Search
Close this search box.

Bjarni Jónsson hlýtur Ísnálina 2022

Ísnálin 2022 var afhent í þann 13. júní. Í ár hlaut Bjarni Jónsson Ísnálina fyrir þýðingu sína Kalmann eftir Joachim B. Schmidt. Mál og menning gefur út.

Umsögn dómnefndar er erftirfarandi:

Það var einróma álit dómnefndar að þýðing Bjarna Jónssonar á Kalmann e. Joachim B. Schmidt skuli hljóta Ísnálina í ár.
Kalmann segir frá ungum manni með óræða fötlun í litlu sjávarþorpi, afastrák, hákarlaveiðimanni, refaskyttu og sjálfskipuðum lögreglustjóra á staðnum. Kalmann segir okkur sögu sína sjálfur og lesandinn áttar sig fljótlega á því að hann sé ekki áreiðanlegur sögumaður, því skynjun hans á umheiminum er nokkuð frábrugðin því sem telst almennt. Í upphafi sögu finnur hann blóðpoll, ummerki um árás, slys eða morð, og í kjölfarið fylgir mikið umstang, þegar bærinn fyllist af lögreglu og fjölmiðlafólki. Á sama tíma hverfur athafnamaður í bænum sporlaust. Hvað gerðist eiginlega? Tengjast þessir atburðir á einhvern hátt?
Þýðing Bjarna Jónssonar er fumlaus og flæðir án hindrana, textinn verður jafnvel ljóðrænn á köflum. Frágangur er allur til fyrirmyndar og það er gleðiefni að sjá nafn þýðanda strax á saurblaðinu. Hversdagslegt og einfalt tungutak sögumanns heldur lesanda frá fyrstu síðu, til síðasta bókstafs og gerir viðkomandi kleift að samsama sig upplifun sögumanns, nánast eins og við séum inni í höfðinu á honum; það er eitt að skrifa slíka bók en annað að halda því samhengi í þýðingu. Bjarni er því vel að Ísnálinni kominn.

Aðrir tilnefndir þýðendur voru:

Árni Óskarsson, fyrir þýðingu sína Örvænting, útgefandi: Bókaútgáfa Sæmundar.
Ingunn Snædal, fyrir þýðingu sína Þögla ekkjan, útgefandi: Bjartur.
Ísak Harðarson, fyrir þýðingu sína Spegilmennið, útgefandi: JPV.
Jón Hallur Stefánsson, fyrir þýðingu sína Dauðahliðið, útgefandi: JPV.

Ísnálin 2022 er veitt fyrir best þýddu glæpasöguna á árinu 2021. Að henni standa Bandalag þýðenda og túlka, Hið íslenska glæpafélag og Þýðingasetur Háskóla Íslands.

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email