Search
Close this search box.

Nýir heiðursfélagar RSÍ

Á aðalfundi þann 28. apríl sl. voru kjörnir tveir nýir heiðursfélagar RSÍ, Vigdís Grímsdóttir og Ólafur Haukur Símonarson.

Vigdís Grímsdóttir gaf út fyrsta skáldverk sitt 1983, smásagnasafnið Tíu myndir úr lífi þínu, sögur um þykjustuleiki og alvörudrauma, sem strax vakti verðskuldaða athygli. Íslenskum bókmenntaunnendum varð það þegar ljóst að hér hljómaði fersk rödd sem vonandi væri komin til að vera. Það sannaði Vigdís vissulega með verkunum sem fylgdu í kjölfarið. Hún hefur sent frá sér fleiri smásögur, fjölda skáldsagna, ljóðabækur, endurminningar og barnabók. Vigdís hefur tekið virkan þátt í starfi RSÍ og sat í stjórn sambandsins frá 1988 til ‘94. Hún hefur hlotið fjölda verðlauna og viðurkenninga fyrir verk sín, þar á meðal Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir skáldsöguna Grandavegur 7, en einnig menningarverðlaun DV, Davíðspennann, viðurkenningu Rithöfundasjóðs Ríkisútvarpsins og tilnefningar til bókmenntaverðlauna Norðulandaráðs. Leikgerðir af skáldsögum hennar hafa komist á svið íslenskra atvinnuleikhúsa, auk þess sem saga hennar Kaldaljós var gerð að kvikmynd fyrir nokkrum árum. Vigdís hlaut riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu fyrir ritstörf árið 1998.

Ólafur Haukur er einn af stofnfélögum Rithöfundasambands Íslands. Hann sat fyrst í stjórn sambandsins 1974 til ’76 og gegndi síðan embætti varaformanns frá 1994 til 2002. Fyrsta bók Ólafs kom út 1970, ljóðabókin Unglingarnir í eldofninum, en fáir íslenskir rithöfundar hafa reynst jafn afkastamiklir og sent frá sér jafn fjölbreytt verk á flestum sviðum ritlistar. Ólafur Haukur er eitt fremsta leikskáld okkar – hefur skrifað tugi verka sem notið hafa mikillar hylli leikhúsáhorfenda, bæði söngleiki, gamanleiki, ádeiluverk og hádramatísk leikrit. Húmorinn er þó aldrei langt undan og lyftir jafnan verkum hans í hæstu hæðir. Eftir skáldið liggja auk leikritanna mikill fjöldi skáldsagna af fjölbreyttu tagi, smásagna, barna- og unglingabóka, söngtexta og laga, þar á meðal sumar af vinsælustu barnaplötum allra tíma. Leikrit hans Bílaverkstæði Badda og Hafið voru einnig gerð að kvikmyndum. Verk Ólafs hafa hlotið fjölda verðlauna. Hann hreppti frönsku glæpasagnaverðlaunin Les Boréales de Normandie fyrir bókina Líkið í rauða bílnum, menningarverðlaun DV fyrir leikritið Hafið, viðurkenningu úr Rithöfundasjóði Ríkisútvarpsins, barnabókaverðlaun Fræðsluráðs Reykjavíkur og tilnefningar til Norrænu leikskáldaverðlaunanna og Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs.

Ólafur Haukur var á fundinum og veitti viðurkenningunni viðtöku en Kristín Ómarsdóttir kom og flutti ávarp Vigdísar:

Kæru vinir.

Fátt er hollara haltri skáldkonu en að fá viðurkenningu, nema ef vera skyldi að henni fótfrárri skáldkona flytti félögunum nokkur þakkarorð á nákvæmlega sama tíma og sú halta dólar sér, með leggi sína og skeljar, milli þúfna í sveitinni sinni í þeirri vímu sem náttúran ein getur veitt frjálsri manneskju.

Þegar ég var stelpa eignaðist ég draum sem hefur fylgt mér allar götur; ég þráði að geta verið á tveimur stöðum í einu, samtíms í fallhlíf yfir Breiðafirði og í sundbol á meðal ljónanna í Kongó; ég hef satt að segja barist við þessa löngun alla tíð bæði í lífinu, það hefur aldrei gengið upp, og í skáldskapnum með allskonar tiktúrum kaflabrellum, persónufixi, blekkingarleiðum og sjónarhornaflakki, en auðvitað tókst mér það ekki heldur, ekki alveg, ekki nema næstum því, það vantaði alltaf eitthvað upp á, þannig er baráttan og það er nú heili verkurinn – en svo gerast undrin einmitt og akkúrat núna, hér og nú, og auðvitað gerast þau hjá ykkur og með ykkur.

Ég ligg sem sagt með leikföngin mín milli þúfnanna í sveitinni en er um leið hérna í Gunnarshúsi með ykkur, sjáiði bara, ég segi ykkur satt; ég er í hári vinkonu minnar, í máttugum nösum hennar og ljúfum raddböndum, ég er í höndum hennar og augunum þegar hún lítur af blaðinu og yfir hópinn núna; ég er í brosinu þegar hún heldur áfram að lesa. Þetta er sannleikurinn; það að sjá og finna hvað lífið getur verið raunverulegt og fjarstæðukennt á sama tíma, já, kannski erum við öll sem eitt að flækjast hvert um annað þvert í alheimi hér stefnuföst og stefnulaus á mörgum stöðum í einu. 

Nema hvað, þið hafið gert þetta mögulegt, kæru félagar, og ég þakka ykkur innilega heiðurinn sem þið hafið sýnt mér, þið eruð náttúrlega bara yndisleg að hafa dottið þetta í hug – og bráðum verð ég mynd á vegg hangandi meðal margra góðra vina sem allir þráðu sitt foldarskart og vildu stilla til friðar – já, stillum til friðar, félagar, stillum til friðar í hverju einasta orði skrifuðu og sögðu, í hverjum einasta draumi, á hverju einasta andartaki, hvar sem við erum stödd og hvert sem för okkar er heitið, stöndum saman öll sem eitt, heiðrum hvert annað allsstaðar, sláum hring um stríðandi heim og stillum til friðar.

Vigdís Grímsdóttir

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email