Jæja … Þá er að tæpa á því helsta frá því síðast.
Fjölmiðlafárið um listamannalaunin hélt eitthvað áfram, stóð í ríflega tvær vikur. Rithöfundar eru árlega í fremstu víglínu og taka á sig gusur. Myndbirtingar minntu sumar á villta vestrið, einhverjir tjargaðir og fiðraðir á samfélagsmiðlatorginu og þar víða leyfilegt að sparka, bíta og klóra. Það er hollt að skoða aðeins þessa atburðarrás, læra kannski af henni, bæta umhverfið og undirbúa okkur fyrir næsta ár svo þróunin megi verða þannig að við lendum miklu frekar árlega í upplýstri umræðu um listirnar og gildi ritlistar og áhrif hennar á samtímann og umhverfið. Umræðan nú var heiftarlegri en áður. Hamrað var á rangfærslum við úthlutun ritlauna í fyrirsögnum hjá frjálsa og óháða fjölmiðlarisanum. Ýjað var að spillingu og sjálftöku. Engu máli skiptu upplýsingar um rétta verkferla, enda hringdi ekki einn einasti fréttamaður af þessum miðlum í stjórn og starfsfólk RSÍ á meðan á þessu stóð.
Aðildarfélög BÍL eru bundin af lögum um listamannalaun nr. 57 frá 2009 þegar tilnefna skal í úthlutunarnefndir en þær nefndir starfa svo alfarið á vegum Stjórnar listamannalauna. Sitjandi stjórn RSÍ hverju sinni kemur aldrei að skipan allra í úthlutunarnefnd launasjóðs þar sem stjórn RSÍ endurnýjar sig að hluta árlega, líkt og úthlutunarnefndin gerir og sú nefnd endurnýjar sig svo alveg á þriggja ára fresti. Vegna stöðugra rangfærslna í fjölmiðlum er rétt að ítreka og endurtaka að núverandi stjórn RSÍ valdi ekki úthlutunarnefnd í launasjóð rithöfunda. Tveir nefndarmenn voru tilnefndir til menntamálaráðherra fyrir stjórnarskipti í apríl 2015. Núverandi stjórn tók við í maí 2015. þetta þýðir að skörun stjórnarmanna og nefndar er eins mikil og mögulegt er og samskipti stjórnar og nefndar eru engin.
Þá skal tekið fram að RSÍ hefur haft mjög skýrar verklagsreglur við val á úthlutunarnefndum og sótt tillögur sínar í fræðasamfélagið. Þess hefur verið gætt að nefndarmenn hafi víðtæka þekkingu á sviði bókmennta og yfirsýn yfir ritvöllinn og að þeir tengist ekki einstaka höfundum og forlögum. Stjórn RSÍ hefur aldrei afskipti eða nokkra aðkomu að störfum úthlutunarnefnda enda starfa þær alfarið á vegum Stjórnar listmannalauna sem er stofnun á vegum hins opinbera. Þess vegna svarar Stjórn listamannalauna, en ekki stjórn RSÍ, fyrir störf einstaka nefndarmanna, heldur Stjórn listamannalauna. Það hefur áður komið fram og er mikilvægt að halda til haga hér.
Starfshópur á vegum BÍL var strax settur saman fyrir tilstuðlan stjórnar RSÍ til að kanna verkferla og koma með tillögur að aukinni armslengd fyrir öll aðildarfélögin, enda eru sjóðir listamanna sex talsins. Þessi starfshópur hefur nú skilað af sér niðurstöðum til stjórnar BÍL og er stjórnin að vinna siðareglur fyrir BÍL úr þeim gögnum. Þegar þær liggja fyrir höldum við félagsfund hjá RSÍ og skoðum tillögur starfshópsins.
Það er ánægjulegt að segja frá því að niðurstaða starfshóps BÍL, eftir að skoða verkferla við tilnefningar í úthlutunarnefndir, er að stjórnir aðildarfélaga BÍL hafi farið að lögum og uppfyllt allar reglur við tilnefningar þótt ekki hefði verið um samræmt verklag að ræða. Við í stjórn RSÍ fögnum þeim niðurstöðum, enda þungbært að sitja undir aðdróttunum í því gjörningaveðri sem á gekk í janúar.
Við þurfum að læra af þessu ferli. Við sem stundum ritstörfin vitum að alltof lítið er lagt í launasjóð rithöfunda. Hann er tæplega 190 milljónir króna á ári hjá svokallaðri bókaþjóð á sögueyju sem berst við að halda lífi í örtungu á ofurlitlu málsvæði. Við þurfum að leggja áherslu á að virðisaukaskattur af bókmenntum skili sér allur beint til baka, jafnt í launasjóð rithöfunda sem bókasafnssjóð höfunda, en vaskurinn er hátt í 600 milljónir króna, ríflega sú upphæð sem árlega er úthlutað úr öllum sjóðum hjá Stjórn listmannalauna. Til þess að ná fram þessum breytingum þurfum við að þétta raðirnar og vinna saman. Við þurfum að upplýsa og fræða samfélagið. RSÍ fer í kynningarátak fyrir ritlistina á þessu ári. Við ætlum að sækja okkur samstarfsaðila og leggja niður fyrir okkur það fræðslustarf sem þarf að eiga sér stað og með hvaða hætti skal að því standa. Upplýst samræða er það eina sem stöðvar þennan árlega stífidans. Þetta er langhlaup og við biðjum félagsmenn um samstarf við að lyfta umræðunni upp á hærra plan, eins og góður heiðursfélagi sagði forðum.
Skipulagsbreytingar hafa undanfarið staðið yfir á skrifstofu RSÍ. Verkefnin vaxa og við þurfum að sækja fram fyrir skrifandi stéttir. Landslagið hefur breyst mikið undanfarin ár. Höfundar skrifa fyrir margvíslega miðla og nýir höfundar eru með veraldarvefinn í fingrunum. Höfundarréttarmálin verða æ fyrirferðarmeiri og réttindabaráttan harðnar og þá fjölgar verkefnum RSÍ. Tinna Ásgeirsdóttir hefur verið ráðin, til eins árs, í hálft starf hjá RSÍ og tekur að sér verkefnisstjórnun á vegum sambandsins. Tinna starfaði áður sem verkefnisstjóri á vegum Norræna hússins og stýrði þar bókmenntahátíðinni Mýrinni, auk þess að hafa komið að margvíslegum bókmenntatengdum verkefnum. Ragnheiður Tryggvadóttir, framkvæmdastjóri, sinnir daglegum rekstri sambandsins, umsýslu eigna og sjóða auk annarra verkefna, en nýráðinn verkefnisstjóri hefur tekið að sér að innleiða rafrænt kosningakerfi, gangast fyrir nýliðunarátaki á vegum sambandsins og virkja höfundahúsið og þær starfsstöðvar sem þar eru. Önnur verkefni sem við bætast eru upplýsinga- og fræðsluátak fyrir ritlistina, að efla Höfundamiðstöð RSÍ og sinna annarri nýsköpun. Við Ragnheiður og stjórnin bjóðum Tinnu velkomna til starfa og hlökkum til að samstarfsins.
Af samningamálum er það títt að við Yrsa Sigurðardóttir og Gauti Kristmannsson hittum fulltrúa FÍBÚT á dögunum til að skiptast á skoðunum og ræða hvað vel er gert og hvað má betur fara í samningum á milli félaganna. Þar var rætt um rafbókarákvæði, kiljuprósentu, milligreiðslur við uppgjör og greiðslur fyrir innlestur vegna hljóðbóka svo eitthvað sé nefnt. Engar ákvarðanir voru teknar. en samtalið heldur áfram. Þá stefnum við að því að hefja viðræður við RÚV um nýja samninga, enda löngu orðið tímabært. Sú nýjung er á að lögmaður RSÍ, Sigríður Rut Júlíusdóttir, tekur sæti í samninganefndinni við RÚV, enda þaulreyndur sérfræðingur í höfundarétti. Þetta fyrirkomulag er eftir tillögum sem fram komu á haustfundi félagsins um samningamál. Þá hefur Félagi leikskálda og handritshöfunda einnig verið boðið sæti í þessari samninganefnd.
Fundur fulltrúa norrænu rithöfundasambandanna var haldinn í febrúar í Kaupmannahöfn. Þar báru menn saman bækur og umræðan um höfundarréttarmálin, rafræna umhverfið og innheimtukerfin var afar fyrirferðarmikil. Þar var einnig fjallað um bókasafnssjóðina og stöðu þeirra. Auk þess kynntu danirnir vef sem er í vinnslu hjá þeim og ber heitið Write and Sleep. Markmiðið er að bjóða uppá margvíslega gistingu fyrir rithöfunda víðsvegar um heiminn þar sem höfundar opna meðal annars heimili sín fyrir öðrum höfundum. Við fylgjumst áfram með því verkefni. Við höfum fundað með framkvæmdastjóra Steinshúss í Djúpi, en þar er í bígerð að bjóða uppá skáldaskjól og má búast við að með vorinu auglýsum við eftir umsóknum.
Ég hef skautað yfir það helsta sem á dagana hefur drifið hjá RSÍ. Eitt og annað gæti hafa gleymst, en ég man það bara næst. Gangi ykkur vel við ritverkin.
Bestu kveðjur, Kristín Helga