Search
Close this search box.

BARNABÓKAVERÐLAUN REYKJAVÍKURBORGAR 2022

Linda Ólafsdóttir, Sverrir Norland og Kristín Helga Gunnarsdóttir hljóta Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar 2022 fyrir bækurnar Reykjavík barnannaEldhugar: Konurnar sem gerðu aðeins það sem þær vildu; og Ótemjur.

Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar voru veitt í Höfða í dag á síðasta vetrardegi, miðvikudaginn 20. apríl. Borgarstjórinn í Reykjavík, Dagur B. Eggertsson, afhenti verðlaunin við hátíðlega athöfn og Chadman Naimi, 12 ára nemandi við Tónskóla Sigursveins, flutti einleiksverk á píanó.

Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar eru veitt í þremur flokkum bóka fyrir börn og ungmenni, flokki bóka frumsaminna á íslensku, flokki myndlýsinga og flokki þýðinga. Þetta eru elstu barnabókverðlaun landsins en þau voru fyrst veitt sem Barnabókaverðlaun fræðsluráðs Reykjavíkur árið 1973. Árið 2016 voru Dimmalimm verðlaunin og Barnabókaverðlaun Reykjavíkur sameinuð og urðu flokkarnir þá þessir þrír. Verðlaunaféð er 350.000 kr. í hverjum flokki.

FJÖLBREYTT BARNABÓKAFLÓRA

Í ár fékk dómnefndin yfir 100 bækur til skoðunar. Fimm bækur voru tilnefndar í hverjum flokkanna þriggja og nú er ljóst hvaða þrjár bækur hljóta verðlaunin í ár. Dómnefnd verðlaunanna skipuðu þau Tinna Ásgeirsdóttir, sem var formaður, Ásmundur Kristberg Örnólfsson, Guðrún Lára Pétursdóttir, Karl Jóhann Jónsson og Valgerður Sigurðardóttir.

Linda Ólafsdóttir hlýtur Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar í flokki myndlýsinga fyrir bókina Reykjavík barnanna. Iðunn gefur út.

Sverrir Norland hlýtur Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar í flokki þýðinga fyrir þýðingu sína á bókinni Eldhugar: Konurnar sem gerðu aðeins það sem þær vildu eftir Pénélope Bagieu. AM forlag gefur út.

Kristín Helga Gunnarsdóttir hlýtur Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar í flokki frumsaminna bóka fyrir bókina Ótemjur. Bjartur gefur út.

Rithöfundasamband Íslands óskar höfundunum innilega til hamingju með verðlaunin!

Rökstuðning dómnefndar má lesa hér.