Rithöfundasamband Íslands

The Writers' Union of Iceland


Aðventa lesin í Gunnarshúsum og víðar

adventa2webSaga Gunnars Gunnarssonar um eftirleitir Fjalla-Bensa og förunauta hans á Mývatnsöræfum, verður að venju lesin í Gunnarshúsum í Reykjavík og á Skriðuklaustri 9. desember, annan sunnudag í aðventu.

Hjá Rithöfundasambandi Íslands í Gunnarshúsi á Dyngjuvegi 8 les Jón Björnsson, sálfræðingur og rithöfundur, og hjá Gunnarsstofnun á Skriðuklaustri les Halldóra Malin Pétursdóttir leikkona. Lesturinn hefst á báðum stöðum kl. 13.30. Aðgangur ókeypis og allir velkomnir.

Frá árinu 2005 hefur Gunnarsstofnun staðið fyrir upplestri á Aðventu Gunnars Gunnarssonar og unnið að því að breiða þá hefð út. Sagan er ekki eingöngu lesin upphátt á aðventunni hér á landi því að t.a.m. geta Þjóðverjar notið hennar í Berlín þar sem íslenska sendiráðið hefur veg og vanda að upplestrinum og í Moskvu sér ODRI, vináttufélag Íslands og Rússlands um upplesturinn.

Gunnar Gunnarsson skrifaði nóvelluna Aðventu árið 1936 og kom hún út í fyrsta sinn það ár í Þýskalandi. Síðan þá hefur sagan um Benedikt, Eitil og Leó verið lesin víða um heim af milljónum manna, ekki síst í desember. Aðventa er það verk Gunnars sem þýtt hefur verið á flest tungumál og selst í stærstum upplögum. Hún kemur reglulega út í Þýskalandi hjá Reclam forlaginu og selst í allt að 2000 eintökum á ári enn þann dag í dag. Árið 2016 kom hún út á ítölsku og fleiri tungumálum og bara á Ítalíu seldist hún í um 10 þús. eintökum. Nýjasta þýðingin kom út sl. sumar í Aserbaídsjan og þar með varð Aðventa fyrsta íslenska skáldsagan til að vera þýdd á asersku.

ATH. meðfylgjandi mynd er myndskreyting úr enskri útgáfu á Aðventu frá 5. áratug síðustu aldar.


Höfundakvöld í Gunnarshúsi 6. desember

Slide1.JPG

Eygló Jónsdóttir, Eyrún Ósk Jónsdóttir, Lárus Jón Guðmundsson og Bryndís Björgvinsdóttir  kynna nýútkomnar bækur sínar á höfundakvöldi í Gunnarshúsi fimmtudaginn 6. desember.

Bækurnar:

Ljóðabókina Áttun eftir Eygló fjallar um ferðalög, bæði bókstafleg og huglæg. Bókin varð til á ferðalagi og í henni leyfir höfundur sér að kanna ókunnugt landslag og nýjar víddir í sjálfum sér.

Ljóðabókin Í huganum ráðgeri morð eftir Eyrúnu fjallar um sköpunarkraftinn sem lifandi afl er öðlast sjálfstætt líf, heltekur listamanninn og brýst út þegar síst varir, gerir byltingu og uppreisn. Bjartur gefur út.

FLEKASKIL eða nokkrar hugleiðingar út frá jarðfræði og kenningum Alfreds Wegeners sem hvílir frosinn á miðjum aldri djúpt í Grænlandsjökli, eftir Lárus Jón Guðmundsson.

Hvítir miðaldra karlmenn eru mikið í fréttum þessa dagana og ekki alltaf af góðu tilefni. Skemmdu eplin fá verðskuldaða athygli og viðeigandi fordæmingu en fáir velta fyrir sér líðan og ástandi hinna eplanna í tunnunni. Í Flekaskilum er reynt að gægjast undir yfirborðið, skynja líðan ljóðmælanda og velta upp svörum við áleitnum spurningum.

Krossgötur: Álfatrú, álfabyggðir og bannhelgi á Íslandi er afrakstur fjögurra ára rannsóknarvinnu Bryndísar Björgvinsdóttur og Svölu Ragnars ljósmyndara. Í henni er greint frá 54 stöðum um allt land sem mannfólkið má ekki hrófla við samkvæmt hjátrúnni. Rýnt er í ný og gömul dæmi til að varpa ljósi á sögurnar að baki og áhrif þessarar fornu hjátrúar á umhverfi og menningu. Bjartur gefur út.

Höfundarnir:

Eygló Jónsdóttir er með meistaragráðu í ritlist. Hún situr í ritnefnd fyrir tímaritið Mannúð, sem fjallar um frið og mannréttindi. Síðustu jól gaf hún út barnabókina Ljóti jólasveinninn, sem einnig var litabók. Hún hefur skrifað fjölda greina í blöð/tímarit og ljóð eftir hana og sögur hafa birst í safnritum.

Eyrún vann bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar 2016. Árið 2017 komu út tvær bækur eftir hana, Ferðin til Mars og barnabókin Skrímslin í Hraunlandi. Auk þess að senda frá sér fjórar skáldsögur, fjórar ljóðabækur og eina myndskreytta barnabók hefur Eyrún skrifað leikrit, kvikmyndahandrit, greinar og fyrirlestra, m.a um friðarmál og mannúðarheimspeki búddisma.

Lárus Jón menntaði sig í raungreinum og vísindum fyrir margt löngu og sá fram á átakalítið ævikvöld þegar hann komst að því að hann hafði steingleymt að bólusetja sig gegn ritlistarveirunni. Hann fékk heiftarlegt skriftarkast, var lagður inn á ritlistarálmu Hugvísindasviðs Háskóla Íslands og er fyrst núna þremur árum síðar að útskrifast með ævilanga Magisters greiningu.

Bryndís Björgvinsdóttir þjóðfræðingur og Svala Ragnarsdóttir heimildaljósmyndari. Hugmyndin að verkefninu spratt upp úr verkefni þar sem Svala ljósmyndaði eigin æskustöðvar „í nýju ljósi“. Hún fékk Bryndísi til liðs við sig enda báðar Hafnfirðingar. Þær urðu brátt hugfangnar að þessu verkefni og hafa nú ferðast um allt land til að ljósmynda og rannsaka bannhelg svæði sem hafa áhrif á umhverfi, menningu og landslag.


Höfundakvöld í Gunnarshúsi miðvikudaginn 5. desember kl. 20.00

miðvikudagur

Höfundakvöld í Gunnarshúsi, Dyngjuvegi 8, miðvikudagskvöldið 5. desember kl. 20.00

Þrír höfundar leiða saman bækur sínar og úr verður fallegt eyrnakonfekt!
(Og reyndar verður líka hægt að nasla á heimagerðum kræsingum frá Lilju Katrínu!)

Bergrún Íris Sævarsdóttir mun kynna Langelstur í bekknum: Leynifélagið; og Næturdýrin. Barnabókin Langelstur í leynifélaginu eftir Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur segir frá sumarfríi vinanna Eyju (7 ára) og Rögnvaldi (97 ára). Bókin er framhald af Langelstur í bekknum sem sló í gegn á síðasta ári og vakið hefur áhuga fjölda barna á yndislestri.

Lilja Katrín Gunnarsdótir mun kynna Minn sykursæti lífstíll.
Minn sykursæti lífsstíll er fyrsta bók ástríðubakarans Lilju Katrínar Gunnarsdóttur, konunnar á bak við sykursætu bloggsíðuna blaka.is. Bókin er stútfull af bakstursuppskriftum og góðum ráðum fyrir þá sem vilja leyfa ímyndunaraflinu og gleði að ráða ríkjum í eldhúsinu, með tilheyrandi sykursjokki og kolvetnavímu.

Sigga Dögg kynfræðingur kynnir sína fyrstu skáldsögu; kynVeru. Sagan er brot úr dagbók Veru, táningsstúlku sem stendur á ákveðnum tímamótum og reynir að átta sig á næstu skrefum með því að rekja ákveðna atburðarás. Í því ferðalagi veltir hún fyrir sér m.a. blæðingum, ástinni, jafnrétti, losta, kynhneigð, og líkamanum. Höfundur veitir dýrmæta, og einstaka, innsýn í hugarheim unglings útfrá spurningum og umræðum sem koma upp í kynfræðslufyrirlestrum hennar um land allt.

 


Tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna

tilnefningar

 

Í flokki fagurbókmennta eru tilnefndar:

Ungfrú Ísland eftir Auði Övu Ólafsdóttur,
Lifandilífslækur eftir Bergsvein Birgisson,
Sálumessa eftir Gerði Kristnýju,
Sextíu kíló af sólskini eftir Hallgrím Helgason,
Haustaugu eftir Hannes Pétursson.

Í flokki fræðibóka og rita almenns efnis eru tilnefndar:

Þjáningarfrelsið. Óreiða hugsjóna og hagsmuna í heimi fjölmiðla eftir Auði Jónsdóttur, Báru Huld Beck og Steinunni Stefánsdóttur,
Flóra Íslands. Blómplöntur og birkningar eftir Hörð Kristinsson, Jón Baldur Hlíðberg og Þóru Ellen Þórhallsdóttur,
Bókasafn föður míns eftir Ragnar Helga Ólafsson,
Kristur. Saga hugmyndar eftir Sverri Jakobsson,
Skúli fógeti –  faðir Reykjavíkur eftir Þórunni Jörlu Valdimarsdóttur.

Í flokki barna-og ungmennabóka eru tilnefndar:

Sagan af Skarphéðni Dungal sem setti fram kenningar um eðli alheimsins eftir Hjörleif Hjartarson og Rán Flygenring,
Ljónið eftir Hildi Knútsdóttur,
Rotturnar eftir Ragnheiði Eyjólfsdóttur,
Silfurlykillinn eftir Sigrúnu Eldjárn,
Sölvasaga Daníelssonar eftir Arnar Má Arngrímsson.

Verðlaunin verða afhent um mánaðarmótin janúar-febrúar í 30. sinn. Verðlaunahafi í hverjum flokki fær eina milljón króna í verðlaunafé.


Ísnálin 2018

Ljósmynd: Eliza Reid forsetafrú afhenti Bjarna Gunnarssyni Ísnálina 2018 á glæpasagnahátíðinni Iceland Noir í Reykjavík.

Ljósmynd: Eliza Reid forsetafrú afhenti Bjarna Gunnarssyni Ísnálina 2018 á glæpasagnahátíðinni Iceland Noir í Reykjavík.

Ísnálina 2018 hljóta rithöfundurinn Jo Nesbø og þýðandinn Bjarni Gunnarsson fyrir glæpasöguna Sonurinn (Sønnen).

Bjarni Gunnarsson tók við verðlaununum á alþjóðlegu glæpasagnahátíðinni Iceland Noir í Iðnó í Reykjavík. Ísnálin er veitt fyrir bestu þýddu glæpasöguna á íslensku, þar sem saman fara góð þýðing og góð saga.

Þetta er fimmta árið sem verðlaunin eru veitt, og í annað sinn sem þeir Nesbø og Bjarni hreppa verðlaunin, en þau fengu þeir einnig árið 2015 fyrir bókina Blóð í snjónum. Að verðlaununum standa Iceland Noir glæpasagnahátíðin, Hið íslenska glæpafélag og Bandalag þýðenda og túlka.

Dómnefnd skipa Katrín Jakobsdóttir, Kolbrún Bergþórsdóttir, Jóhann R. Kristjánsson og Ragnar Jónasson.

Rithöfundasamband Íslands óskar Bjarna Gunnarssyni til hamingju með verðlaunin!


Um starfslaun listamanna

Pétur Gunnarsson rithöfundur

Pétur Gunnarsson rithöfundur

Pétur Gunnarsson:

Erindi haldið á málþingi BÍL 24. nóvember 2018

Fyrir daga starfslauna listamanna voru við lýði hin svokölluðu listamannalaun sem pólitískt skipuð úthlutunarnefnd úthlutaði við árvissa óánægju allra. Úthlutunin lá jafnan undir ámæli um að spegla valdahlutföllin á Alþingi frekar en listrænt mat uns svo var komið að rithöfundar, sem annars voru um þær mundir klofnir í  tvær fylkingar, tóku höndum saman í baráttu fyrir tilkomu ritlaunasjóðs sem höfundar gætu sótt í til að vinna fyrirfram skilgreind verk, en faglega skipuð nefnd fjallaði síðan um umsóknirnar. Slíkur sjóður tók til starfa árið 1972 og varð tuttugu árum síðar, árið 1992, að módeli fyrir starfslaun listamanna þegar myndlistarmenn og tónskáld bættust í hópinn, ásamt listasjóði sem var ekki eyrnamerktur sérstakri listgrein. Lagt var upp með pott sem í voru 1200 mánaðarlaun sem áttu að taka mið af byrjunarlaunum menntaskólakennara. Leið svo heill áratugur án þess mánuðum væri fjölgað þrátt fyrir fjölgun þjóðarinnar og knýjandi þörf fyrir eðlilega og sjálfsagða nýliðun listamanna. Við svo búið mátti ekki standa og á aðalfundi BÍL í Borgarnesi í ársbyrjun árið 2007 var samþykkt ályktun þar sem þess var krafist að stöðnunin yrði rofin og sjóðurinn aukinn. Erindinu var fylgt eftir á samráðsfundi með menntamálaráðherra í mars það ár og þá um haustið, nánar tiltekið á 80 ára afmælisfagnaði BÍL, boðaði menntamálaráðherra í hátíðarræðu til fundar með fulltrúum listamanna um fjölgun og fyrirkomulag starfslauna. Fundurinn átti að fara fram þá um haustið, eða þann 9. október, en af honum varð aldrei – þremur dögum áður bað forsætisráðherra Guð að blessa Ísland og fundi var frestað um óákveðinn tíma.

Stjórnin féll og ný stjórn tók við sem ákvað, þrátt fyrir ískyggilegar horfur og þungbúinn þjóðfélagshimin, að standa við gefin fyrirheit. Á fundi nýs menntamálaráðherra með fulltrúum BÍL þann 7.janúar 2009  – sem stóð í heilar sjö klukkustundir – var nýtt fyrirkomulag starfslauna kynnt og samþykkt, sjóðum fjölgað úr þremur í sex og mánuðum fjölgað um 400 sem síðan skiptust á milli listgreina eftir samningaviðræður hlutaðeigenda sem gengu ekki þrautalaust fyrir sig.

Og enn eru liðin tíu ár, BÍL er orðið nírætt, og hlýtur að vera mál til komið að knýja á um nýja fjölgun. Til að réttlæta hana ætti ekki að þurfa önnur rök en fjölgun þjóðarinnar og listamanna í hlutfalli við hana. En til viðbótar koma breytingar sem orðið hafa og eru stöðugt að verða á landslagi listanna og aðstöðu listamanna. Þar er  gerólíku saman að jafna nú eða fyrir aldarfjórðungi þegar lögin um starfslaun voru fyrst sett. Til dæmis að taka hafa heilu meginlöndin á borð við hljómplötur og diska svo að segja gufað upp, upplög bóka hafa minnkað um helming og menn sækja í auknum mæli á netið efni sem áður var höfundarvarið. En á sama tíma hefur þörfin fyrir hugverk aldrei verið brýnni og þáttur hins opinbera hlýtur þar af leiðandi að vaxa að sama skapi.

Góðir félagar, stofnun BÍL fór ekki hátt á sínum tíma, þótt leitað sé með logandi ljósi í blöðum frá því fyrir níutíu árum sér þess hvergi stað að samtök okkar hafi verið stofnuð, sennilega ekki þótt fréttnæmt. Og stjórnmálamenn hafa löngum verið uppteknari af BÍLL, þ.e. bandalagi látinna listamanna, bæði hafa meðlimirnir þá sannað sig og eru mun léttari á fóðrum en þeir sem enn draga andann. Engu að síður er það svo að þegar við horfum aftur um níutíu ár eru það einmitt listamennirnir sem stóðu að stofnun BÍL sem standa á sviðinu, ég nefni af handahófi: rithöfundana Gunnar Gunnarsson, Halldór Laxness, Kristínu Sigfúsdóttur, Þórberg Þórðarson og Davíð Stefánsson, myndlistarmennina Kjarval, Guðmund frá Miðdal, Kristínu Jónsdóttur, Ásgrím Jónsson, Júlíönu Sveinsdóttur, Einar Jónsson, Jón Stefánson, Gunnlaugana Blöndal og Scheving, tónskáldin Jón Leifs og Pál Ísólfsson …

Íslenska fullveldið var þá tíu ára og frumherjarnir voru þess fullvissir að án blómlegrar menningar væri það orðin tóm. Hugmyndasmiðurinn og arkitektinn að stofnun BÍL, Jón Leifs tónskáld, líkti því við landvarnir og sagði að ef stjórnvöld veittu þó ekki væri nema broti af því sem aðrar þjóðir kostuðu til landvarna væri björninn unninn. Og einn úr þeirra hópi, Halldór Laxness, komst svo að orði:

„… Gildi þjóðar fer eftir menníngu hennar. Þjóð sem ekki þykist hafa efni á því að eiga menníngu á eingan tilverurrétt. Ef vér íslendíngar þykjumst ekki hafa efni á því að eiga menn sem setja fram merkilegar hugsanir á merkilegan hátt, þá eigum vér að fara burt úr þessu landi og það strax á morgun. Vér eigum að fara til Mexíkó eða eitthvað þángað.

Ef vér viljum ekki nota aðstöðu vora hér til þess að skapa menníngu, þá er ekki til neins fyrir okkur að vera hér, því að vér höfum hér einga köllun nema menníngarlega. Það er miklu betra að lifa einsog skepnur í Mexíkó heldur en hér, ef vér höfum ekki annað á stefnuskránni en lifa einsog skepnur.“ [1]

Þetta var fyrir níutíu árum þegar íslenskt samfélag var sannarlega fátækt og smátt, í dag er það eitt það ríkasta í víðri veröld og hefur úr auðlindum að spila á borð við sjávarfang, vatn, orku og ferðamannastraum.

Að endingu þetta: heimurinn horfist nú í augu við takmörk sín, öll ytri umsvif eiga fyrir höndum að skreppa saman, sá lífs- og neyslumáti sem enn viðgengst á eftir að þykja fáránlegur, glæpsamlegur jafnvel. Að sama skapi mun hið innra vaxa, innlöndin, sköpunin, upplifunin, tjáningin – vistsporið á eftir að grynnka, listsporið að dýpka.

[1] Erindi um menningarmál sem HKL hélt í nýstofnaðri útvarpsstöð í Reykjavík 3. júlí 1926 og birtist í Alþýðublaðinu 21. ágúst 1926 og ritgerðarsafninu Af menníngarástandi 1987, bls. 110-116.