Það ríkir rafræn gleði í Gunnarshúsi því nú í aprílbyrjun er ný heimasíða Rithöfundasambandsins flogin út í netheima. Hún er skilvirk og skemmtileg, þægileg að vinna með og vonandi mun aðgengilegri fyrir félagsmenn en sú gamla. Það er Áslaug Jónsdóttir, bókverkakona, sem ber hita og þunga af hönnun og framsetningu nýju vefsíðunnar. Hafi hún elskusamlegar þakkir fyrir fagurt handverk. Þá hefur okkar eigin Ragnheiður verið yfir og allt um kring og mun vefsíðan verða hennar starfsvettvangur og leikvöllur. Hún brosir hringinn og það veit á gott. Helstu nýjungar verða veftímaritið Höfundurinn, en þar verður vettvangur fyrir pistla og vangaveltur félagsmanna. Útgáfuráð RSÍ sér um tímaritið og mun boðkefli ganga á milli höfunda sem grípa það þá og skrifa. Þá er formaður kominn með sinn koll í horni.
Vinnustofur Gunnarshúss eru komnar í gagnið og þrír höfundar nýta sér aðstöðuna í aprílmánuði. Það er ástæða til að brýna fyrir félagsmönnum að tryggja sér skrifstofurými fyrir haustið, sé áhugi fyrir hendi.
Í vetur hafa hin ýmsu ráð RSÍ verið að störfum, en þau voru stofnuð í fyrra. Verið er að skoða samninga, en samningur við útgefendur er laus í árslok og í skoðun er hvort taka skuli upp viðræður um hann að nýju. Einnig eru málefni þýðenda til skoðunar.
Síðastliðið starfsár hefur verið annasamt og stór slagur var tekinn við stjórnvöld um bókaskattinn. Hann var lagður á þrátt fyrir hávær mótmæli, þrotlausa fundi og fortölur. Segja má að varnarsigur hafi unnist með því að Bókasafnssjóður var hækkaður upp í sömu tölu og hann var í 2013, en sjóðurinn var skorinn niður um helming á síðasta ári. Þar eru þó sóknarfæri því sjóðurinn er enn skammarlega lítill. Við munum því kalla eftir viðræðum við stjórnvöld um sjóðinn til að stækka hann og skapa honum viðunnandi lagalegt umhverfi til framtíðar.
Framundan eru vordagar blíðir. Þing norrænna rithöfundasambanda verður haldið nú í maí í samstarfi við Hagþenki. Þá er framundan opinn upplýsinga- og samstarfsfundur um rafbókina í nútíð og framtíð. Að auki verða í apríl pallborðsumræður um framtíð bókarinnar á vegum Bókmenntaborgarinnar. Allt verður þetta auglýst hér á nýju heimasíðunni.
Þá er vert að minna á að félagsmenn eru með lokaða spjallsíðu á Fésbók sem þeir nýta ýmist til að minna á sig eða málefnin hverju sinni. Leitið hana endilega uppi og bætið ykkur í hópinn; Félagar í Rithöfundasambandi Íslands.
Aðalfundur RSÍ verður þriðjudaginn 21. apríl með tilheyrandi stjórnarkjöri. Félagsmenn eru hvattir til að fjölmenna. Á fundinum verða einnig til umræðu lagabreytingar, til dæmis varðandi rafrænar kosningar í framtíðinni.
Þrír öflugir liðsmenn ganga nú úr stjórn. Það eru þau Sölvi Björn Sigurðsson, Oddný Eir Ævarsdóttir og Úlfhildur Dagsdóttir. Ég þakka þeim hjartanlega fyrir vel unnin störf í þágu félagsins og er handviss um að stjórnin getur áfram leitað til þeirra ef á þarf að halda.
Lifið heil!
Kristín Helga