Jæja … Gleðitíðindi berast okkur frá yfirvaldinu. Við fögnum varlega í Gunnarshúsi en fögnum þó.
Sá mikli áfangasigur hefur náðst að samkvæmt fjárlagafrumvarpi fyrir 2016 er stefnt að því að Bókasafnssjóður höfunda verði 70 milljónir króna á næsta fjárlagaári.
Hann mun því hækka úr 45 milljónum, en sú leiðrétting náðist með miklu þjarki í fyrra og fór hann þá úr 23 milljónum.
En eins og við höfum sagt við ráðamenn og höldum áfram að leggja áherslu á með samtölum og fundum, þá verður þessi sjóður að komast í viðunandi lagaramma svo hann sé ekki háður geðþóttaákvörðunum stjórnvalda hverju sinni.
Að auki skal að sjálfsögðu stefna að því að þrefalda hann svo höfundar fái sanngjarnar greiðslur fyrir afnot af verkum sínum. En við erum lögð af stað í langferð, og njótum, að því er virðist, skilnings stjórnvalda.
Það er því ástæða til að fagna.
Bestu kveðjur,
Kristín Helga, Ragnheiður og stjórnin