Rithöfundasamband Íslands og Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn veita verðlaun fyrir ljóðabók sem kom út á árinu 2019. Verðlaunin, sem bera heitið Maístjarnan, voru afhent í fjórða sinn við hátíðlega athöfn í Þjóðarbókhlöðunni þann 27. maí.
Maístjörnuna fyrir ljóðabók ársins 2019 hlýtur Jónas Reynir Gunnarsson fyrir bókina
Þvottadagur
Í umsögn dómnefndar um verðlaunabókina segir:
„Þvottadagur er afar innihaldsrík og margræð ljóðabók. Einkennandi fyrir ljóðin er kraftmikið og hrífandi myndmál og þótt viðfangsefni þeirra séu gjarnan alvarleg er ísmeygilegi húmorinn sjaldnast langt undan. Þetta er sterkt og vandað verk sem vekur lesanda til umhugsunar og hreyfir við honum.“
Verðlaunahafi flutti ræðu við athöfnina:
„Góðir samkomugestir!
Hjartans þakkir, ég tek við þessum verðlaunum með auðmýkt og stolti. Maístjarnan, ljóðabókaverðlaun RSÍ og Landsbókasafnsins er frábær hugmynd og mikilvæg.
Þetta sagði Sigurður Pálsson árið 2017, þegar Maístjarnan var veitt í fyrsta skiptið. Hana hlaut Sigurður fyrir bókina Ljóð muna rödd. Það er mér mikill heiður að standa hér, þremur árum síðar, og þiggja sömu verðlaun og fyrrum kennari minn. Leið mín að ljóðinu var, að minnsta kosti fyrir mér, nokkuð óvænt. Í fyrra héldum við Lóa Hjálmtýsdóttir fyrirlestra í grunnskólum sem hluti af Skáld í skólum, og í þeim rakti ég ferðalag mitt í gegnum bókmenntirnar. Sagan hófst, sagði ég unglingunum, í Menntaskólanum á Egilsstöðum. Þar kynntist ég bókmenntum fyrst af einhverju viti. Ég féll reyndar í íslensku 303, ég féll líka í íslensku 403, íslensku 503, íslensku 603, íslensku 603 aftur, íslensku 613, og íslensku 633.
Ég hafði áhuga á að skrifa sjónvarpsþætti eða bíómyndir, en bókmenntir höfðuðu ekki til mín. Og ljóðlist fannst mér tilgerðarlegust alls. Bókmenntir var sú listgrein sem vakti í mér hvað mest óöryggi. Mér fannst alltaf að ég þyrfti að skilja eitthvað sem ég skildi ekki og búa yfir einhverri þekkingu sem ég hafði ekki. En ég gat hlustað á tónlist án þess að vita neitt. Hún hreyfði bara ósjálfrátt við mér. Og það var eins með sjónvarp og bíó. Kvikmyndir voru fyrir mér opnar og aðgengilegar, annað en bókmenntir, sagði ég unglingunum. En ég hafði áhuga á að skrifa og skráði mig í ritlist í Háskóla Íslands. Sú námsleið tilheyrir íslensku- og menningardeild, og þar féll ég, eða skráði mig úr, eftirfarandi áföngum: íslensk beygingar- og orðmyndunarfræði, íslensk setningarfræði og merkingarfræði, bókmenntasaga, bókmenntasaga aftur, bókmenntasaga aftur, íslensk bókmenntasaga, íslensk bókmenntasaga aftur, íslensk bókmenntasaga aftur, inngangur að málfræði, inngangur að málfræði aftur.
Sigurður Pálsson líkti ljóðalestri við grammófón. Sumar plötur þarf að spila á 33 snúningum, en ekki 78, svo tónlistin hljómi ekki eins og hávaði. Þetta snýst um að vera rétt innstilltur. Til að útskýra af hverju ég endaði eiginlega í bókmenntum eftir þessa erfiðu byrjun, sagði ég unglingunum, sem við Lóa héldum fyrirlestra fyrir, frá þremur uppgötvunum.
Sú fyrsta var sú að það að lesa er eins og að leikstýra kvikmynd. Það sem heillaði mig við kvikmyndir var meðal annars að taka eftir öllum þeim aðferðum sem leikstjóri notar til að tjá ákveðna tilfinningu: staðsetningu myndavélar, notkun hljóðs, klippingu, nærmyndum og víðmyndum og svo framvegis. Allt þetta á sér líka stað í lestri. Einföld setning eins og „Það rignir“ býður upp á ótal túlkanir. Einn lesandi ímyndar sér ský yfir stóru fjalli, annar sér fyrir sér dropa leka niður bílrúðu og sá þriðji heyrir í brotinni þakrennu eins og einhver sé að spræna fyrir utan svefnherbergisgluggann. Þetta gerist algjörlega ósjálfrátt. Við erum með sýndarveruleika í höfðinu sem fer á fulla ferð, jafnvel við að lesa eða heyra ekki nema tvö orð: Það rignir.
Önnur uppgötvunin var sú að það er munur á að skilja og að skynja. Þegar ég hlustaði á tónlist upplifði eitthvað án þess að þurfa að skilja það. Og líka þegar ég borðaði mat. Saltur matur lætur mér líða öðruvísi en sætur matur. Spurningin „Hvað þýða eiginlega þessar kartöflur?“ er kannski áhugaverð, en það er ekki nauðsynlegt að vita svarið við henni til þess að finna bragðið af kartöflunum. Og ég uppgötvaði að það var líka bragð af orðum. Að lesa orðið þvottasnúra, án nokkurs samhengis, vekur upp tilfinningar. Fyrir einhverjum gæti orðið þvottasnúra frekar tengst sumri heldur en vetri, frekar dagsbirtu heldur en myrkri, frekar heiðskýrum himni heldur en óveðri. Það er hægt að skynja orð, óháð því hvort maður skilur þau, sagði ég unglingunum, og á þeim tímapunkti í fyrirlestrinum sýndi ég þeim mynd af tveimur óhlutbundnum formum. Annað þeirra var með mjúkar útlínur og hitt með hvassar, og ég sýndi þeim tvö orð: búba og kíkí og talaði um hvernig sálfræðitilraunir sýna fram á að flestir, óháð menningarsvæði, tengja hið merkingarlausa orð kíkí við hvassa formið, og búba við það mjúka. Þetta eru orð sem þýða ekkert. Orð sem eru bara hljóð.
Þriðja uppgötvunin var sú að allir megi skrifa. Og hversu merkilegt það er að grunnatriði bókmennta, tungumálið, sé eitthvað sem við notum á hverjum degi. Venjulegt fólk pantar sér ekki pítsu eða stundar bankaviðskipti með því að spila á gítar eða að dansa, en hvort sem það hefur áhuga á bókmenntum eða ekki notar það tungumálið, sama frumefni og bókmenntir byggja á. Sérstaða bókmennta er hversu nálægt þær standa okkar venjulega lífi. Allir stunda skáldskap. Það er ósjálfráð virkni heilans. Og þess vegna, sagði ég unglingunum, en var í raun að ávarpa sjálfan mig fyrir þónokkrum árum síðan, þess vegna eru bókmenntir ekki lokaðar, heldur opnar. Það þarf ekki að biðja leyfis um að fá að vera með.
Ég er mjög feginn því að hafa loksins tekist að stilla mig inn á bókmenntir og ég er þakklátur öllum þeim sem hjálpuðu mér. Ég get ekki sagt nógu mikið um áhrifin sem ljóðlist hefur haft á líf mitt. Ekki eingöngu í námi og starfi, heldur sem tæki til að sjá og skilja heiminn sem ég fæðist inn í og til að komast af í honum, og líka sem iðkun í ætt við hugleiðslu eða aðra trúariðkun, sem varpar ljósi á að aðgreiningin á milli mín og heimsins sem ég fæðist inn í, er bara tilbúningur, og aðgreiningin á milli mín og annarra er það líka.
Ég er þakklátur fyrir allt fólkið sem ákveður að helga sig því að kenna íslensku og bókmenntir, sem ég veit að er ekki auðvelt starf. Ég er þakklátur fyrir skáld og listamenn, að það sé til allt þetta fólk sem tekur þá vafasömu ákvörðun að reyna að sjá fyrir sér með því að skapa list. Ég er líka þakklátur fyrir allt fólkið sem vinnur í þágu lista og bókmennta, kemur á laggirnar bókmenntaverðlaunum eins og þessum, stendur að viðburðum, umfjöllunum, gagnrýni, og svo framvegis. Ég er mjög þakklátur fyrir að Þvottadagur skuli hafa hlotið tilnefningu með þessum frábæru ljóðabókum og ég er glaður og auðmjúkur, svo ég vitni aftur í Sigurð Pálsson, fyrir að hafa hlotið þennan heiður. Það væri algjörlega ómögulegt fyrir mig að koma einhverju niður á blað, ef ekki væri fyrir stuðning minna nánustu, vina minna og fjölskyldu, sem styðja við mig og hjálpa mér á svo margþættan hátt og af svo mikilli hlýju og skilningi. Takk.
Að lokum langar mig að lesa ljóð úr bókinni Ljóð Muna Rödd eftir Sigurð Pálsson, sem hlaut Maístjörnuna fyrir árið 2016.
Haustlitasinfónían
Nú er það komið
haustið eilífa
Allt kyrrist
Engir litir
komast hjá því að breytast
Haustið eltir þá uppi
hvort sem þeim líkar
betur eða verr
Breytir þeim umbreytir þeim
blessuðum einlægu litunum
Og haustið skipar þeim
að hætta að væla
skipar þeim harðri hendi
að gegna hlutverki sínu
göfugu hlutverki sínu:
Að syngja hinu hverfula dýrðaróð
Syngja hinu horfna saknaðaróð
Syngja hinu ókomna fagnaðaróð“
Gjaldgengar voru allar útgefnar íslenskar ljóðabækur ársins 2019 sem skilað var til Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns og fékk dómnefnd þær til umfjöllunar. Dómnefnd skipa Guðrún Steinþórsdóttir fyrir hönd Rithöfundasambandsins og Arnaldur Sigurðsson fyrir hönd Landsbókasafnsins.
Tilnefndar voru bækurnar:
Jónas Reynir Gunnarsson – Þvottadagur (Páskaeyjan)
Kristín Eiríksdóttir – Kærastinn er rjóður (JPV)
Sigurlín Bjarney Gísladóttir – Undrarýmið (Mál og menning)
Þórður Sævar Jónsson – Vellankatla (Partus)
Þór Stefánsson – Uppreisnir (Oddur)