Search
Close this search box.

Kosning til stjórnar 2019

Aðalfundur Rithöfundasambands Íslands verður haldinn í Gunnarshúsi, Dyngjuvegi 8, fimmtudaginn 2. maí n.k. kl. 19.30.

Framboðsfrestur til stjórnar rann út 18. mars s.l.

Kosnir verða tveir meðstjórnendur. Kosningarnar munu fara fram rafrænt. Kjörfundur hefst 17. apríl og lýkur á miðnætti 1. maí. Allir skuldlausir félagsmenn (einnig heiðursfélagar og gjaldfrjálsir félagsmenn) munu fá sendan hlekk á kjörseðil áður en kjörfundur hefst.

Í framboði til meðstjórnenda eru: Hermann Stefánsson, Margrét Tryggvadóttir, Sindri Freysson og Vilhelm Anton Jónsson.

Meðfylgjandi kynningar hafa borist frá frambjóðendum.

Til meðstjórnanda

Sindri Freysson
Sindri Freysson

Kæru félagar,

Ég býð mig fram í embætti meðstjórnanda í þeirri von að geta lagt mitt af mörkum í þágu sambands allra rithöfunda á Íslandi, óháð því fyrir hvaða miðil þeir skrifa. Ég vil  skerpa á hlutverki RSÍ sem stéttarfélags sem starfar í þágu ALLRA félagsmanna og tryggja að festa og ákveðni ríki í samningagerð við hið opinbera, útgefendur, framleiðendur, leikhúsin og aðra viðsemjendur. RSÍ verður að standa vörð um alla bókmenntasköpun í landinu, auka þarf nýliðun innan þess og styrkja tekjustofna, félagsmönnum til hagsbóta.

Ég hef unnið ýmis verk í þágu stéttarinnar í gegnum árin, var t.d. einn af stofnendum og í stjórn Hjálparsveitar skálda sem stóð fyrir lestrarátakinu Alvara málsins 2012, og í undirbúningsnefnd fyrir landslestrarátakið Allir lesa 2014, á vegum Miðstöðvar íslenskra bókmennta og Reykjavíkur- Bókmenntaborgar. Sat í stjórn Rithöfundasjóðs RÚV 2001 og var formaður dómnefndar bókmenntaverðlaunanna Ljóðstafur Jóns úr Vör 2014. Ég hef verið fulltrúi RSÍ í stjórn Fjölís, hagsmunafélags handhafa höfundarréttar á Íslandi, seinustu ár og í samninganefnd RSÍ við RUV 2015-2019. Ég bið um traust félaga minna í RSÍ og heiti því að gera mitt allra besta til að verða þess trausts verðugur.

Sindri Freysson

Til meðstjórnanda

Vilhelm Anton Jónsson
Vilhelm Anton Jónsson

Sælir kæru félagar.

Með þessum stutta texta býð ég mig fram til stjórnar RSÍ. Þar hef ég setið í tvö ár og lært gríðarlega margt og óska nú eftir ykkar umboði og stuðningi til að sitja þar annað kjörtímabil og vinna að málefnum höfunda.

Ég er höfundur níu barna- og fjölskyldubóka. Þekktastar þeirra eru Vísindabækur Villa. Auk þess hef ég fengist við margskonar handrits- og textagerð alla mína ævi. Ég hef líka mikla reynslu af tónlist og þar liggur minn styrkur í þessu sambandi öllu, því þær áskoranir sem rithöfundar, tónlistarmenn og fleiri sem starfa í skapandi greinum standa frammi fyrir eru um margt svipaðar.

Það er alveg viðbúið að bókaútgáfa, rétt eins og hljómplötuútgáfa, breytist á næstu árum með tilkomu nýrra miðla. Þar ríður á að varðveita farminn frekar en farartækið og tryggja rétt þeirra sem listina skapa.

Hagsmunir rithöfunda og pappírsframleiðenda fara oft saman, þó alls ekki alltaf.

Það allra heilagasta sem við eigum er höfundaréttur okkar og réttur til sanngjarnra tekna af sköpunarverkum okkar og styrkur okkar er hæfileikinn til að skapa.

Sögur verða sagðar, ljóð ort og fróðleik og reynslu miðlað um alla tíð eins og hingað til, hvort heldur sem er á prenti, söng, leikriti eða hverju sem kann að vera.

Undirstaða alls þessa er skáldið, skaparinn.

Við semjum ekki fyrir blaðsíðurnar, þær eru miðillinn farartækið.

Mér þætti vænt um ykkar stuðning til áframhaldandi setu í stjórninni.

Hafið það sem allra best og gleðilega páska.

Vilhelm Anton Jónsson

Til meðstjórnanda

Margrét Tryggvadóttir
Margrét Tryggvadóttir

Kæru félagar,

síðustu tvö ár hef ég setið í stjórn Rithöfundasambandsins. Mér hafa fundist stjórnarstörfin skemmtileg og menntun mín, þekking og reynsla nýtast RSÍ vel. Því hef ég ákveðið að bjóða fram krafta mína aftur. Ég á einnig sæti í stjórn SÍUNG – Samtaka íslenskra barna- og unglingabókahöfunda og hef verið tengiliður SÍUNG við RSÍ. Það skiptir máli að gott talsamband sé þar á milli.

Ég hef komið víða við í heimi bókanna, hef skrifað nokkrar bækur, flestar fyrir börn, en þýtt eða ritstýrt enn fleiri verkum. Ég hef líka starfað hjá bókaforlagi, skrifað bókagagnrýni og kennt bókmenntir. Störf mín í stjórnmálum hafa einnig komið RSÍ að gagni. Ég er bókmenntafræðingur að mennt með framhaldsmenntun í menningarstjórnun. Í því námi rannsakaði ég opinbera stefnumótun og stuðning (eða stuðningsleysi) við bókmenntir á Íslandi í samanburði við Noreg, Svíþjóð og Danmörku (sjá nánar http://skemman.is/handle/1946/26777 ). Mér finnst mikilvægt að sú samantekt nýtist nú þegar stuðningur við bókmenntir og bókaútgáfu á Íslandi er loks að aukast. Séríslenskar lausnir á almennum vanda eru sjaldnast gáfulegar og til eru stuðningskerfi í nágrannalöndum okkar sem hafa gefist vel og gagnast rithöfundum mun betur en hinir nýju styrkir til bókaútgefenda. Mikilvægt er að RSÍ haldi áfram að hamra járnið á meðan það er heitt og þar vil ég leggja mitt að mörkum. 

Margrét Tryggvadóttir

Til meðstjórnanda

Hermann Stefánsson
Hermann Stefánsson

Hermann Stefánsson er rithöfundur, einkum höfundur skáldsagna, og hefur mjög lengi verið við ritstörf. Hann leggur áherslu á algeran aðskilnað ríkis og rithöfunda þegar kemur að ritlaunum, að RSÍ skipti sér hvergi af úthlutun ritlauna, sem og eðlilegt er. Hann leggur áherslu á stjórnsýslulega formfestu, heiðarleika og fagmennsku og gefur ekkert fyrir vinsældir viðkomandi rithöfunda, vill að sannleikurinn ráði, ekki kjörfylgi. Með nærveru Hermanns í stjórn má vænta festu og fagurfræðilegrar áherslu í samskiptum ríkis og rithöfunda, einkum þar sem aukastarf Hermanns er að skrifa niður þingræður á Alþingi — án þess að hafa með þingmönnum neina sérstaka samúð. Hermanni Stefánssyni er satt að segja ekkert gefið um kjarabaráttu barnabókahöfunda umfram aðra — þeir eru ágætir fyrir sitt leyti en yfir hverju hafa þeir að kvarta umfram aðra? Hermann hefur áður setið í stjórn Rithöfundasambandsins í eitt ár. Hermann hatar spillingu af lífi og sál — það nánast háir honum. Sennilega boðar Hermann bjartari tíma. Kannski er Hermann eina von hins almenna félagsmanns í baráttunni fyrir bættum kjörum og má þar nefna til sögunnar sönglag Jóns Halls Stefánssonar (sem svo skemmtilega vill til að er bróðir Hermanns Stefánssonar) í kosningabaráttu fyrir fáeinum árum: Kjósið Hermann Stefánsson!

Ó, kjósum hann, sem ljósið fann.

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email