Search
Close this search box.

Menningarviðurkenningar RÚV

aujaMenningarviðurkenningar RÚV voru afhentar í gær við hátíðlega athöfn í Útvarpshúsinu við Efstaleiti. Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, mennta- og menningarmálaráðherra, Illugi Gunnarsson, og fleiri góðir gestir voru viðstaddir athöfnina sem útvarpað var beint á Rás 1.

Magnús Geir Þórðarson, útvarpsstjóri, tilkynnti að Menningarverðlaun RÚV yrðu haldin á næsta ári. Þar sem því verður hampað sem hæst stendur á hverju listasviði.

Veitt var viðurkenning úr Rithöfundasjóði og styrkir úr Tónskáldasjóði Ríkisútvarpsins og Leiklistarsjóði Þorsteins Ö. Stephensen. Auk þess veitti Rás 2 Krókinn, verðlaun fyrir framúrskarandi lifandi flutning árið 2015 og tilkynnt var um val á orði ársins.

Auður Jónsdóttir hlaut viðurkenningu Rithöfundasjóðs Ríkisútvarpsins fyrir ritstörf.

Fjórir styrkir voru veittir úr Leiklistarsjóði Þorsteins Ö. Stephensen við Ríkisútvarpið. Að þessu sinni var auglýst eftir handriti að frumsömdu útvarpsleikriti og handriti að frumsömdu leiknu sjónvarpsefni. Alls bárust 93 umsóknir. Þar af 29 fyrir útvarpsverk og 64 fyrir sjónvarpsverk.

Þrír styrkir voru veittir fyrir handrit að útvarspleikriti:

Heiðar Sumarliðason fyrir handrit að útvarpsleikritinu Iðraólga.
Kristín Eiríksdóttir fyrir handrit að útvarpsleikritinu Illa leikið.
Salka Guðmundsdóttir fyrir handrit að útvarpsleikritinu Eftir ljós.

Einn styrkur var veittur fyrir handrit að leiknu sjónvarpsefni:

Hafsteinn Gunnar Sigurðsson og Halldór Halldórsson fyrir handrit að leikinni sjónvarpsþáttaröð sem ber nafnið Afturelding.

Hljómsveitin Agent Fresco hlaut Krókinn 2015 – viðurkenningu Rásar 2 fyrir framúrskarandi flutning á árinu. Agent Fresco gaf út stórgóða plötu í ágúst á þessu ári og hefur verið dugleg við að fylgja henni eftir. Hljómsveitin tók Airwaves hátíðina með trompi og sennilega voru það tónleikar þeirra á miðvikudagskvöldinu í beinni útsendingu á RÚV og Rás 2 sem vöktu mesta athygli og voru tvímælalaust með bestu tónleikum hátíðarinnar.

Fössari var valið Orð ársins 2015. RÚV, Stofnun Árna Magnússonar og Mímir, félag stúdenta í íslensku og almennum málvísindum við Háskóla Íslands standa saman að því að leyfa landsmönnum að velja orð ársins. Valið fór fram í opinni vefkosningu á rúv.is og þetta er í fyrsta sinn sem slíkt val fer fram. Valið stóð um tíu orð sem þóttu endurspegla umræðuna í þjóðfélaginu á liðnu ári : deilihagkerfi, dróni, fössari, góða fólkið, grænkeri, hópfjármögnun, lundabúð, matarsóun, núvitund og rafretta.

Á síðasta ári voru veittir 46 styrkir úr Tónskáldasjóði Ríkisútvarpsins. Styrkirnir eru veittir til að semja ný sinfónísk tónverk, kammerverk, verk fyrir einstök hljóðfæri, kórverk, hljóðritun íslenskra tónverka o.fl. Sjóðurinn er gegnumstreymissjóður og því er heimilt að úthluta innistæðu hans eins og hún er á hverjum tíma. Síðasta úthlutun var í árslok 2015. Tónskáldasjóðurinn hefur verið starfræktur í meira en 60 ár. Að honum standa Ríkisútvarpið og STEF.

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email