Search
Close this search box.

Hátíðarræða til ljóðsins

Eva Rún Snorradóttir hlaut Maístjörnuna 2018 fyrir ljóðabók sína Fræ sem frjóvga myrkrið þann 20. maí sl. Verðlaunahafinn flutti þakkarræðu til ljóðsins við hátíðlega athöfn í Landsbókasafni-Háskólabókasafni:

Hátíðarræða til ljóðsins

Hjartans þakkir til þín ljóð. Takk fyrir fyrir að hlaupast undan skilgreiningum. Vera í fullkomnu látleysi þínu ofar þeim hafið, stærra en öll mörk, rammar, rök og vissa. Takk fyrir áhættuna. Takk að upphefja misskilning, stjórnleysi og uppnám. Takk fyrir að koma þér upp skrifstofu í maganum á okkur, í sjónum innra með okkur. Hjálpa okkur undan oki hugsunar og heilans. Takk fyrir sannleika sem er eldri en allt en hverfur um leið og þú gómar hann, eins og tyggjókúla ofan í botnlanga.

Takk fyrir að leyfa okkur að elta þig út í helbera óvissu og taka okkur þannig á óvæntar, ófyrirséðar slóðir. Sýna okkur hversu miklum víðáttum af ókönnuðu landslagi þú býrð yfir. Leyfa okkur að spegla okkar innri víðáttur í þessu flæmi þínu. Takk fyrir að vera félagsráðgjafi, sjúkraliði, símalína til ókannaðra hyldýpa. Takk fyrir að vera gróft, blítt, grimmt, ógeðfellt og skilningsríkt um leið.

Takk fyrir að fela þig. Koma aftan að okkur. Breyta um mynd. Takk fyrir niðursoðna snákinn sem þú sendir okkur í draumi. Takk fyrir ljósverurnar á hafsbotni sem lýsa sjálfa sig upp, í algjöru tímalausu myrkri. Takk fyrir vitlaust númer um miðja nótt. Takk fyrir að rugga okkur í svefn. Fyrir að vera tómur veggur á innri grafhýsum okkar, sem við getum skrifað á, til að sefa okkur. Takk fyrir að vera það eina sem við vitum fyrir víst, að verður til staðar fyrir okkur, þegar Snæfellsjökull er horfinn. Takk fyrir raddirnar. Takk fyrir hlustunina. Fyrir samtalið. Fyrir sársaukann. Fyrir mistökin og sáttina. Takk fyrir alla lyklana sem við vitum að þú geymir á hafsbotni. Takk fyrir að hrista okkur upp, líkamlega. Hrista af okkur eitthvað sem við vissum ekki að við værum að losna við fyrr en löngu síðar. Getum ekki sett orð á það. Það er líka allt í lagi því þú geymir það. Þannig getur þú unnið, umbreytt myrkri í orku. Þú umbreytir af reisn og hógværð, án þess að gera sjálft neitt mál úr því. Enginn þarf einu sinni að merkja það á þér. Þú vinnur eins og jörðin, móðir okkar. Breytir þungri orku í súrefni. Tekur við áföllum, sérð okkur fyrir áföllum eins og foreldri. Takk fyrir að vera leið til að takast á við lífið og dauðann og allt þar á milli. Takk fyrir að hjálpa okkur að afmiðja veröld okkar og komast undan okkur sjálfum. Við þurfum sannarlega á þér að halda. Takk.

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email