Nýju verkefni hleypt af stokkunum: Höfundaheimsóknir í framhaldsskóla

Miðstöð íslenskra bókmennta hefur nú hleypt af stokkunum verkefni sem ber heitið höfundaheimsóknir í framhaldsskóla, þar sem rithöfundar heimsækja skólana, hitta nemendur í kennslustund og ræða við þá um bækur sínar.

Guðrún Eva Mínervudóttir, Auður Ava Ólafsdóttir, Sigríður Hagalín og Kristín Helga Gunnarsdóttir

Markmið verkefnisins er að hvetja nemendur til lestrar og auka skilning þeirra og áhuga á bókmenntum og starfi rithöfunda.

Höfundaheimsóknirnar hefjast nú á vorönn, í fyrstu umferð taka fjórir rithöfundar þátt og mæta í tíma til nemenda í íslenskum bókmenntum þar sem þeir fjalla um og ræða bækur sínar. Nemendurnir hafa þegar lokið við að lesa a.m.k. eina valda bók þess höfundar sem kemur í heimsókn og fá tækifæri til að bera upp spurningar og vangaveltur sínar við höfundinn eftir lesturinn. 

Höfundarnir sem skólarnir hafa óskað eftir nú í fyrstu umferð eru: Auður Ava Ólafsdóttir, Kristín Helga Gunnarsdóttir, Guðrún Eva Mínervudóttir og Sigríður Hagalín.

Eftirtaldir skólar taka á móti höfundunum í heimsókn á þessari önn: Menntaskólinn við Hamrahlíð, Menntaskólinn við Sund, Tækniskólinn og Kvennaskólinn í Reykjavík.

Markmiðið er að bjóða nýjum skólum til leiks á haustönn og vonandi enn fleiri á komandi misserum.

Verkefnið er unnið í góðu samstarfi Miðstöðvar íslenskra bókmennta við Rithöfundasamband Íslands, Skólameistarafélag Íslands og með styrk frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu. 

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email