Search
Close this search box.

Kveðja frá Rithöfundasambandi Íslands

sp

Fallinn er frá Sigurður Pálsson, ástkæra þjóðskáldið og heiðursfélagi Rithöfundasambands Íslands. Sigurður var formaður Rithöfundasambandsins á árunum 1984-1988. Hann var ekki sérlundað einveruskáld, en mikil og næm félagsvera, meistari samninganna, lipur og liðugur sáttamaður án þess þó að vera eftirgefanlegur þegar kom að kjarna máls og grundvallarréttindum. Hann hafði fagurt lag á sannfæringunni og líka auðmjúka nálgun svo að lokum mundu fæstir upprunaleg deilumál og niðurstaða náðist átakalaust.

Hvað sem hver segir
byggir friður á réttlæti

Hvað sem hver segir
er fegurðin ekki skraut
heldur kjarni lífsins

Já gefðu mér rödd
gefðu mér spámannsrödd
til að bera fegurðinni vitni

Gefðu mér rödd
til að bera réttlætinu vitni.

(Sigurður Pálsson)

Og Sigurður átti rödd sem bar réttlætinu vitni og beitti henni í þágu félaga sinna, í þágu bókmenntanna, listanna og mennskunnar. Höfundar eiga honum svo margt að þakka. Innblásturinn er hið heimsspekilega og listræna frelsi. Nærveran svo ljúf og kímin og réttlætið býr ekki síst í eftirfylgni og hljóðlátri seiglu.

Sigurður orti til þjóðar, um líf og manneskjur,  í stóru samhengi hlutanna. Hann glímdi aldrei við skáldskapinn, heldur dansaði og söng við hann í mjúkri sveiflu og veitti honum vængi. Sigurður var lærimeistari og áhrifavaldur fyrir fjölmarga nemendur sem báru gæfu til að sitja á hans skólabekk. Skáldskapurinn var smitandi ástríða og þannig gat ómerkilegur leiðangur í búðina orðið að byltingarkenndum krossgötum með óvæntum fundi við skáldið á ávaxtatorginu. Ferðalagið stækkaði snarlega og fór um veröldina víða og sólkerfið með ævintýralegum útúrdúrum, glettni og góni af heimspekilegum sjónarhólum.

Hann var fágaður heimsborgari, ásamt sínum elskulega sálufélaga, Kristínu, dýrmætur svipur höfuðborgar. Sigurður var baráttumaður fyrir vexti og viðhaldi íslenskrar tungu. Hann skynjaði fjársjóði tungumálsins, mat þá í samhengi hlutanna, í því alþjóðlega ljósi sem íslenskan þarf til að greina hið brothætta og dýrmæta fjöregg sem hún er á heimssafni tungumála. Þeirri baráttu lagði hann lið af því afli sem um munar til framtíðar.

Og nú skilja leiðir alltof snemma. Við sem áfram göngum söknum. Við þökkum og metum þá vegi og stíga sem Sigurður varðaði með skáldskap og skapandi hugsun handa okkur hinum að feta.

Hjartans samúð sendum við Kristínu, Jóhannesi Páli og öllum aðstandendum.

Fyrir hönd stjórnar og starfsfólks Rithöfundasambands Íslands,

Kristín Helga Gunnarsdóttir, formaður RSÍ

(Birtist í Morgunblaðinu 3. október)

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email