Search
Close this search box.

Jæja frá formanni …

Jæja, kæru félagar. Eitt og annað er títt úr Gunnarshúsi að venju. Öllu miðar áfram, sumu hratt og örugglega, öðru hægt og bítandi. Við sem drögum vagn um stundarsakir reynum að sleppa aldrei takinu, halda þétt við og leita nýrra leiða.

Fyrst ber að telja fund stjórnar og starfsliðs RSÍ með Lilju Dögg Alfreðsdóttur, menntamálaráðherra, í janúarlok. Við höfðum með okkur aðgerðaráætlun RSÍ fyrir íslenskar bókmenntir og tungumál og fylgir hún hér:

Afnám virðisaukaskatts á bókum. Mikilvæg táknræn og hagræn aðgerð fyrir þjóðfélag, tungumál og bókmenntir.

Margföldun Bókasafnssjóðs og breyting á lagaumhverfi hans. Grundvöllur barnabókmennta.

Innviðasjóður íslenskrar tungu: Framtíð og umhverfi bókmennta á íslensku. Starfslaunasjóður rithöfunda þarf að stækka til muna til að viðhalda stétt atvinnuhöfunda sem semur á íslensku.

MÍB- Miðstöð íslenskra bókmennta. Stórefla þarf þýðingasjóð – menningarsjóð og útflutningssjóð. Auk þess þarf að stofna sérstakan útgáfusjóð fyrir bækur handa yngstu lesendunum.

Metnaðarfull innkaupastefna fyrir skóla- og héraðsbókasöfn. Bækur fyrir alla að norskri fyrirmynd.

Kynning á kjaramálum rithöfunda. Fjárhagslegur veruleiki atvinnuhöfundar.

Ráðherra tók vel í erindi okkar og var sammála mörgum af okkar áhersluatriðum. Bókmenntir, læsi og tungumál virðast hennar stærstu áherslumál í ráðuneytinu og við erum bjartsýn á samstarfið. Hún var sammála okkur um að hún væri fagmálaráðherra bókmenntanna og að náið samstarf yrði að vera á milli fulltrúa rithöfunda og ráðuneytisins. Þannig var ákveðið að funda fljótlega aftur til að kanna hvernig miðar.
Á borði ráðherra liggja tillögur að bókmenningarstefnu, en þær eru niðurstaða úr starfi nefndar sem Kristján Þór Júlíusson setti á laggirnar áður en hann hvarf til annarra starfa.  Í þeirri nefnd sátu fulltrúar RSÍ, Hagþenkis, MÍB og FÍBÚT ásamt tveimur fulltrúum frá menntamálaráðherra og einum frá fjármálaráðuneyti.

Samningar við RÚV þokast í rétta átt og vænti ég þess að til tíðinda dragi fljótlega. Vonandi verður hægt að undirrita þá fyrir sumarið.

RSÍ auglýsti á dögunum eftir umsóknum um greiðslur úr IHM-sjóði Rithöfundasambandsins. Rétt til úthlutunar eiga rithöfundar, leikskáld, þýðendur, handritshöfundar og aðrir höfundar og þýðendur leikins efnis og annarra skáldverka, sem frumflutt voru eða endurflutt í sjónvarpi árin 2013-2016. Umsækjendur geta sótt um óháð félagsaðild. Þetta er í síðasta sinn sem greitt er úr sjóðnum samkvæmt þessu fyrirkomulagi.  Verið er að hanna nýtt umhverfi og semja nýjar úthlutunarreglur fyrir næstu úthlutun sjóðsins.

Tinna Ásgeirsdóttir, verkefnisstjóri, og Ragnheiður Tryggvadóttir, framkvæmdastjóri RSÍ hafa undanfarnar vikur unnið ýtarlega kjararannsókn sem varpar ljósi á fjárhagslega stöðu rithöfunda og þann bitra veruleika sem höfundur stendur frammi fyrir þegar hann reynir að lifa eingöngu af ritverkum sínum. Þessar niðurstöður verðum við, félagar RSÍ,  að skoða og ræða saman á félagsfundi sem allra fyrst. Fljótlega verður boðað til hádegisfundar þar sem rannsóknin verður kynnt.

Ástkær heiðursfélagi og skáldbróðir, Þorsteinn frá Hamri, féll frá nú í janúarlok. Verkin lifa, snerta og móta um ókomna tíð. Með trega og þakklæti kveðjum við góðan félaga.

Kristín Helga

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email