsinu í gær.salka Frú Vigdís Finnbogadóttir, stjórnarformaður Leikritunarsjóðs tilkynnti  Sölku Guðmundsdóttur sem næsta leikskálds Borgarleikhússins.  Alls sóttu 39 um starfið.  Fjögur leikskáld hafa þegar starfað á vegum leikritunarsjóðsins með prýðilegum árangri, Auður Jónsdóttir árið 2009 og Jón Gnarr var leikskáld hússins árið 2010 og verk hans Hótel Volkswagen var sett upp í framhaldi af því. 2012 tók Kristín Marja Baldursdóttir við keflinu og skrifaði Ferjuna. Tyrfingur Tyrfingsson var einnig leikskáld Borgarleikhússins frá 2013-2015 og skrifaði Auglýsingu ársins sem frumsýnt verður í apríl á Litla sviðinu.  

Salka Guðmundsdóttir er þýðandi og leikskáld. Hún lærði leiklistarfræði í University of Wales, Aberystwyth, skapandi skrif í University of Glasgow og þýðingafræði í Háskóla Íslands. Meðal leikverka hennar má nefna Súldarsker, Hættuför í Huliðsdal og Old Bessastaði. Hún hefur meðal annars þýtt Emmu eftir Jane Austen og Hver er hræddur við Virginíu Woolf? Eftir Edward Albee. Leikverk hennar hafa ratað á svið í Skotlandi, Ástralíu og Danmörku. Salka er annar stofnanda leikhópsins Soðið svið.

Um Leikritunarsjóð Leikfélags Reykjavíkur Á aðalfundi Leikfélags Reykjavíkur þann 15. október árið 2007 var samþykkt stofnun sjóðs til eflingar leikritunar. Markmið Leikritunarsjóðs er að efla nýsköpun og fjölbreytni í íslenskri leikritun, auka vægi leikritunar í samfélaginu og stuðla að því að hún njóti virðingar í samfélagi lista. Formaður stjórnar sjóðsins er frú Vigdís Finnbogadóttir. Aðrir í stjórn eru Brynjólfur Bjarnason og Kristín Eysteinsdóttir. Auglýst er eftir leikskáldi ár hvert og stjórnin velur skáld úr hópi umsækjenda sem boðið er eins árs samningur við Borgarleikhúsið. Viðkomandi skal þegar hafa sýnt árangur á ritstörfum og skáldskap. Skáldið fær aðstöðu í leikhúsinu og er hluti af starfsliði Borgarleikhússins. Kappkostað er að veita leikskáldinu aðgang að allri starfsemi Borgarleikhússins og kynna því eiginleika leiksviðsins og töframátt þess. Það nýtur aðstoðar, leiðsagnar og hvatningar leikhússtjóra, leiklistarráðunauta og annars starfsfólks leikhússins og á kost á samræðum við leikara, leikstjóra og leikmyndahöfunda auk þess að sitja æfingar á verkefnum Borgarleikhússins. Unnið skal að ritun leikverks á tímabilinu með uppsetningu í huga, auk þess sem skáldið kynnir sér leikhúsformið. Stefnt er að því að leikverk, eitt eða fleiri, sem unnin eru á samningstíma, verði sviðsett í Borgarleikhúsinu.

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email