Search
Close this search box.

Guðrún Helgadóttir – minning

Guðrún Helgadóttir. Eitt stærsta nafnið í íslenskri rithöfundastétt og án nokkurs vafa sá barnabókahöfundur sem naut mestra vinsælda og virðingar á meðal lesenda sinna. Fyrsta bók Guðrúnar, Jón Oddur og Jón Bjarni, var ekki fyrr komin út en lesendum varð ljóst að þar var komin rödd sem hafði mikið fram að færa. Hún var bæði skemmtileg, spennandi, fyndin, hugmyndarík og vakti til umhugsunar. En fyrst og síðast var bókin skrifuð af skilningi og virðingu fyrir veruleika og hugmyndaheimi barnanna.

Guðrún gekk í Rithöfundasamband Íslands árið 1976 og var gerð að heiðursfélaga sama sambands 2002. Guðrún hafði miklar og skýrar skoðanir á málefnum listamanna eins og öðrum málum og það var mikils virði að hafa hana innan vébanda Rithöfundasambandsins, því þó að hún gegndi ekki trúnaðarstörfum á vegum RSÍ var hún afar virk sem almennur félagsmaður, var óspör á innsæi sitt og tjáði sig af hispursleysi og skynsemi.

Ferill Guðrúnar sem höfundar var glæsilegur og nú þegar hún fellur frá skilur hún eftir sig háan bunka af verkum sem lifa höfund sinn og vekja ennþá aðdáun, kátínu og meðlíðan með þeim sönnu og ljóslifandi persónum sem hún skóp. Tvíburarnir Jón Oddur og Jón Bjarni urðu ódauðlegir í þremur bókum, Hafnarfjarðarþríleikurinn Sitji guðs englar á eftir að heilla og verma börn og fullorðna um ókomna tíð og leikritið Óvitar er orðið sígilt leikverk í íslensku leikhúsi. Og þetta er aðeins brot af höfundarverki Guðrúnar, þar sem fjölbreytnin, mannskilningurinn og húmorinn eiga sér engin takmörk.

Þegar Jón Oddur og Jón Bjarni komu út árið 1974 var ég kominn hátt á tvítugsaldur og hættur að lesa barnabækur. Það hélt ég að minnsta kosti. Þessi bók hafði algjörlega farið framhjá mér, en svo var það samstarfsmaður minn, maður um sjötugt, sem spurði hvort ég hefði lesið bókina hennar Guðrúnar Helgadóttur. Þegar ég svaraði því neitandi sagði hann að það næði ekki nokkurri átt. „Þú átt að lesa almennilegar bækur, drengur,“ sagði hann. Og vegna þess að sami maður hafði skipað mér að lesa Dostojevski, þá tók ég mark á honum og sannfærðist í kjölfarið um að ég mætti alls ekki hætta að lesa barnabækur, því þá væri ég bara að gera sjálfum mér óleik. Það vildi síðan svo skemmtilega til að við Guðrún hittumst í fyrsta sinn á samlestri á kvikmyndahandriti Þráins Bertelssonar um grallarana Jón Odd og Jón Bjarna. Guðrún sagði okkur í upphafi að hún hefði ekkert vit á kvikmyndagerð og ætlaði ekki að skipta sér af nokkrum sköpuðum hlut. Svo sat hún og hlustaði á okkur leikarana leiklesa handritið, hló með okkur og velti vöngum – því auðvitað hafði hún meira vit á því sem framundan var en hún vildi vera láta. Það var Gísli heitinn Halldórsson sem átti síðasta orðið á þessum samlestri. „Ég hafði ekki lesið þessar bækur þegar Þráinn bað mig um að leika í myndinni, svo ég settist inn á lestrarsalinn á Landsbókasafninu og las mig í gegnum þær. Þarna voru virðulegir fræðimenn að glugga í hin og þessi lexíkon og alvaran var allsráðandi allt um kring – og þarna sat leikarafíflið og las barnabækur og hló eins og vitleysingur.“

Leiðir okkar lágu nokkrum sinnum saman eftir þetta. Þegar Guðrún var forseti Alþingis tilheyrði ég hópi manna sem kallaði sig Spaugstofuna og hélt úti vikulegum gamanþætti í Sjónvarpinu. Forseti Alþingis varð oft og iðurlega skotspónn okkar og á tímabili birtist Siggi Sigjóns í hverri viku í gervi Guðrúnar. Ég var svo staddur einhvers staðar í Kringlunni þegar hvöss kvenrödd sagði fyrir aftan mig „Sérðu kvikindið?“ Þegar ég sneri mér við stóð Guðrún þar ásamt dóttur sinni. Við horfðumst í augu stutta stund en skelltum svo bæði uppúr. Hún hafði ýmislegt um það að segja hvernig það væri að vera þekkt persóna í íslensku samfélagi og verða að þola háð og spott gárunga eins og okkar. En hún sagðist hreint ekki geta kvartað, því allt væri þetta fyndið og létti þjóðinni lund – og sjálfri sér ekki síður.

Það var svo eftir frumsýningu á verki eftir mig í Þjóðleikhúsinu sem hún gekk til mín ákveðnum skrefum, tók í höndina á mér og kallaði mig kollega í fyrsta sinn. Þá vildi hún eiga við mig spjall – sem reyndar teygðist aðeins á langinn – um leikritsformið og það hlutskipti að vera leikskáld, en einkum og sér í lagi um þau augnablik þegar einhver sköpun brýst fram af svo miklu fjöri að höfundurinn fær ekki rönd við reist. Þá sagði hún mér að hún hefði skrifað leikritið Óvita á einum degi. „Þetta bara ruddist fram og ég gat ekki hætt fyrr en verkið var allt komið á blað.“

Eins og flestir vita hlaut Guðrún Helgadóttir ótal verðlaun fyrir verk sín og nægir þar að nefna Barnabókaverðlaun fræðsluráðs Reykjavíkur, Menningarverðlaun DV, Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana, Bókaverðlaun barnanna, viðurkenningu rithöfundasjóðs Ríkisútvarpsins og Sögusteininn, heiðursverðlaun IBBY. Mikilvægasta viðurkenningin verður þó ævinlega þeir hugir og hjörtu barna og annarra lesenda sem hún vann með verkum sínum og sú virðing sem hún mun njóta um ókomna tíð fyrir framlag sitt til íslenskra bókmennta.

Rithöfundasamband Íslands þakkar Guðrúnu Helgadóttur fyrir samfylgdina og öll hennar ómetanlegu verk. Aðstandendum sendum við hjartans samúðarkveðjur.

Sjálfur mun ég alla tíð minnast Guðrúnar af hlýju og aðdáun, en einkum og sér í lagi með bros á vör.

Karl Ágúst Úlfsson
formaður Rithöfundasambands Íslands

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email