Search
Close this search box.

Janúar jæja frá formanni!

Jæja í janúar, kæru félagar!

Gleðilegt árið 2016 og þakka ykkur gott samstarf og ljúf samskipti á liðnu ári. Víða hafa ritlaun skilað sér í hús og sitt sýnist hverjum að venju. Heildarúthlutun í sex sjóði listamanna nemur 550 milljónum króna og nýr formaður stjórnar listamannalauna sagði þá fjárhæð nálægt því sem áætlað væri að  sala íslenskra bóka skilaði ríkinu í virðisaukaskatti á liðnu ári. Það segir sitt.

Við stöndum vaktina í Gunnarshúsi fyrir ritlistina, gætum hagsmuna höfunda og styrkjum þeirra starfsumhverfi, reynum að sjá vítt yfir og missa af sem minnstu.
Þannig fögnuðum við áfangasigri þegar fjárlagafrumvarp þessa árs var kynnt síðla hausts og samkvæmt því mun Bókasafnssjóður hækka í ríflega 70 milljónir á þessu fjárlagaári. Sjóðurinn hefur því hækkað úr 23 milljónum á einu og hálfu ári og þakka ég það reglubundnum fundum með mennta- og menningarmálaráðherra og embættismönnum, ásamt viðræðum við þingmenn og aðra áhrifamenn. Upplýsing og samtal skilar árangri.  Það merkjum við svo sterkt.
Við höfum líka lagt ríka áherslu á að koma sjóðnum í skilgreint lagaumhverfi svo tryggja megi stöðugleika í kringum hann, minnug þess hve fyrirvaralítið sjóðurinn getur skroppið saman í meðförum stjórnmálamanna.
Stjórn RSÍ fór á fund ráðherra og embættismanna í menntamálaráðuneyti nú  á þrettándanum og var hann bæði góður og gagnlegur. Samtal um stöðugleika Bókasafnssjóðs hefur skilað þeim árangri að hafist verður handa við að undirbúa samningsdrög um sjóðinn sem hlutaðeigandi undirrita til þriggja ára í senn. Það verður þó alltaf í höndum þings að endumeta árlega stærð sjóðsins, en þriggja ára samningur er þó einhvers konar viðleitni til að finna sjóðnum stöðugra umhverfi. Við tjáðum ráðherra að sjóður þessi ætti að vera minnst 300 milljónir og að við teldum 70 milljónir vera áfangasigur á langri vegferð fram undan. Hann tók ekki illa í það sjónarmið og sú barátta heldur áfram.

Á fundi með ráðherra var einnig rætt um að fylgja eftir rafbókaþingi sem RSÍ hélt í Þjóðminjasafni á haustdögum ásamt bókaútgefendum og  bókasöfnum. Ráðuneytið er tilbúið til samstarfs um stefnumótun og undirbúning fyrir breytt landslag því framtíðin er núna. Þá var einnig rætt um samstarf við ráðuneyti vegna samninga og breyttra aðstæðna hjá höfundum í ljósi þess að nýir miðlar ryðja sér til rúms og höfundar skrifa vítt og breytt í rafrænu og stafrænu umhverfi þar sem höfundarréttur er á stundum fótum troðinn.

Launasjóður var ræddur og rökstuddu stjórnarmenn nauðsyn þess að fjölga árslaunum og hækka launin. Það samtal heldur áfram þótt hugmyndir okkar fái ekki mikinn hljómgrunn nú. Að missa þolinmæðina er að tapa orrustunni, sagði Gandhi og við höldum áfram.

Bóksala gekk vonum framar á árinu sem var að líða, þrátt fyrir hækkun virðisaukaskatts, og það er mikil gróska í handritaskrifum fyrir útvarp og sjónvarp ef marka má fjölda umsókna sem bárust í leiklistarsjóð Þorsteins Ö. Stephensen hjá RÚV fyrir áramót.

Af samningamálum er það að segja að samningaviðræður við RÚV hafa frestast fram á nýárið en vonir standa til að við getum sest niður fljótlega með forsvarsmönnum stofnunarinnar. Samkvæmt tillögu á haustfundi okkar mun lögmaður RSÍ sitji í samninganefnd. Mál þessi eru í vinnslu ásamt því að skoða einstaka atriði útgáfusamnings og þýðingasamnings með úrbætur í huga.

Grunnskólaverkefni RSÍ, Skáld í skólum, var eftirsótt á haustdögum og umsagnir voru afar jákvæðar og gleðilegar frá skólafólki í kjölfarið. Boðið hefur verið upp á metnaðarfulla bókmenntadagskrá fjölda félagsmanna á þremur skólastigum í áratug.  Anton Helgi Jónsson tók við af Aðalsteini Ásberg Sigurðssyni sem verkefnisstjóri á haustdögum. Fyrirhugað er að breyta áherslum í verkefninu á þessu ári og bjóða upp á skáldaheimsóknir í grunnskóla með ritlist og skapandi skrif að leiðarljósi. Þetta hafa margir skólastjórnendur beðið um og sjálfsagt að mæta þeirri eftirspurn. Verkefnisstjórn Skálda í skólum hyggst bjóða upp á örnámskeið eða vinnusmiðju í Gunnarshúsi í vetur fyrir þá félagsmenn sem hafa áhuga á að taka þátt í verkefninu.

Á vordögum ætlum  við að efna til félagsfundar um leikhúsin og fá til liðs við okkur forsvarsmenn leikhúsanna til að ræða samstarf og landslag.

RSÍ lét sig varða um afdrif Gröndalshúss í Grjótaþorpi á liðnu ári. Þau gleðitíðindi bárust í desember að húsið verður áfram í eigu Reykjavíkurborgar og starfrækt í þágu bókmenntanna. Reykjavík – Bókmenntaborg UNESCO mun annast rekstur og gestaíbúð fyrir skáld og fræðimenn verður starfrækt í kjallara hússins.
Í Gunnarshúsi hafa farið fram endurbætur á gestaíbúð í kjallara og er hún nú tilbúin fyrir væntanlega gesti, en íbúðin er afar vinsæl.

Vinnustofurnar í Gunnarshúsi hafa einnig mælst vel fyrir meðal félagsmanna, en þær eru fjórar talsins og leigan er hlægileg enda markmiðið fyrst og fremst að nýta okkar góða félagshús.

Ekki man ég meira í bili og er sjálfsagt að gleyma einhverju enda er hér vasast í mörgu. Við höldum áfram þoka málum, gætum þess að sofna aldrei á vaktinni.  Það er styrkur í samstöðu hinna skrifandi stétta og Rithöfundasambandið er okkar stóra regnhlíf.
Baráttukveðjur,
Kristín Helga

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email