Meirihluti landsmanna les bækur og fær hugmyndir að lesefni frá vinum og ættingjum. Konur lesa meira en karlar.

Miðstöð íslenskra bókmennta lét nýlega gera könnun á viðhorfi þjóðarinnar til m.a. bóklestrar, þýðinga, bókasafna og opinbers stuðnings við bókmenntir.

Niðurstöðurnar gefa sterkar vísbendingar um að lestur sé enn stór þáttur í lífi landsmanna og að viðhorf fólks sé jákvætt í garð bókmennta, lestrar og opinbers stuðnings við bókmenntir. Athyglisvert er að svarendum á aldrinum 18-24 ára finnst mikilvægara en öðrum aldurshópum að íslenskar bókmenntir hafi aðgang að opinberum stuðningi. Karlar lesa að meðaltali 2 bækur á mánuði en konur 3,5 og þær eru hlynntari opinberum stuðningi við bókmenntir en karlar. Vinir og ættingjar hafa mest áhrif á val á lesefni en einnig vegur umfjöllun í fjölmiðlun þungt.

 

  • Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar telur yfirgnæfandi meirihluti landsmanna, eða um 79%, mikilvægt að íslenskar bókmenntir hafi aðgang að opinberum stuðningi, sem er hærra hlutfall en í sambærilegri könnun frá síðasta ári. Konur eru í meirihluta þeirra og fólk á aldrinum 18-24 ára.

Opinber-studningur

Mynd 1. Niðurstöður fyrir spurninguna Hversu mikilvægt eða lítilvægt finnst þér að íslenskar bókmenntir hafi aðgang að opinberum stuðningi?” Myndin sýnir hlutfall þeirra sem tóku afstöðu.

  • Niðurstöður sýna að 72% svarenda hafa lesið eða hlustað á bók/bækur síðastliðna 30 daga að hluta eða í heild. Um 86% þeirra hafa lesið hefðbundnar bækur á síðustu 12 mánuðum, 31% lesið rafbækur og 35% hlustað á hljóðbækur. Karlar lesa að meðaltali 2 bækur á mánuði en konur 3,5.

Mynd 2. Niðurstöður fyrir spurninguna Hversu margar bækur hefur þú lesið eða hlustað á síðastliðna 30 daga, að hluta eða í heild?” Myndin sýnir hlutfall þeirra sem tóku afstöðu.

  • Samkvæmt niðurstöðum fá um 56% svarenda hugmyndir að lesefni frá vinum og ættingjum, um 40% í umfjöllun í fjölmiðlum, 30% í umfjöllun á samfélagsmiðlum, um 26% í bókabúðum, um 25% í auglýsingum og um 20% á bókasöfnum.

Hugmyndir-ad-lesefni

Sjá ítarlegri niðurstöður um þrjár ofangreindar spurningar hér .

Þátttakendur voru spurðir eftirfarandi sjö spurninga:

  1. Hversu margar bækur hefur þú lesið eða hlustað á síðastliðna 30 daga, að hluta eða í heild?“
  2. Hversu oft eða sjaldan hefur þú lesið/hlustað á bækur með eftirfarandi hætti á síðastliðnum 12 mánuðum?“
  3. Lest þú á íslensku eða öðru tungumáli?“
  4. Hversu oft eða sjaldan hefur þú nýtt þér þjónustu bókasafna á Íslandi á síðastliðnum 12 mánuðum?“
  5.  „Hversu sammála eða ósammála ert þú eftirfarandi fullyrðingu: Það er mikilvægt að þýða nýjar erlendar bækur á íslensku.“
  6. Hvar færð þú helst hugmyndir að lesefni?“
  7. Hversu mikilvægt eða lítilvægt finnst þér að íslenskar bókmenntir hafi aðgang að opinberum stuðningi?“

Sjá heildarniðurstöður könnunarinnar hér .

Zenter rannsóknir framkvæmdi könnunina fyrir Miðstöð íslenskra bókmennta dagana 31. október til 12. nóvember sl., úrtakið var 2480 einstaklingar, 18 ára og eldri, og var svarhlutfall 53% eða 1311 manns. Tekið er tillit til kyns, aldurs og búsetu.

Auk Miðstöðvar íslenskra bókmennta lögðu eftirtaldir könnuninni lið: Borgarbókasafn, Félag bókaútgefenda, Hagþenkir, Landsbókasafn – Háskólabókasafn, Reykjavík Bókmenntaborg og Rithöfundasamband Íslands.

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email