Gyrðir Elíasson hlýtur Maístjörnuna

Gyrðir Elíasson hlaut í dag 15. maí Maístjörnuna fyrir ljóðabókatvennuna Dulstirni & Meðan glerið sefur.

Maístjarnan, ljóðabókaverðlaun Rithöfundasambands Íslands og Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns, voru afhent í áttunda sinn við hátíðlega athöfn í Þjóðarbókhlöðunni.

Umsögn dómnefndar

Ljóðin í ljóðatvennu Gyrðis Elíassonar eru hljóðlát, hlédræg, ásækin og jafn áhrifamikil og skáldið sem yrkir þau. En áhrif höfundarverks Gyrðis á íslenskar bókmenntir eru óumdeild og um leið svo samofin hugsun okkar að við tökum ekki alltaf eftir þeim. Yrkisefnin koma víða að: draumar og veruleiki tvinnast saman á látlausan hátt og eins náttúran og hið manngerða, gleði og sorg, húmor og depurð, sveit og borg, himinn og mold. Myndmálið er skýrt, tært og heillandi líkt og stöðuvatn á björtum sumardegi og í þessum tærleika býr margt sem er satt, fagurt og mikilvægt. Skáldið notar ljóðlistina til þess að afhjúpa fyrir lesandanum hið dularfulla í hversdeginum sem hann sækir innblástur í á einlægan og hógværan en um leið margslunginn hátt. Vangaveltur tilvistarlegs eðlis og leit að tilgangi lífsins eru höfundi hugleiknar og mikilvægar en þau aldagömlu spursmál ganga í sífellda endurnýjun lífdaga og koma lesandanum því stöðugt á óvart. Ljóðverkið Dulstirni og Meðan glerið sefur er dýrmæt áminning um að hið fagra býr í einfaldleikanum og er aldrei langt undan

Ávarp Gyrðis

Það er með gleði og þakklæti sem ég tek við þessari viðurkenningu í dag. Það er sannarlega til fyrirmyndar að hafa verðlaun sem einskorðuð eru við ljóðabækur, þar sem þær virðast yfirleitt bera fremur skarðan hlut frá borði á öðrum vettvangi nú um stundir, og alltaf heyrast raddir sem lýsa yfir dauða þessa bókmenntaforms. En miðað við þann fjölda ljóðabóka sem lagður var fram til þessara verðlauna í ár, er ljóst að ljóðið getur sagt af fullu öryggi, líkt og Mark Twain forðum: „fregnir af andláti mínu eru stórlega ýktar.“
 
Þegar ég var að alast upp var öll umræða um banvænan súrefnisskort ljóðlistarinnar fyrirferðarminni, þó vissulega hefði Steinn Steinarr lýst því yfir kringum 1950 að hið hefðbundna ljóðform væri  loksins dautt. Sjálfur stóð hann á flekaskilum hins gamla og nýja tíma og var jafnvígur á bæði hið frjálsa og bundna. Ljóð Steins voru höfð í hávegum heima hjá mér í uppvexti mínum, ekki síst hinn óviðjafnanlegi bálkur hans, Tíminn og vatnið, sem faðir minn myndskreytti með pennateikningum og ég skemmti mér endalaust við að skoða og endurlesa samhliða hinni myndrænu upplifun. Sömuleiðis var ritsafn Jóhannesar úr Kötlum í miklu uppáhaldi, og ég las jöfnum höndum eldri verk hans með rímuðu kvæðunum, og svo síðustu fjórar ljóðabækur hans sem eru í óbundnu formi og voru að sínu leyti jafn merkilegt framlag til formbyltingar í skáldskap hérlendis og verk hinna eiginlegu módernista, þótt þær kæmu ögn síðar. Bækur Stefáns Harðar, Hannesar Sigfússonar, Vilborgar Dagbjartsdóttur, Sigfúsar Daðasonar, Jóns Óskars, Hannesar Péturssonar og Þorsteins frá Hamri bárust jafnóðum inn á heimilið og voru lesnar af undirrituðum af mikilli ákefð. Í kjölfarið tóku svo að birtast bækur Þórarins Eldjárns, sem sannaði aldarfjórðungi eftir fullyrðingu Steins að hið „hefðbundna“ væri orðið nýstárlegt, og fyrstu bækur Steinunnar Sigurðardóttur, Sigurðar Pálssonar og Splunkunýr dagur Péturs Gunnarssonar, Dropi úr síðustu skúr eftir Anton Helga Jónsson, svo eitthvað sé nefnt. En ég man ekki til þess að svo mikill greinarmunur hafi verið gerður á eldri skáldskap og yngri, háttbundnum eða ekki; það var einfaldlega skáldskapurinn sjálfur sem skipti máli, og því voru ekki endilega nein djúp skil milli Einars Benediktssonar til dæmis í mínum huga á þessum árum og þeirra sem á eftir komu. Þannig mætti að mínu mati finna ýmislegt sameiginlegt með Einari og Hannesi Sigfússyni ef svo ber undir, ekki síst í flugi málsins, og jafnvel líka hugmyndalega séð, án þess að ég hafi svosem lagst djúpt í slíkan samanburð. Enda hafði Einar gert tilraunir með að þýða órímuð ljóð úr Grasblöðum Whitmans, svo hefði hann lifað lengur er aldrei að vita hvernig hann hefði brugðist við þegar formbyltingarskáldin komu fram á sjónarsviðið. Fyrir mína parta er það einhverskonar misskilningur að halda því fram að samhengi bókmenntanna hafi rofnað við hina svokölluðu formleysu; á ytra byrðinu breyttist kannski allt, í takt við síaukna sundrungu og þenslu tímans, en þegar grannt er skoðað hefur tungutak skáldanna samt ekki breyst svo ýkja mikið, mannskepnan er alltaf eins, og nýrri skáld þurfa alltaf að leita í smiðju hinna eldri til að þroskast og læra.
 
Einsog ég hef margoft sagt frá urðu þáttaskil í mínu lífi þegar Geirlaugur Magnússon skáld kom á Sauðárkrók til að kenna, og flutti með sér stórfenglegt bókasafn sitt, sem hann opnaði mér óheftan aðgang að. Þar með luktust upp algerlega nýjar veraldir. Þó ég hefði vissulega lesið gaumgæfilega ljóðaþýðingar Magnúsar Ásgeirssonar, Jóhannesar úr Kötlum, Dags Sigurðarsonar, Hannesar Sigfússonar, Helga Hálfdanarsonar og fleiri, þá bættust heilar heimsálfur við sjónarsviðið.  Fram að þessu hafði ég hálfvegis hugsað mér að gerast myndlistarmaður, en eftir tveggja ára látlaust grúsk í þessu bókasafni varð mér ljóst að ég vildi yrkja.
 
Upp frá því hefur ljóðagerð verið minn fyrsti kostur, má segja í vissum skilningi — jafnvel þó ég hafi skrifað svokallaðan prósa inn á milli, þá hefur hann að ýmsu leyti byggt á forsendum ljóðsins. Og nú allra síðustu ár, þegar ég loks hef farið að gera myndir, er ljóðið enn grunntónninn; það er að segja ljóðið útfrá mínum sjónarhóli, sem er auðvitað öðruvísi en hjá mörgum öðrum. Sumir eru heimspekileg skáld fyrst og fremst, aðrir byggja meira á augnabliksstemningum og myndrænum eigindum, og svo er auðvitað allt þar á milli, líklega fást flestir við allt þetta einhverntíma á skriftarævi sinni.
 
Kannski breyta ljóð ekki veröldinni, hinsvegar er líklega margreynt að veröldin breytir ljóðinu, og samt er það kannski alltaf í eðli sínu hið sama, vitnisburður um einstaklinga og tegund, í því formi sem er einstakt og ólíkt öðrum listformum. Þegar best tekst til segir ljóð eitthvað sem vart verður sagt með öðru móti, og stundum nær það að segja með orðum— eða milli orða — það sem í raun og veru verður ekki sagt með orðum — og það er mikilvægur eiginleiki. Endanlegt gildi listar er erfitt að meta í flóknum heimi, en svo ég vísi aftur til föður míns var hann eitt sinn spurður í blaðaviðtali hvað hann teldi að mundi gerast ef list hyrfi af einhverjum orsökum úr heiminum í svo sem hálfa öld. Hann svaraði að bragði: „Ég held að menn færu að éta hver annan.“

Um Gyrði Elíasson

Gyrðir Elíasson fæddist í Reykjavík þann 4. apríl 1961. Hann er Austfirðingur að ætt og uppruna en ólst upp á Sauðárkróki og gekk þar í grunn- og framhaldsskóla. Um tíma bjó hann í Borgarnesi og á Akranesi, en seinna í Reykjavík, en hefur um árabil búið í Garði á Suðurnesjum.

Gyrðir hefur nánast alla sína fullorðinsævi unnið við ritstörf og hefur sent frá sér tugi bókmenntaverka af ýmum toga; ljóðabækur, smásögur, smáprósa, skáldsögur og þýðingar. Fyrsta útgefna bók hans, ljóðabókin Svarthvít axlabönd, kom út 1983, en frumsamdar ljóðabækur hans eru nú orðnar 18 talsins. Hann hefur einnig verið ötull ljóðaþýðandi og í tvígang hlotið Íslensku þýðingaverðlaunin fyrir ljóðaþýðingar sínar.

Gyrðir hefur hlotið fjölda verðlauna og viðurkenninga fyrir frumsamin verk sín, m.a. Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2000 fyrir smásagnasafnið Gula húsið og Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2011 fyrir smásagnasafnið Milli trjánna. Verk hans hafa verið þýdd og gefin víða um heim og njóta vaxandi hylli. Nýverið kom út bók í Noregi um ljóðlist hans og nýjasta verkið, ljóðatvennan Dulstirni/Meðan glerið sefur, er væntanlegt í nokkrum þýðingum áður en langt um líður.

Þá má geta þess að nýverið hélt Gyrðir stóra sýningu á myndverkum sínum, en um talsvert skeið hafa myndir eftir hann birst á kápum bóka hans. Er óhætt að fullyrða að þar sýndi höfundurinn á sér enn eina hlið sem vakti verulega og verðskuldaða athygli.

Um Maístjörnuna

Maístjarnan er einu verðlaun á Íslandi sem veitt eru fyrir útgefna ljóðabók. Verðlaununum er ætlað að vekja sérstaka athygli á blómlegri ljóðabókaútgáfu á Íslandi sem og mikilvægi þess að ljóðabókum sé skilað í skylduskil til Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns og varðveitist þannig sem hluti af menningararfi þjóðarinnar.

Gjaldgengar voru allar útgefnar íslenskar ljóðabækur ársins 2023 sem skilað var í skylduskil til Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns og fékk dómnefnd þær til umfjöllunar. Dómnefnd skipa Guðrún Eva Mínervudóttir fyrir hönd Rithöfundasambandsins og Jakub Stachowiak fyrir hönd Landsbókasafnsins.

Tilnefndar bækur 2024

Frumkvæði að stofnun Maístjörnunnar átti Kári Tulinius, skáld og rithöfundur. Verðlaunafé er 350 þúsund krónur.

  • Áður en ég breytist eftir Elías Knörr. Útgefandi: Mál og menning
  • Dulstirni/Meðan glerið sefur eftir Gyrði Elíasson.Útgefandi: Dimma
  • Vandamál vina minna eftir Hörpu Rún Kristjánsdóttur. Útgefandi: Bjartur
  • Flagsól eftir Melkorku Ólafsdóttur og Hlíf Unu Bárudóttur. Útgefandi: Mál og menning
  • Til hamingju með að vera mannleg eftir Sigríði Soffíu Níelsdóttur. Útgefandi: JPV
  • Í myrkrinu fór ég til Maríu eftirSonju B. Jónsdóttur. Útgefandi: Veröld


Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email