Search
Close this search box.

Nýr heiðursfélagi Rithöfundasambands Íslands

veggurinn
Sigurður Pálsson, skáld, var í kvöld gerður að heiðursfélaga í Rithöfundasambandi Íslands.

Hann er þrítugasti og þriðji heiðursfélagi sambandsins frá upphafi.

Sigurður Pálsson gerðist félagi í Rithöfundasambandi Íslands árið 1976. Hann var formaður sambandsins á árunum 1984-1988. Hann er eitt af okkar kunnustu ljóðskáldum, en auk þess hefur Sigurður sent frá sér leikverk, skáldsögur og þýðingar.
Sigurður er margverðlaunaður höfundur með stórt höfundarverk. Nýlega lauk hann við magnaða þrenningu sína með Táningabók, en fyrir voru út komnar Minnisbók og Bernskubók. Fyrir Minnisbók fékk hann íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2007.
Sigurður var verið tilnefndur til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs fyrir ljóðabók sína Ljóð námu völd. Hann hefur verið Borgarlistamaður Reykjavíkurborgar og árið 2009 var hann valinn leikskáld ársins og fékk Grímuverðlaunin fyrir leikverkið Utan gátta.
Frakkar hafa tvívegis heiðrað Sigurð Pálsson fyrir skáldskap. Hann fékk árið 2008 Riddarakross frönsku heiðursorðunnar fyrir framlag við kynningu á franskri menningu á Íslandi. Fyrir átti hann Riddarakross af orðu lista og bókmennta frá franska ríkinu sem hann fékk árið 1990.
Nýliðið starfsár hefur verið viðburðarríkt hjá skáldinu. Í vetur frumsýndi Þjóðleikhúsið Segulsvið, nýtt verk eftir Sigurð, Táningabók kom út fyrir jól og vakti mikla athygli.
Í vetur var Sigurður valin fyrstur skálda til að gegna starfi við hugvísindasvið Háskóla Íslands sem kennt er við Jónas Hallgrímsson. Starfið er ætlað rithöfundum til að vinna með ritlistarnemum í eitt eða tvö misseri í senn og efla ritlistarnám við Háskóla Íslands.

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email