Dagur Hjartarson skáld hlýtur Ljóðstaf Jóns úr Vör í ár fyrir ljóð sitt Haustlægð. Úrslitin í ljóðasamkeppninni voru kynnt við hátíðlega athöfn í Salnum í Kópavogi í dag, á fæðingardegi Jóns úr Vör.
Haustlægð
haustlægðin kemur að nóttu
og merkir tréð í garðinum okkar
með svörtum plastpoka
eins og til að rata aftur
og hún ratar aftur
aðra nótt
öskrar eitthvað sem enginn skilur
fleygir á land þangi og þara
og fleiri vængjuðum martröðum
úr iðrum Atlantshafsins
morguninn eftir er fjöruborðið gljáandi svart
eins og einhver hafi reynt að malbika leiðina
niður í undirdjúpin
og það er þess vegna sem haustlægðin kemur
utan af hafinu
hún er rödd þeirra
sem týndu orðaforðanum í öldugangi
við horfum á nýmalbikaðan veginn
og bíðum eftir að þeir gangi á land
Um 300 ljóð bárust í ljóðasamkeppnina sem var nú haldin í fimmtánda sinn. Í dómnefnd voru Anton Helgi Jónsson skáld, Ásdís Óladóttir skáld og Bjarni Bjarnason rithöfundur. Þess má geta að faðir Dags, Hjörtur Marteinsson hefur einnig hlotið Ljóðstafinn í ljóðasamkeppninni fyrir ljóð sitt Hvorki hér né…
Úr rökstuðningi dómnefndar:
Þetta er ljóð sem dregur upp nýstárlega mynd af alkunnu og einkar óskáldlegu veðurfyrirbæri, haustlægð. Ljóðið hefst með lýsingu á því hvernig getur verið umhorfs í görðum og úti við strönd dagana eftir fyrstu næturheimsóknir haustlægðarinnar. Flest er kunnuglegt í byrjun en þegar líður á ljóðið virðist haustlægðin vera annað og meira en auðskiljanlegt veðurfyrirbæri.
Hún kann að vitna um einhverja togstreitu manns og náttúru en um leið er hún kannski af öðrum heimi og ef til vill tengist hún undirdjúpum sálarlífsins. Það er bæði ógn og eftirvænting í loftinu. Enginn veit hvað þessi haustlægð færir með sér. Í ljóðinu birtast okkur áleitnar myndir sem vekja spurningar um líf og dauða en veita engin einföld svör.
Í öðru sæti var Hrafnhildur Þórhallsdóttir með ljóð sitt Þrá og í þriðja sæti var Sigurlín Bjarney Gísladóttir með ljóð sitt Arfur.
Verðlaunafé fyrir Ljóðstafinn var að þessu sinni tvöfaldað, þar sem enginn hlaut Ljóðstafinn í fyrra og nemur einni milljón króna sem skiptist þannig að 600.000 kr. voru veittar fyrir fyrsta sætið, 300.000 kr. fyrir annað sæti og 100.000 kr. fyrir þriðja sætið.
Auk verðlaunahafa fengu þessir viðurkenningu fyrir ljóð:
Arndís Þórarinsdóttir
Dagur Hjartarson
Jón Örn Loðmfjörð
Jónas Reynir Gunnarsson
Kári Tulinius
Kristinn Árnason
Soffía Bjarnadóttir