Search
Close this search box.

Íslensku bókmenntaverðlaunin 2018

2019Forseti Íslands, herra Guðni Th. Jóhannesson, afhenti Íslensku bókmenntaverðlaunin 2018, við hátíðlega athöfn á Bessastöðum þann 29. janúar. Verðlaunin skiptust í þrjá flokka og þeir sem að þessu sinni hlutu verðlaunin voru:

Fræðirit og bækur almenns efnis:
Hörður Kristinsson, Þóra Ellen Þórhallsdóttir og Jón Baldur Hlíðberg : Flóra Íslands -Blómplöntur og byrkingar. Útgefandi: Vaka Helgafell.
Barna- og ungmennabækur:
Sigrún Eldjárn : Silfurlykillinn. Útgefandi: Mál og menning.
Fagurbókmenntir:
Hallgrímur Helgason : Sextíu kíló af sólskini. Útgefandi: JPV útgáfa.

Forseti Íslands setti samkomuna sem sjónvarpað var í beinni útsendingu á RUV. Því næst flutti Heiðar Ingi Svansson, formaður Félags íslenskra bókaútgefenda, stutta tölu. Forseti Íslands kynnti niðurstöður dómnefndar og afhenti verðlaunin. Verðlaunahöfundar ávörpuðu gesti.
Íslensku bókmenntaverðlaunin nema einni milljón króna fyrir hvert verðlaunaverk og eru kostuð af Félagi íslenskra bókaútgefenda. Auk þess er verðlaunahöfum afhent skrautrituð verðlaunaskjöl og verðlaunagripir, hannaðir af Jóni Snorra Sigurðssyni á gullsmíðaverkstæði Jens; opin bók á granítstöpli með nafni verðlaunahöfundar og bókar hans.
Fjögurra manna lokadómnefnd valdi verkin úr hópi fimmtán bóka sem tilnefndar voru til verðlaunanna í desember á síðasta ári þegar fimm bækur voru tilnefndar í hverjum flokki. Lokadómnefnd skipuðu Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir, Steingrímur Þórðarson, Þórunn Sigurðardóttir og Gísli Sigurðsson sem var jafnframt var formaður nefndarinnar.
Regína Ósk og Svenni Þór fluttu tvö lög á milli dagskráratriða:Vegbúinn. Lag og texti: KK. Þér við hlið. Lag: Trausti Bjarnason, texti: Magnús Þór Sigmundsson.
Íslensku bókmenntaverðlaununum var komið á fót árið 1989 í tilefni af 100 ára afmæli Félags íslenskra bókaútgefenda sem stofnað var í Reykjavík í janúar 1889. Fyrsta árið var verðlaununum ekki skipt í flokka en tilnefndar alls 10 bækur. Fyrsti verðlaunahafinn var ljóðskáldið Stefán Hörður Grímsson sem hlaut verðlaunin fyrir bókina Yfir heiðan morgun. Árið eftir var tilhögun verðlaunanna breytt þannig að tilnefndar bækur skiptust í tvo flokka, fagurbækur annars vegar og fræðibækur og rit almenns efnis hins vegar. Þannig hafa verðlaunin haldist óbreytt þar til ársins 2013 að við bætist flokkur barna- og ungmennabóka.
Tilnefningar eru kynntar þann 1. desember ár hvert og verðlaunin síðan veitt síðla janúar eða í upphafi febrúar. Óháðar tilnefninganefndir, skipaðar þremur dómbærum fulltrúum hver, velja þær fimm bækur í hverjum flokki sem helst þykja skara fram úr. Lokaval er í höndum formanna nefndanna þriggja og forsetaskipaðs dómnefndarformanns. Velja þeir eina bók úr hverjum flokki þannig að þrjár bækur hljóta á endanum Íslensku bókmenntaverðlaunin. Forseti Íslands afhendir verðlaunin á Bessastöðum við hátíðlega athöfn. Allir sem gefa út bækur á Íslandi geta lagt fram bækur til verðlaunanna sama ár og þær koma út, hvort sem þeir eru í Félagi íslenskra bókaútgefenda eða ekki, og greiða fyrir það hóflegt gjald. Verðlaunaupphæðin er ein milljón króna fyrir höfund hvers verðlaunaverks. Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir ári síðan, árið 2017 hlutu Unnur Þóra Jökulsdóttir fyrir Undur Mývatns, Áslaug Jónsdóttir, Rakel Helmsdal og Kalle Güettler fyrir Skrímsli í vanda og Kristín Eiríksdóttir fyrir Elín, ýmislegt.

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email