Search
Close this search box.

Bréfaskrif

RSI2015-Hofundurinn-pistlar

Margrét Bjarnadóttir og Haraldur Jónsson skrifast á:

Sautján ára vinátta

Reykjavík, 23.02. 2016

Elsku Halli,

ég var að átta mig á því að við höfum þekkst í 17 ár.  Ég var 17 ára þegar við kynntumst. Ég þarf ekki að orða hið augljósa en geri það samt: Ég hef lifað jafn lengi með þér og án þín. Þegar þú verður 74 ára munt þú fyrst hafa lifað jafn lengi með mér og án mín. Þetta snýst ekki um sanngirni heldur undirstrikar bara enn og aftur hversu dramatískt lífið er.

Talandi um dramatík. Ég á bara einn dag eftir í tökum á dramatíska þrillernum. Um daginn var ég að leika í senu þar sem karakterinn minn átti að segja: „Ég er búin að hringja á lögregluna!“ Ég er ekki að uppljóstra neinu með því að segja þetta. Þetta er glæpaþriller og þá má gefa sér að það sé stundum hringt á lögregluna. En allavega, ég áttaði mig á því að ég hef aldrei hringt á lögregluna. Ég vissi ekkert hvernig ég ætti að tilkynna þetta – með upphrópunarmerki og öllu. Hvernig líður manni eftir að hafa hringt á lögregluna? Tilefnið getur náttúrlega verið allt frá því að kvarta yfir partýglöðum nágrönnum yfir í að tilkynna hrottalegt morð. Ég má ekkert segja hvar á skalanum þetta símtal var en ég gat ekki leitað í eigin reynslu því ég hef einfaldlega aldrei hringt á lögregluna. Ég þurfti að ímynda mér –  setja mig í spor – eins og leikarar þurfa víst að gera.

En hugsaðu þér, margir fara í gegnum lífið án þess að hafa nokkurn tíma hringt á lögregluna.  Hefur þú hringt á lögregluna? Hvert var tilefnið? Þú verður að segja mér það.

Nei, ég segi svona. Ég var bara að prófa að skipa þér fyrir. En það væri gaman ef þú myndir deila því með mér.

Hvort fannst þér meiri pressa fylgja þegar ég sagði:

a) Þú verður að segja mér það.

eða

b) Það væri gaman ef þú myndir deila því með mér.

Halli, ég var líka að átta mig á því að við höfum þekkst í sautján ár en við höfum aldrei rifist. Þú móðgaðir mig reyndar einu sinni. Það varði hins vegar ekki lengi, bara í nokkrar sekúndur. Ég jafnaði mig fljótt og hef hlegið að því síðan. Móðgunar tilfinningin er í miklu uppáhaldi hjá mér því mér finnst hún svo fyndin. Hún er ekki tilgangslaus vegna þess að hún gefur einhverja vísbendingu um egóið og náttúrlega einhverja komplexa sem tengjast þá aftur egóinu. Í móðguninni skín maðurinn og tindrar af mennsku og hallæri. Hann er svo einn í móðguninni. Jafnvel þó að önnur manneskja hafi kveikt tilfinninguna þá situr maðurinn alveg aleinn og allsber uppi með hana. Eins og hann sé búinn að kúka á sig. Ég held að ekki sé til sú manneskja sem aldrei hefur móðgast – en ég held að til sé fólk sem móðgast oft á dag. En þá þarf nú kannski eitthvað aðeins að endurstilla. Nú er ég er að ímynda mér þig alveg eins og þú ert nema ef ég myndi gefa þér eiginleikann „móðgunargjarn“.

Maður verður móðgaður á svipinn þegar maður segir orðið „móðgun“.  En það er t.d. ekki hægt að verða móðgaður á svipinn þegar maður segir „gleði“.

Mér líður eins og einhver annar hafi skrifað tvær síðustu setningar, í gegnum mig.

Manstu hvenær þú móðgaðir mig? Hvar við vorum?

Jæja, Halli minn, ég kveð í bili og sendi mínar hlýjustu kveðjur til Berlínar. Vesturbærinn finnur að þú ert ekki hér. Hvenær kemurðu heim?

þín,

Magga

~

Berlín, 23.febrúar 2016

 

Elsku Magga,

Takk fyrir bréfið. Það gladdi og kom huganum heldur betur á hreyfingu. Þér líkt enda gleði hreyfing eins og þú veist svo vel, dansarinn sjálfur. Ið og æs. Vissirðu að þegar maður brosir myndar heilinn olíu sem mýkir hugsanirnar. Ég las bréfið upplýst í símanum meðan U8 neðanjarðarlestin flutti mig milli stöðva. Undir lestrinum maulaði ég á þurrkuðum engiferbitum sem ég fann í tyrkneskri búð hérna í Kreuzberg. Þeir rifu hressilega í bragðlaukana og gáfu aukatón í hvert orð. Bragð sem hafði afgerandi áhrif á lesturinn. Áhrifsbragð. Það ætti að vera meira úrval í sjoppunni í bíó til að velja hvernig stemningu maður vill fara í með myndinni.

Magnað að þú skulir minnast á lögregluna. Stórmerkilegt alveg. Þegar ég kom upp úr jörðinni var Rosenthaler torgið nefnilega þéttskipað lögreglumönnum og bláum og grænum lögreglubílum út um allt. Yfirþyrmandi. Og svartklæddum aktivistum. Ég kannaði málið og spurði einn þeirra hvað væri í gangi og þá kom í ljós að núna stendur yfir ráðstefna Frontex, evrópsku landamæralögreglunnar. Það er hiti í sumum og þráðurinn stuttur í mörgum.

Já ég hef nokkrum sinnum hringt í lögregluna. Ég gerði það þegar ég var andvaka.

Sautján ár já. Það er tími. Þú varst orðin nógu gömul til að taka bílpróf. Enda kynntumst við í bíl eða réttara sagt inni í amerískri skólarútu. Það var snjór yfir öllu og heilt árþúsund að enda. Við vorum líka að leika saman þá eins og þú ert að gera núna.

Hvenær tókstu aftur bílpróf? Var það strax og þú náðir aldrinum eða beiðstu með það?  Varstu kannski komin með það þarna í rútunni? Það hvarflaði alla vegana ekki að mér að þú værir með það á þessu augnabliki enda fátt jafn fjarlægt hvoru öðru og dansari og bíll.

Það snjóaði líka hérna í Berlín um daginn. Stemningin á götunum breyttist, það hægðist á öllu og létt lömun lá í loftinu þegar snjórinn byrjaði að bráðna á götunum. Ég hugsaði strax um efnahernað. Svona róttæk umhverfisáhrif. Hvernig fer snjór annars í þig? Verðurðu bjartsýn eða þung?

Umhverfisáhrif . Takk fyrir að minnast á móðgunina. Hún er einmitt þannig. Umverfisáhrif. Ég var búinn að gleyma þessu en man núna að hafa framkallað hana í þér um árið en engan veginn hvernig eða hvar það gerðist. Nema að við vorum ekki ein. Það voru nokkrar manneskjur í kringum okkur. En hvort sem það var inni eða undir beru lofti man ég ekki.

Móðgun er líka ofnæmi.  Að taka allt inn á sig án þess að hleypa því í gegn. Ég móðgaðist auðvitað þegar ég las að ég væri mógðunargjarn.  Tveir mínusar og kom þannig út í plús. Hvað er það annars, jákvæðar tilfinningar og neikvæðar? Að vera jákvæður eða neikvæður. Greindur. Já móðgun snýst um egó og líka rýmið í kringum það. Stolt og vald. Það er örugglega auðveldara að móðga í fámennu samfélagi en stærra. Hvað heldur þú? Hver er munurinn á móðgun og hneykslun?

Ég er einmitt að vinna að verkum núna sem tvinna meðal annars saman tilfinningum og arkitektúr. Það er frábært að vera hérna, gott að ná andanum í evrópska súrefninu. Færast þangað til að maður villist og nær sér.

Segjum það í bili Magga mín. Klukkan er að verða og gaman ef þú getur lesið þetta fyrir svefninn. Góða nótt og Gute Nacht.

 

Þinn Halli

~

Reykjavík, 26. febrúar, 2016

Elsku Halli,

takk kærlega fyrir bréfið sem kom á mjög viðeigandi tíma þó að ég ætti ekki von á svo skjótu svari frá þér. Samdægurs (fallegt orð). Ég var nýkomin inn úr dyrunum eftir að hafa gengið heim úr bíó. Ég fór að sjá Sans Soleil í Bíó Paradís og hugsaði óneitanlega til þín þar. Bréfið þitt var því fullkominn eftirréttur. Eða þá að Sans Soleil var fullkominn forréttur að bréfinu þínu.

Á leiðinni úr bíó, keypti ég mér lakkrísrör í sjoppu á Laugaveginum og gekk heim í svalri stillu.

Ég tek eftir því að þú segir hringja „í“ lögregluna en ég segi hringja „á“ lögregluna. Þegar ég var að skrifa þér pældi ég einmitt í því af hverju ég segði „á“ en ekki „í“. Mín heimatilbúna niðurstaða var sú að maður hringdi „á“ allt sem væri einhvers konar þjónusta eða maður hefði praktísk not fyrir eins og leigubíl, sendiferðabíl, sjúkrabíl og lögregluna. Aftur á móti hringir maður „í“ vini sína og fjölskyldu. „Á“ skapar fjarlægð. En þú hefur kannski einmitt hringt „í“ lögregluna – bara til að spjalla – af því að þú varst andvaka eins og þú sagðir?

Veistu hvað? Kom ekki á daginn að ég hef sannarlega hringt á lögregluna. Það var eins og heilinn og vitundin hefðu farið á fullt að fletta í gegnum gagnabankann sinn frá því að ég varpaði fram þessari yfirlýsingu um að ég hefði aldrei hringt á lögregluna – og drógu að lokum fram í dagsljósið minningu sem ég hafði hreinlega gleymt.

Ég hef verið um 21 árs, það var sumarnótt, myrkur, óstjórnleg stilla og ég var á gangi heim úr bænum. Ein á ferli. Á horni Túngötu og Hofsvallagötu mætti ég svörtum Labrador hundi sem byrjaði að elta mig niður Hofsvallagötuna. Ég reyndi margsinnis að senda hann til baka en hann staðnæmdist í mesta lagi, rétt á meðan ég sneri mér að honum en kom svo fast á hæla mér.  Hann elti mig niður Hofsvallagötuna, alveg niður að sjó og upp tröppurnar í Faxaskjólinu. Hann var ekki með ól svo að ég neyddist til að hringja á lögregluna þannig að hann kæmist í hendur eigenda sinna. Við sátum tvö á útidyratröppunum í blankalogni um miðja nótt – sjórinn spegilsléttur – og biðum eftir lögreglunni.  Þetta var óraunverulegt. Eins og við værum inni í risastóru kvikmyndaveri og sjórinn væri tjald. Þetta varð enn óraunverulegra þegar löggubíllinn kom og ég kvaddi hundinn. Eins og sena i bíómynd. Svo næst þegar ég hringi á lögregluna, 13 árum síðar,  er ég einmitt að leika í bíómynd. Þá hringdi ég í þykjustunni í lögregluna en það átti að líkjast raunveruleikanum. Þetta vekur sannarlega upp spurningar um raunveruleikann í fleirtölu.

Og heldurðu ekki að þetta gæti verið svolítið góð aðferð við að draga gleymdar minningar fram í dagsljósið? Yfirlýsingaaðferð. Þá slær maður einhverju svona fram eins og t.d. „Ég hef aldrei stolið! Aldrei!“ og bíður svo rólegur eftir því hvaða glötuðu minningar koma upp á yfirborðið daginn eftir. Hvað vitundin dregur upp úr óminnisdjúpinu. Ég ætla að prófa mig áfram með þetta.

Ég var ekki komin með bílpróf þarna þegar við hittumst í amerísku skólarútunni. Ég fékk ekki bílpróf fyrr en ég var 25 ára og eignaðist ekki bíl fyrr en í fyrra. Ég gekk allt og fyrir vikið geng ég mjög hratt. Ég kann í raun bara að ganga hratt. Ég nota göngu fyrst og fremst í praktískum tilgangi.

Ég man að ég fékk smá sjokk þegar ég sá þig fyrst keyra. Eins og þú værir að djóka. Ég var búin að þekkja þig í mörg ár en hafði einhvern veginn ákveðið að þú værir ekki með bílpróf. Þegar ég sá þig í fyrsta skipti við stýrið var það jafn raunverulegt fyrir mér og teiknimynd.

Þú talar um að gleði sé hreyfing. Því er ég sammála. Dansinn er svo nátengdur gleðinni. Enda held ég að það sé óvenju lágt hlutfall þunglyndis í dansarastétt. Það væri nú gaman ef þetta væri kannað en ég þekki mjög fáa þunglynda dansara. Ég man ekki eftir einum í augnablikinu. Þegar ég var að æfa dans sex daga vikunnar, í marga klukkutíma í senn, kom það samt óhjákvæmilega fyrir að stundum var ég leið eða döpur. Og það er sérstök tilfinning að dansa leiður. Það er sjaldgæft en dálítið fallegt.

Ég held að ég verði að láta staðar numið hér. Ég hef ekkert getað komið inn á suma hluti sem þú nefndir eins og muninn á hneykslun og móðgun og hvað neikvæðar og jákvæðar tilfinningar eru. Tæklum það við tækifæri.

Kærustu kveðjur úr sólríkri og snævi þakinni Reykjavík,

Magga

 

p.s. Ég fór í Vesturbæjarlaugina og sá Almar í hringlaga potti.

p.p.s. Bara svo að það sé alveg á hreinu þá sagði ég ekki að þú værir móðgunargjarn, heldur var ég að ímynda mér móðgunargjarnan Halla.

~

Berlín, 28.febrúar 2016

 

Elsku Magga,

Takk fyrir bréfið. Það vermdi. Eins og þú ert kannski búin að taka eftir þá setti ég stað og dagsetningu upp í hægra hornið til að gæta samræmis hjá okkur. Það er skemmtilegra. Bæti þeim líka við fyrsta bréfið áður en þetta verður allt saman gert opinbert á heimasíðu Rithöfundasambandsins. Þú veist vonandi allt um það. Þegar þetta birtist dúkkar kannski eitthvað enn fleira upp úr hugardjúpunum. Í sambandi við lögregluna, þjófnað og alls konar. Við sjáum til. Þetta er tilraun.

Það er mjög áhrifaríkt að fylgjast með augnhreyfingum til að komast að því hvort maður sé að segja satt. Lygin lætur þau titra. Til að kynnast sjálfri þér aðeins betur getur þú horft í spegil og fullyrt eitthvað inn í hann. Það er líka gott að taka röddina sína upp og hlusta síðan á hana. Þá heyrirðu sannleikann eða það sem býr að baki honum.

Já þeir eru margir raunveruleikarnir. Ég hlakka alltaf rosalega til að fara í morgungönguna á hverjum degi og sjá hvað bíður mín þarna úti. Mannlífið hérna í Kreuzberg er svo litríkt. Kryddað og fíngert. Svipbrigði andlitanna eru ákveðnari og margræðari en maður á að venjast og hreyfingar líkamanna bæði einbeittar og dularfullar. Fjölmenningin í allri sinni dýrð. Ég sé þig alveg fyrir mér á hraðri göngu milli staða án þess að líta nokkurn tímann um öxl. Þú mundir kannski ekki skera þig úr hópnum nema vegna óvænts hraðans. Einhverjir myndu örugglega snúa sér við í augnablik. Að hraða sér.

Það kemur mér alls ekki á óvart að þú hafir fengið létt áfall þegar þú sást mig undir stýri. Enda hef ég aldrei séð neina ástæðu til að auglýsa að ég er með bílpróf og hef verið síðan ég náði sautján ára aldri. Það sést nú reyndar sjaldnast á fólki hvort það sé með ökuréttindi. Eða hvort það sé jafnvel búið að missa þau. Ég nota bílinn minn aðeins í ýtrustu neyð og fer flestra minna ferða fótgangandi. Það er mjög góður ferðamáti en ég viðurkenni alveg að það er frekar óþægilegt að finna hvernig þeir sem eru á bíl horfa á allt kvikt fyrir utan eins og þeir væru í safari ferðalagi í annarri heimsálfu að skoða sjaldgæfar dýrategundir. Það er bara starað út í eitt. Eina leiðin er að horfa til baka. Þá hættir þessi óværa um stundarsakir. Það er langbest að vera á ferðinni í ljósaskiptunum. Þá fær maður frið. Hérna í Berlín er þetta ekkert mál. Enda fæstir á bíl. Hjóla bara og ganga. Það kemur heldur aldrei fyrir að einhver rekist utan í mann nema kannski einstaka ógæfumanneskja.

Heyrðu þegar ég las að þú heillast af orðinu samdægurs hugsaði ég strax um brjóstvasa. Kannski út af misdægurt. En brjósvasi er orð sem leynir heldur betur á sér. Hvernig það þræðir sig í ótal áttir, til dæmis frá fatahönnuðinum og klæðskeranum og alveg inn til skurðlæknisins. Ég er líka með alls konar dót í mínum brjóstvasa sem gaman væri að deila með þér við tækifæri. En er það ekki einmitt það sem ég er að gera núna? Taktu samt öll þessi spurningarmerki í síðasta bréfi með hæfilegum fyrirvara. Ég hélt að þau væru nauðsynleg til að halda samræðunni gangandi. Núna finnst mér þau ekki skipta neinu máli.

Ég fór á flotta sýningu áðan. Listamaðurinn notaði manifestó ýmissra listhreyfinga sem hann var búinn að klippa saman og sviðsetti í mismunandi kringumstæðum. Þeim var varpað á þrettán stóra skerma í myrkvuðum sal. Hann fékk Cate Blanchett til að leika í öllum senunum og fór hún alveg á kostum. Ég var ekki búinn að fatta að hún er auðvitað frá Ástralíu eins og þinn. Danska Dogma 95 var lagt í munn myndmenntakennara í grunnskóla sem hafði það fyrir tíu ára nemendum sínum og súrrealistamanifestóið var til dæmis borðbæn hjá fjögurra manna fjölskyldu. Gaman að þessu. Ég gekk mjög vel nærður út í næsta sporvagn sem renndi sér eftir upphækkuðum teinum alla leiðina heim. Það var mjög gott útsýni yfir borgina eða alveg þangað til dimman og sunnudagsmyrkrið duttu á.

Hér set ég punktinn enda komið yfir miðnætti. Ég heyri hreinlega íslenska þjóðsönginn yfir Atlantshafið þegar ég skrifa þetta, hvernig hann berst alltaf út úr viðækjunum á þessum tíma. Ertu að hlusta?

Góða nótt Magga mín og dreymi þig eitthvað einmalig eins og þeir segja hérna.

 

Þinn Halli

 

Ps. Ég sat einu sinni í heita pottinum í Vesturbæjarlauginni þegar einhver byrjaði að tala með röddu sem ég kannaðist við úr eilífðinni. Enda kom á daginn að hún var sú sama og las yfir náttúrlífsþættina þegar ég var unglingur. Þegar það rann upp fyrir mér breyttist heiti potturinn samstundis í fljótandi sjónvarpsskerm.

Pps. Takk fyrir að láta mig vita. Þú veist hvað ég get stundum tekið hlutina bókstaflega, sérstaklega þegar þeir standa þarna svart á hvítu.

Ppps. Ég kíkti á fyrsta bréfið mitt til þín rétt í þessu og sé að ég var búinn að setja stað og dagsetningu upp í hægra hornið. Þú hefur hins vegar látið það vera af einhverjum ástæðum.

~

Reykjavík, 1. mars, 2016

Elsku Halli,

ég var drukkin í leigubíl þegar ég las bréfið frá þér. Þegar ég vaknaði í morgun var ég ekki viss hvort mig hefði dreymt bréfið og þurfti að kíkja í pósthólfið mitt. Ég las það aftur og hló eins og ég væri að lesa það í fyrsta skipti. Ég var drukkin af því að ég var að koma úr partýi til að fagna tökulokum á bíómyndinni. Í gærdag sagði ég að ég þyrfti eitt gott fyllerí til þess að losa mig úr karakternum sem ég lék í myndinni. Ég sagði þetta meira í gríni en maður þarf að gæta þess hvað maður segir. Undirmeðvitundin greinir ekki á milli gríns og alvöru. Áður en ég vissi af hafði ég tekið sjálfa mig á orðinu og drukkið mig úr karakternum. Fólk er náttúrlega alltaf að drekka sig í og úr karakter.

Hér þurfti ég að stöðva bréfaskriftir vegna þess að mér var farið að líða svo illa. Þynnkan kom aftan að mér á heilnæmum veitingastað í borginni þar sem ég hafði sest með tölvuna mína til að skrifa þér. Ég keyrði heim og á Miklubrautinni var ég alveg við það að kasta upp. Ég gat hvergi stöðvað bílinn og velti fyrir mér hvort betra væri að ég kastaði upp í kjöltu mína og þá á kápuna eða að ég reyndi að taka trefilinn af mér og léti hann taka við mestu. En uppköst eru átak fyrir líkamann og ég myndi líklega missa stjórn á bílnum á meðan – umferðin á Miklubrautinni klukkan fimm á mánudegi bauð ekki upp á það. Ég átti eitthvað eftir af ábyrgðartilfinningu þannig að ég beygði inn Rauðarárstíginn sem ég hef aldrei gert áður – ekki frá Miklubraut – og lagði bílnum í fyrsta lausa stæðið. Ég sá fyrir mér að kasta upp í runna á Klambratúni. Ég flýtti mér hægt yfir götuna og þurfti að bíða eftir því að kona gengi fram hjá. Þegar ég kom að runnanum skyrpti ég – en það kom ekkert meira. Auðvitað væri þetta skemmtilegri saga ef ég hefði kastað upp en það var eins og súrefnið hefði gert gæfumuninn og það nægði bara að skyrpa nokkrum sinnum. Ég stóð þarna dálitla stund og tvísteig aðeins um Klambratúnið þangað til mér leið örlítið betur. Það var allavega augljóst að ég var komin úr karakternum.

Það er nýr dagur og ég veit ekki hvað. Ég er komin á annan heilnæman veitingastað í miðborginni. Á næsta borði við mig sitja tveir karlmenn á aldur við þig. Þeir eru á einhvers konar trúnói. Það er gaman og fallegt að heyra þá tala um tilfinningar og hjartans mál. Samtalið ber þess svolítið merki að þeir séu ekki þaulvanir að ræða tilfinningamál en hafi tekið upp á því nú í seinni tíð. Þeir rönkuðu kannski við sér fyrir nokkrum árum og áttuðu sig á því að þeir væru búnir að vera tilfinningalega lokaðir lengi og vildu bæta úr því. Tilfinningaleg stöðnun. Ég er samt að reyna að hlusta ekki of mikið vegna þess að ég þarf líka að einbeita mér að því að skrifa þér. En ég gríp einstaka setningar. Nú rétt í þessu fór annar á klósettið og þá spurði hinn hvort ég talaði íslensku. Ég játti því. Það kom smá hik á hann og hann sagðist hafa haldið að ég væri útlensk. Svo sagði hann eitthvað sem ég náði ekki vegna þess að á sama tíma flækti hann fótinn í stól og hrasaði. Hann datt ekki kylliflatur en hann hrasaði og dró stólinn með sér og því fylgdu töluverð læti.

Gott að þú minnist á þetta með spurningarnar – að ég þurfi ekki að svara þeim öllum. Ég get verið svo bókstafleg. Og já, einmitt, ég veit að þetta mun birtast á vef Rithöfundasambandsins en ég er að reyna að hugsa sem minnst um það.

Mómentið þegar þú móðgaðir mig var ekki þetta sem þú talar um – sem ég veit reyndar ekkert hvað er. Ég móðgaðist á heimili mínu, einu sinni þegar þú komst í kaffi. Við vorum bara tvö – engin vitni – sem gerir svona upplifun eiginlega áhrifameiri. En hættum bara að tala um þetta. Ég er löngu búin að jafna mig eins og þú heyrir.

Talandi um heyrn og raddir. Sumar raddir fara inn um annað og út um hitt en þín rödd dvelur lengur og gæti t.d. verið í útvarpi. Getur verið að það megi lýsa þinni sem málmkenndri? Ég hef aldrei alveg skilið þetta orð þannig að ég er svolítið að slengja þessu fram. En röddin þín framkallar þetta orð í huga mér. Ef ég hef misskilið orðið og það lýsir óhugnanlegri, ljótri rödd, þá dreg ég þetta til baka. Annars ert þú líklega síðasta manneskjan sem ég ætti að vera að spyrja einmitt þessarar spurningar. Maður veit náttúrlega ekkert hvernig maður hljómar. Raddir búa yfir töluverðum upplýsingum sem gaman er að lesa í. Stundum finnst mér rödd ekki passa viðkomandi manneskju. Endurskoðandinn minn er t.d. með rödd sem ég myndi í fljótu bragði lýsa sem listrænni. Hún er listamannsleg. Annað hvort er hann ekki á réttri hillu eða þá að hann er með ranga rödd. Þegar ég sit á skrifstofunni hans fer alltaf svo mikil orka í þennan samslátt að ég næ ekki að einbeita mér að orðunum sem röddin býr til. Núorðið reyni ég meira að hafa samskipti við hann í gegnum tölvupóst, frekar en að hringja eða droppa við.

„Það er það sem gerist. Ég vakna bara eins og ég sé að kafna.“

Nú virðist trúnóið búið og þeir eru byrjaðir að tala um einhvers konar svefngóm til að meðhöndla kæfisvefn.

Þetta eru líklegast lokanóturnar. Það gleður mig að sjá þig fyrir mér þarna í Berlín … svona hlakkandi alltaf rosalega til að fara í morgungönguna á hverjum degi og sjá hvað bíður þín þarna úti.

 

Myrkur en stjörnur,

góða nótt,

þín Magga

~

Berlín, 5.mars 2016

 

Elsku Magga!

 

Takk fyrir bréfið. Ég varð að setja upphrópunarmerki til að gefa tóninn enda kipptist ég við af kátínu við lesturinn, svipað og kínverskur munkur. Kátína skemmtilegt orð. Eimuð gleði. Það var einstaklega mikill dans í orðunum þínum eða kannski frekar milli þeirra. Þú í bílnum, á túninu milli runnana og maðurinn milli stólfótanna á kaffihúsinu til dæmis. Ég brosti og hló út í eitt. Ég hló í einrúmi. Það er alltaf dáldið magnað. Alveg eins og að verða vitni að því þegar manneskja hlær upp úr eins manns hljóði þegar hún er að lesa bók eða sms.

Nú man ég ekki hvort þú talar frönsku en mér finnst alltaf jafn skemmtilegt að hugsa um orðin sourire og rire. Það fyrra þýðir að brosa og það seinna að hlægja. En bókstaflega þýðir sourire undirhlátur, jafnvel að hlægja inn í sig (eins og ég gerði við lestur síðasta bréfs). Undirhlátur og hlátur. Við getum notað tækifærið og virt fyrir okkur Mónu Lísu í huganum. Hún er einmitt að brosa. Eða næstum því. Þar liggur spennan. Munnurinn er alveg á mörkunum. Við bíðum eftir að sjá muninn á munninum. Þetta er hin eiginlega munúð. Það er þensla í munnvikunum en ennþá er ekkert búið að gerast. Brosið er yfirvofandi. Allur heimurinn (sem horfir eða sér myndina fyrir sér) stendur á öndinni og bíður. Þetta er algjör andstæða við Ópið hans Munch. Það er hin hliðin. Þögn og hávaði eða kannski frekar hljóð og hljóð.

Að drekka úr sér karakterinn. Einmitt. Í kalda stríðinu notuðu leikarar alltaf mánudaga til að ná sér niður og koma sér upp aftur með því að fá sér sopa niðri í leikhúskjallaranum. Í minningunni er þetta ekki ósvipað sjónvarpslausum fimmtudögum. Kaffi hefur stundum sömu áhrif á mig. Ég fer í og úr karakter eftir bollum. Nákvæmlega núna er ég hins vegar að drekka Darjeeling te sem ég verslaði eingöngu til að skrifa þér. Ég fann það í svona bíóbúð og þetta er svokallað first flush. Blöðin voru tínd að vorlagi. Um leið og maðurinn afgreiddi mig spurði ég hvort að þetta væri ekki alveg örugglega örvandi vegna þess að maður má ekki vera of rólegur. Ég trúði honum fyrir þessu og var að hugsa um bréfaskriftir okkar sem hann hafði ekki hugmynd um en hann var samt sammála mér. Þetta er frábært te.

Manneskja sýnir sitt rétta andlit undir mismunandi kringumstæðum. Þegar hún hlær og líka þegar hún hleypur. Það klikkar ekki. Og þá erum við ekki að tala um meðvitaða skokkara í merkjavöru sem þræða götur hverfisins okkar í hópum. Nema kannski þegar þeir eru einir á ferð. Þá glittir stundum í eitthvað. Þegar viðkomandi nær ekki að fela sig með því að klæða sig í hreyfingar annarra.

Mínir nánustu koma mér stöðugt á óvart þá sjaldan þeir taka til fótanna.

Í gær fór ég í leikhúsið með vinum sem dvelja líka hérna í borginni. Það eru einmitt tvö upphrópunarmerki með gotnesku letri framan á byggingunni, bæði til hægri og vinstri. Þetta er hressandi sýning um skemmtigarðinn heiminn þar sem sumir eru með árskort. Mikið er líka gaman að sjá sýningu þar sem maður kannast ekki við leikarana eins og gerist svo oft heima. Þegar leikarar byrja að leika sjálfa sig.

Ég veit ekki af hverju ég er að segja þér þetta en seint á síðustu öld varð ég fyrir svipaðri reynslu. Félagar mínir drógu mig inn á fatafellubúllu eina kviknakta sumarnótt. Einn okkar var í djúpri ástarsorg og var búinn að vera þarna niðri nokkuð lengi. Þetta var algjörlega hans hugmynd sem það eina í stöðunni, hans neyðarlína og útgönguleið. Við ákváðum að fylgja honum inn á staðinn, sem var í brekku í miðbænum.

Þetta var merkileg lífsreynsla. Allt byrjaði í myrkri. Síðan heyrðist tónlist og stúlka birtist undir ljóskastara. Hún hreyfði sig rólega eða þannig að maður tók ekki eftir því þegar hún var allt í einu komin úr hverri spjör. Það ótrúlega var að hún var samt ennþá fullklædd. Hún var klædd í nekt. Ég hafði aldrei orðið vitni að öðru eins. Þetta var algjör opinberun.

Við töluðum einhvern tímann um hvað skurnin er þunn á siðmenningunni. Það þarf lítið til að hún brotni og allt fari í háaloft. Mér var hugsað til þessara samræðna á flóamarkaði hérna um daginn. Þarna er ekkert matarkyns til sölu en alls konar hlutir, meðal annars varningur úr Þriðja ríkinu. Hann er auðvitað stranglega bannaður en til að fara kringum lögin líma sölumennirnir rauðan punkt yfir hakakrossa á nælum, orðum og bréfsefni. Hann er enn þynnri en skurnin sem við ræddum. Annað sem er líka merkilegt er að Dresden, sem er ekkert mjög langt í burtu, hún er einna frægust fyrir að þar var fundin rétta efnablandan fyrir postulín. Í þeirri borg eru öfgakenndar þjóðernishugmyndir mjög háværar, brestirnir heyrast alla leiðina hingað og sprungurnar eru byrjaðar að þræða sig í ýmsar áttir.

Hún er falleg hljóðmyndin af rödd endurskoðandans. Ég heyri hana alveg fyrir mér. Maðurinn sem býr á hæðinni fyrir neðan mig hérna virðist vera á svipuðu róli. Ég heyri það á því hvernig hann heilsar konunni sinni þegar hann kemur heim á kvöldin.

Eigin rödd segirðu. Þessa dagana er ég að setja saman myndbandsverk þar sem hún kemur einmitt við sögu. Það er undarlegt. Ég er ekki frá því að það sé málmur í henni. Meðan þín er frekar viður.

Í almenningsgarðinum fyrir framan íbúðina mína hérna er maður sem spilar frisbí allan daginn. Hann er víst búinn að gera það í mörg ár. Undir og út frá honum hefur myndast dökkur stór moldarblettur eða sár í grasflötinn Frisbíið er appelsínugult og hann spilar við alla sem hafa áhuga. Hann minnir mig alltaf á Sýsífos, náungann sem er stöðugt að velta steini upp fjallið þangað til hann rúllar aftur niður svo hann geti endurtekið leikinn. Núna glittir í hann gegnum trén.

 

Það er allt að byrja. Njóttu dagsins!

 

Þinn Halli

 

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email