Search
Close this search box.

Kristín Helga Gunnarsdóttir hlýtur Menningarviðurkenningu RÚV 2021

Kristín Helga Gunnarsdóttir hlaut Menningarviðurkenningu RÚV fyrir ritstörf þann 6. janúar sl. Það var samdóma álit stjórnar sjóðsins að beina sjónum að barnabókmenntum í ár.

Úr umsögn stjórnar:

„Alkunna er að mikil gróska hefur verið í útgáfu barnabóka síðustu ár og misseri. Höfundarnir eru mýmargir og segja má að barnabókin sé oft mun pólitískari nú í seinni tíð og flytji ungu fólki kröftugan boðskap,“ sagði Guðjón Ragnar Jónasson, formaður stjórnar, í ávarpi sem flutt var í Víðsjá á Rás 1. „Kristín leggur líka áherslu á að hún skrifi fjölskyldubókmenntir: Bækur sem fullorðnir og ungir lesi saman. Þannig styrkjum við sagnahefðina sem einkennt hefur samfélögin um aldir.“

Kristín Helga segir í viðtali við Jórunni Sigurðardóttur að hún vilji með því sporna við markaðsöflunum. „Mér finnst svo óþolandi að markaðskerfi hafa ruðst inn í þessa listgrein, ritlistina, og krefji okkur um aldurstakmark á bókum,“ segir hún og vísar til verslana og söluaðila bóka sem vilja merkja barnabækur eftir aldursflokkum. „Ég þarf að segja að mín bók sé fyrir káta krakka á einhverjum aldri, að vísu þarf ég ekki að segja fyrir drengi og stúlkur lengur, þakka skyldi. En ef ég skrifa fyrir fullorðna þá þarf ég ekki að gera það. Sem þyrfti kannski að gera? Fyrir káta karla á aldrinum 45-65 til dæmis? En þetta eru takmörk, við erum að reisa veggi og hefta listgrein. Um leið og þú flytur þig yfir í aðrar listgreinar þá er enginn sem krefur myndlistarmann eða kvikmyndagerðarmann um að aldursgreina alveg niður í mánuði hvað barnið á að vera gamalt til að geta notið listarinnar.“

Rithöfundasamband Íslands óskar Kristín Helgu innilega til hamingju með viðurkenninguna!

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email