Search
Close this search box.

Handritshöfundar, leikskáld og þýðendur – stóraukin þjónusta við höfunda!

Ertu handritshöfundur, leikskáld eða þýðandi? Þá er Rithöfundasamband Íslands (RSÍ) stéttarfélagið þitt!

RSÍ hefur allt frá stofnun sambandsins lagt áherslu á að semja um réttindi og kjör höfunda og gerir m.a. heildarsamninga fyrir hönd félagsmanna við leikhúsin, RÚV, Félag íslenskra bókaútgefenda, Menntamálastofnun og Hljóðbókasafn og veitir einnig rithöfundum beina aðstoð, upplýsingar og ráðgjöf um gerð annarra samninga, m.a. option-, purchase- og handritasamninga. Frá upphafi hefur félagið starfað sem stéttarfélag allra rithöfunda og þótt rekja megi uppruna félagsins allt til ársins 1928 þá má þakka öll núverandi réttindi rithöfunda sameiningu þeirra í eitt stórt samband árið 1974. Í kjölfarið fengu rithöfundar mátt hinna mörgu til samstöðu og réttindabaráttu sem hefur skilað sér í breiðfylkingu sem starfar á traustum grunni. Við hvetjum alla starfandi handritshöfunda, leikskáld og þýðendur sem uppfylla inntökuskilyrði RSÍ til að leggja sitt af mörkum og slást í sístækkandi hóp öflugra félagsmanna.

Félagsmönnum RSÍ hefur lengi staðið til boða lögfræðiaðstoð við yfirlestur og gerð ýmis konar samninga, sér að kostnaðarlausu. Nú er svo komið að margir samningar sem félagsmenn gera, sér í lagi handritasamningar og samningar um sölu á kvikmyndarétti, hafa orðið flóknari og vandasamari. Því hefur verið ákveðið að stórauka lögfræðiþjónustu við félagsmenn Rithöfundasambands Íslands. Hver félagsmaður getur nú fengið allt að fjóra tíma hjá lögmanni félagsins vegna hvers verkefnis, sér að kostnaðarlausu. Við erum sannfærð um að þessi viðbót nýtist vel, m.a. handritshöfundum og öðrum rithöfundum sem gera samninga á borð við option- og/eða purchase-samninga við sölu á kvikmyndarétti eða handritasamninga, og viljum því vekja sérstaka athygli hjá þeim sem geta nýtt sér þjónustuna og geta sótt um félagsaðild í RSÍ.

Lögmaður RSÍ er Sigríður Rut Júlíusdóttir hrl. sem hefur um margra ára skeið ráðlagt handritshöfundum, leikskáldum, þýðendum og öðrum rithöfundum við samningagerð. Hún býr bæði yfir sérmenntun á sviði höfundaréttar og áralangri reynslu af ráðgjöf í höfundaréttarmálum. Reynslan sýnir að afar mikilvægt er að lögmaður komi að samningamálum fyrir hönd höfunda þegar samið er um kvikmyndarétt og/eða handritsgerð. Í mörg horn er að líta og mikilvægt að hvert og eitt tilvik sé skoðað sérstaklega og höfundum ráðlagt við samningagerðina í hvert sinn. Slíkum samningum hefur með uppgangi íslenskrar kvikmyndagerðar farið fjölgandi á undanförnum árum og samningarnir eru flóknir og afar sérhæfðir. Innan RSÍ eru einnig starfandi ýmis ráð og nefndir þangað sem félagsmenn geta leitað með spurningar og vafamál, m.a. er starfrækt handritshöfundaráð sem veitir skrifstofu ráðgjöf í málefnum handritshöfunda.

RSÍ fagnar því að geta stóraukið þjónustuna við félagsmenn sína og hvetur alla sem sjá hag sínum best borgið í sameinuðu og sterku stéttarfélagi að sækja um félagsaðild uppfylli þeir inntökuskilyrðin. Rétt á félagsaðild eiga rithöfundar sem birt hafa tvö verk og geta það verið handrit eða leikrit sem sviðsett hafa verið í leikhúsi eða sjónvarpi, flutt í hljóðvarpi eða kvikmynduð (frumsamin eða þýdd), bókmenntaverk, fræðirit eða annað efni sem inntökunefnd metur fullnægjandi til inngöngu. Sjónvarpsþýðendur sem hafa þýðingar að aðalstarfi eiga einnig rétt á félagsaðild.

Hér má finna frekari upplýsingar um viðamikla starfsemi RSÍ og fjölbreytta þjónustu við félagsmenn.

IHM-sjóður RSÍ – fyrir höfunda leikins efnis í sjónvarpi eða útvarpi

Rithöfundasamband Íslands er stofnaðili samtaka höfundaréttarfélaga (IHM – Innheimtumiðstöð gjalda) og veitir viðtöku og úthlutar þeim hlut sem tilheyrir ritlistinni einstaklingsbundið til rétthafa úr IHM-sjóði RSÍ. Allir handritshöfundar, leikskáld, þýðendur, rithöfundar og aðrir höfundar ritverka, sem flutt hafa verið í sjónvarpi eða útvarpi, eiga rétt á úthlutun úr IHM-sjóði RSÍ eftir réttindum og óháð félagsaðild í RSÍ eða öðrum stéttar- eða fagfélögum. Samkvæmt reglum sjóðsins er úthlutað til rétthafa eftir umsóknum og umsóknarfrestur er auglýstur árlega í miðlum RSÍ og dagblöðum. Þeir sem vilja fylgjast með umsóknarfresti en eru hins vegar ekki félagsmenn í RSÍ geta skráð sig á sérstakan póstlista með því að senda póst á tinna@rsi.gagnaver.is.

Með lagabreytingu haustið 2016 hækkuðu bætur ríkisins til IHM og því er ljóst að úthlutanir úr IHM-sjóði RSÍ verða umtalsvert hærri næstu árin en þær hafa verið fram að þessu. Því er hafin vinna við að endurskoða úthlutunarreglur IHM-sjóðs RSÍ, m.a. til að auðvelda rétthöfum að fá úthlutað án þess að þurfa að sækja sérstaklega um það árlega. Í drögum að nýjum úthlutunarreglum er gert ráð fyrir að rétthafar geti skráð sig einu sinni í sjóðinn og fái eftir það úthlutað árlega eftir réttindum skv. skráningu frá útvarpi og sjónvarpi, og þurfi ekki að fylgjast með auglýsingum um sjóðinn og umsóknarfrest. RSÍ hefur um árabil hýst Bókasafnssjóð höfunda þar sem svipað kerfi ríkir og hefur reynslu af slíkri umsýslu frá upphafi. Við hvetjum því alla sem rétt eiga á úthlutun úr sjóðnum til að fylgjast með tilkynningum um þessar breytingar sem verða kynntar um leið og þær liggja fyrir. Félagsmenn í RSÍ og allir sem hafa skráð sig á ofan nefndan póstlista fá sérstaka tilkynningu um leið og nýjar úthlutunarreglur hafa verið samþykktar.

Lesa meira!

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email