Search
Close this search box.

Kamilla Kjerúlf hlýtur Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur

Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur eru veitt árlega fyrir óprentað handrit að barna- eða ungmennabók og styðja þannig við nýsköpun í greininni. Að þessu sinni bárust 24 óprentuð handrit.

Kamilla bar sigur úr bítum fyrir handrit sitt Leyndadómar draumaríkisins. Bókin er hennar fyrsta bók og kemur út í dag. Útgefandi er Bjartur / Veröld.

Í dómnefnd sátu Kristinn Jón Ólafsson, Yrsa Sigurðardóttir og dr. Guðrún Steinþórsdóttir. Í umsögn dómnefndar segir:

„Í Leyndardómum draumaríkisins tekst höfundi að smíða vel úthugsaðan ævintýraheim sem söguhetjan flakkar um með flæðandi hætti. Persónur eru vel framsettar og trúverðugar og ritstíllinn góður. Aðalpersónan Davíð stendur frammi fyrir vandamáli í raunheimum sem ævintýralegar heimsóknir hans í draumalandið hjálpa honum að takast á við. Sögupersónan vex fyrir vikið og sýnir ungum lesendum að oft má yfirstíga vandamál sem virðast óleysanleg. Jafnframt hefur höfundur gætt þess að einskorða söguna ekki við eitt kyn og eru samskipti Davíðs við aðrar persónur bæði eðlileg og uppbyggileg. En það sem er þó fyrir mestu er sú skoðun dómnefndar að sagan er skemmtileg og spennandi og munu ungir lesendur án efa taka henni fagnandi, eins og bókum Guðrúnar Helgadóttur meðan að hennar naut við.”

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email