Search
Close this search box.

Höfundakvöld í Gunnarshúsi — Emil Hjörvar Petersen og Sverrir Norland

hofundakvoldÁ höfundakvöldi í Gunnarshúsi, fimmtudaginn 3. nóvember kl. 20:00, munu rithöfundarnir Emil Hjörvar Petersen og Sverrir Norland spyrja hvor annan spjörunum úr.

Báðir sendu þeir nýlega frá sér skáldsögu – Emil Víghóla (Veröld) og Sverrir Fyrir allra augum (Forlagið) og verða umræðurnar því helgaðar nýju verkunum. Áhorfendur fá innsýn í ritstörf beggja, hugmyndirnar sem liggja að baki sögunum og efnivið þeirra, en auk þess tækifæri til að bera upp spurningar og taka þátt í spjallinu. Um er að ræða afar ólíka höfunda og því ljóst að kvöldið mun leiðast inn á óvæntar slóðir. Undir dagskrárlok tekur Sverrir svo að sjálfsögðu lagið.

Kaffi og með því verður á boðstólum. Þá gefst gestum tækifæri á að næla sér í eintök af bókunum á sérstöku tilboðsverði.

Um Emil Hjörvar Petersen og Víghóla

Emil Hjörvar Petersen hefur áður gefið út þrjár ljóðabækur og skáldsagnaþríleikinn Saga eftirlifenda (2010, 2012 og 2014) sem hann hlaut mikið lof fyrir, og í umfjöllunum hefur hann verið sagður einn helsti frumkvöðull furðusagna á Íslandi. Í Víghólum, sem Veröld gefur út, heldur hann áfram á svipaðri braut, en í þetta sinn sinn er hann alfarið á heimaslóðum. Íslenskum veruleika er att saman við yfirnáttúru þjóðsagnaarfsins, fantastíkinni er leyft að nóta sín og inn í þá blöndu spinnst norræn spennusagnahefð, svo að úr verður rammíslensk furðusaga full af kynngi, rökkri, seiðum og hélogum; saga þar sem heimur vættanna er til en er hulinn flestum. Aðalpersónurnar eru mæðgurnar Bergrún Búadóttir sem er blankur miðill, fráskilin og heltekin af starfi sínu, og Brá Bjarkadóttir sem er tvítug, rótlaus dóttir hennar.

Á kápu Víghóla segir:

„Vinnuvélar verktakafyrirtækis eru stórskemmdar í skjóli nætur. Illa útleikin lík finnast á nokkrum stöðum á landinu. Margt bendir til að þarna séu að verki aðilar úr öðrum heimi.

Lögreglan fær Bergrúnu Búadóttur huldumiðil til að aðstoða við rannsókn málsins. Fljótlega kemur í ljós að myrk og máttug öfl seilast til aukinna valda bæði í Mannheimi og Hulduheimi. Bergrún og Brá, tvítug dóttir hennar, leggja af stað í ferðalag sem fljótlega umbreytist í háskaför þar sem þær þurfa að kljást við óútreiknanlega og máttuga andstæðinga. Samhliða því myndast mikil spenna í sambandi mæðgnanna sem verður til þess að leiðir þeirra skilja.“

Um Fyrir allra augum eftir Sverri Norland

Sverrir vakti athygli fyrir fyrstu skáldsögu sína, Kvíðasnillingana (2014), sem stimplaði inn í íslenskan bókmenntaheim nýja og frumlega rödd. Hér sendir hann frá sér skáldsögu sem talar þráðbeint inn í samtímann og lýsir lífi ungra Reykvíkinga og árekstrum þeirra við eldri kynslóðir, og er í senn spennandi, fyndin og mótuð af þeim létta, flæðandi og hressilega stíl sem einkennir sögurnar hans.

Úlfur situr á Þjóðarbókhlöðunni þegar Dísa Eggerts vindur sér að honum með áleitna spurningu. Þetta markar upphafið á vandræðalegu en jafnframt sprenghlægilegu sambandi þar sem Úlfur fylgist heillaður með Dísu rísa til æðstu metorða í rapptónlistar- og bókmenntaheiminum á meðan allt gengur á afturfótunum hjá honum sjálfum.

Helsta viðfangsefni bókarinnar endurspeglast í titlinum: Hvaða mynd dregurðu upp af þér gagnvart öðrum, í heimi þar sem allt gerist í síauknum mæli fyrir allra augum? Hversu nærri raunveruleikanum fer sú mynd? Hver er raunveruleikinn, er yfirhöfuð til eitthvert svar við því? Er jafnvel hægt að vera ein manneskja á netinu – til dæmis heilsteypt, þjóðþekkt, pottþétt fyrirmyndarkona – og allt önnur manneskja utan ramma skjásins; vera brotin, skemmd og týnd manneskja sem ver dögunum í að dytta að fegraðri birtingarmynd sinni á skjánum? Og hvers virði er þá sú fegraða mynd?

Fyrir allra augum er spennusaga. Ástarsaga. Gamansaga. Hún fjallar um samfélagsbyltingar. Rapp í Reykjavík. Tinder. Kynjapólitík. Túrista. Félagslegu vandræðalegheita-tímavélina. Rappsveitina Forhertar tilfinningaverur og lög eins og „Ó, ó, ó“, „Reykjagrasvík“ og „Ólíkindafól“. Og um frægustu konu Íslands, „rödd sinnar kynslóðar“, og um minnst fræga gaur Íslands, „þögn sinnar kynslóðar“. Fyrir allra augum er ný og fersk skáldsaga, lituð af skemmtilegu innsæi höfundarins, sem fangar tímana okkar.

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email