Search
Close this search box.

Maístjarnan veitt 18. maí

8stjarna9Rithöfundasamband Íslands og Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn bjóða félagsmönnum RSÍ að vera viðstaddir afhendingu Maístjörnunnar vegna ársins 2016 en Maístjarnan verður veitt í fyrsta sinn við athöfn í Þjóðarbókhlöðunni þann 18. maí, á degi ljóðsins, kl. 17.

 

Dagskrá:

Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir landsbókavörður býður gesti velkomna og kynnir dagskrá afhendingar ljóðaverðlaunanna.

Kári Tulinius segir frá tildrögum Maístjörnunnar.

Fulltrúi dómnefndar kynnir verðlaunahafann og flytur rökstuðning fyrir vali sínu.

Verðlaunahafinn ávarpar samkomuna.

Sigurður Skúlason leikari les ljóð úr verðlaunabókinni.

Sýning á verðlaunabókinni og fyrri verkum höfundar opnuð.

Fyrstu tilnefningar til Maístjörnunnar voru kynntar við athöfn í Gunnarshúsi þann 25. apríl, í viku bókarinnar. Tilnefndar voru bækurnar: Ég sef ekki í draumheldum náttfötum eftir Eyþór Árnason sem  Veröld gaf út; Veröld hlý og góð  eftir Magnús Sigurðsson sem Dimma gaf út; Ljóð muna rödd eftir Sigurð Pálsson í útgáfu JPV; Tungusól og nokkrir dagar í maí eftir Sigurlín Bjarney Gísladóttur í útgáfu Máls og menningar og Óvissustig eftir Þórdísi Gísladóttur sem Benedikt gaf út. Tilnefndu bækurnar eru allar til sýnis í anddyri Þjóðarbókhlöðunnar.

Gjaldgengar voru allar útgefnar íslenskar ljóðabækur ársins 2016 sem skilað var til Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns og fékk dómnefnd þær til umfjöllunar. Dómnefnd skipa Ármann Jakobsson fyrir hönd Rithöfundasambandsins og Áslaug Agnarsdóttir fyrir hönd Landsbókasafnsins. Um er að ræða einu verðlaunin á Íslandi sem eingöngu eru veitt fyrir útgefna íslenska ljóðabók. Verðlaununum er ætlað að hvetja skáld til að yrkja og koma ljóðum sínum í útgáfu. Verðlaunafé er 350 þúsund krónur. Frumkvæði að stofnun Maístjörnunnar átti Kári Tulinius, skáld og rithöfundur. Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn og Rithöfundasambandið tóku tillögu hans fagnandi og við tilnefningarathöfnina var undirritaður samningur um verðlaunin.

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email