Upplýst var á ljóðahátíðinni í Kópavogi í gær að enginn hlyti ljóðstaf Jóns úr Vör að þessu sinni, en þetta er í annað sinn í fjórtán ára sögu ljóðasamkeppninnar sem dómnefnd ákveður að ekkert innsendra ljóða hljóti fyrstu verðlaun en þau voru um 180. Í rökstuðningi dómnefndar, sem skipuð er þeim Gunnþórunni Guðmundsdóttur, prófessor í almennri bókmenntafræði, og Sindra Freyssyni, skáldi og rithöfundi, segir m.a.: „Dómnefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu eftir mikla yfirlegu að meðal innsendra ljóða í ár, sem voru mun færri en á liðnum árum, væri ekki að finna ljóð að gæðum sambærilegum þeim sem hafa áður unnið þessa keppni. Dómnefndin leggur því til við Kópavogsbæ að Ljóðstafur Jóns úr Vör verður ekki veittur í ár, í stað þess leggist verðlaunaféð í ár við verðlaun næsta árs og megi því búast við öflugri þátttöku þá.“