Search
Close this search box.

Eiríkur P. Jörundsson hlýtur Svartfuglinn

Eiríkur P. Jörundsson

Eiríkur P. Jörundsson hlaut glæpasagnaverðlaunin Svartfuglinn fyrir sögu sína Hefndarenglar. Eliza Reid, forsetafrú og bókmenntafrömuður, veitti verðlaunin í Gröndalshúsi.

Hefndarenglar er fyrsta skáldsaga Eiríks P. Jörundssonar. Eiríkur lauk MA námi í sagnfræði frá HÍ og hefur starfað sem blaðamaður, upplýsingastjóri og safnastjóri. Hann starfar nú sem safnstjóri Byggðasafns Reykjanesbæjar. Eiríkur er höfundur bókarinnar Þar sem land og haf haldast í hendur – Súðarvíkurhreppur að fornu og nýju.

Hefndarenglar
Blaðamaðurinn Sölvi er sendur til æskustöðva sinna, Súðavíkur, til að leita frétta af morði sem framið hefur verið í þorpinu. Samhliða því að setja sig inn í ýmis mál sem tengjast hinum myrta er hann skikkaður til að aðstoða unga og dugmikla blaðakonu sem vinnur að frétt um misnotkun á ungum stúlkum í undirheimum Reykjavíkur. Bæði málin taka óvænta stefnu og varpa nýju ljósi á skelfilega atburði úr fortíðinni.

Í umsögn dómnefndar um verðlaunahandritið segir:

Í grípandi og liprum texta tekst höfundinum að veita góða innsýn í veruleikann í litlu samfélagi sem orðið hefur fyrir miklu áfalli. Sagan er spennandi frá upphafi til enda og sögusviðið magnað. Samhliða meginsöguþræðinum liggur annar um undirheima Reykjvíkur þar sem misnotkun, miskunnarleysi og ofbeldi ráða ríkjum. Áhrifarík og haganlega samansett saga sem heldur lesandanum föngnum allt fram að óvæntum sögulokunum.

Svo skemmtilega vill til að báðir verðlaunahafar Svartfuglsins eru fæddir og aldir upp á landsbyggðinni – Eva Björg á Akranesi og Eiríkur á Súðavík – og láta sögur sínar gerast í fæðingarbæ sínum

Verðlaunin nema 500.000 krónum auk hefðbundinna höfundarlauna samkvæmt rammasamningi Félags íslenskra bókaútgefenda og Rithöfundasambands Íslands. Einnig býðst þeim sem sigur ber úr býtum samningur við umboðsmanninn David H. Headley en tímaritið Bookseller útnefndi hann sem einn af 100 áhrifamestu mönnum breskrar bókaútgáfu. Yrsa og Ragnar skipuðu dómnefndina ásamt Bjarna Þorsteinssyni, útgáfustjóra Veraldar.

Samkeppnin um Svartfuglinn er ætluð höfundum sem hafa ekki áður sent frá sér glæpasögu. Höfundarnir Yrsa Sigurðardóttir og Ragnar Jónasson stofnuðu til verðlaunanna í samvinnu við útgefanda sinn, Veröld, og eru þau nú veitt í annað sinn. Í fyrra hlaut Eva Björg Ægisdóttir verðlaunin fyrir sögu sína Marrið í stiganum sem fékk sérlega góða dóma og sat lengi í efstu sætum metsölulista. Marrið í stiganum mun næsta vor koma út í Bretlandi. 

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email