Search
Close this search box.

Höfundakvöld í Gunnarshúsi 12. nóvember

Næstkomandi þriðjudagskvöld 12. nóvember kl. 20:00 verður kynning í Gunnarshúsi, Dyngjuvegi 8, á nýrri bók um leikskáldið og ljóðskáldið Jóhann Sigurjónsson, en í haust eru liðin hundrað ár frá dauða skáldsins, sem þá var aðeins 39 ára.          Bókin nefnist Úti regnið grætur og er höfundur Sveinn Einarsson, en Hið íslenska bókmenntafélag gefur bókina út. Í bókinni kemur höfundur fram með nýjar kenningar um áhrif að utan á ljóðskáldskap Jóhanns, einkum frá symbólistum  og öðrum módernistum aldamótaáranna um 1900, spyr í hvaða mæli þetta sama andóf frá raunsæisstefnunni setti mót sitt á leikritun Jóhanns og með hvaða hætti.          Höfundur heldur því fram með samanburði, að Jóhann hafi verið fremsta leikskáld Norðurlanda um sína daga og spyr, hvernig honum hafi vegnað bæði í Danmörku og annars staðar í heiminum meðan hann lifði og hvert sé orðspor  hans í dag, til dæmis hvernig við Íslendingar höfum ræktað minningu hans.             Sveinn Einarsson er löngu þjóðþekktur fyrir afskipti sín af menningarmálum, meðal annars sem leikstjóri um hálfrar aldar skeið og sem höfundur hátt á annan tug bóka. Meðal rita hans eru  Íslensk leiklist í þremur bindum, bók um leikskáldið Kamban og  bókin Leiklistin í veröldinni. Samkoman í Gunnarshúsi hefst kl. 20.00. Þar segir Sveinn  frá hvata og tilurð bókarinnar,  og situr síðan fyrir svörum, en leikskáldið Hrafnhildur Hagalín stýrir  samkomunni og meðal frummælenda í almennu umræðunum verða  bókmenntafræðingarnir Dagný Kristjánsdóttir  og Eiríkur Guðmundsson.

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email