Search
Close this search box.

Ársskýrsla formanns á aðalfundi 27. apríl.

Kæru félagar,

Það er skarð fyrir skildi, því átta félagsmenn létust á liðnu starfsári. Það voru þau: Sigríður Eyþórsdóttir, Ólöf Eldjárn, Ingibjörg Haraldsdóttir, Stefán Sigurkarlsson, Vigfús Geirdal, Þorvarður Helgason, Þórhallur Þórhallsson og Sigurður A. Magnússon

Við minnumst þessa góða fólks með þögn.

Í þessum hópi eru tveir fyrrum formenn og heiðursfélagar, þau Sigurður og Ingibjörg, sem lögðu línur og komu að mótun þess kjaraumhverfis sem við upplifum í dag. Réttindabarátta ritlistamanna er ýmist varnar- eða sóknarbarátta. Það er svo okkar, sem stöndum í brúnni hverju sinni, að meta hvenær skal sækja og hvenær skal verjast – allt eftir því við hverja á að etja og hvers eðlis hagsmunir eru. Sjaldan er það því miður þannig að allir geri sér grein fyrir gildi og vægi ritverka í siðmenningunni og í raun þykir mér alltaf jafn merkilegt að það þurfi að heyja baráttu fyrir sterkri umgjörð um ritlistina, berjast fyrir þessum grunntóni mannlegrar tilvistar. Svo einkennilegt að samfélagar okkar geri sér ekki alltaf og allir grein fyrir mennskunni og félagslæsinu sem felst í ritverkunum.

Á liðnu ári héldum við aðalfund að vori og svo framhaldsaðalfund í haust þar sem ljúka þurfti stjórnarkjöri frá vorfundi. Starfssemi RSÍ er nokkuð umfangsmikil og í mörg horn að líta. Ragnheiður er hér framkvæmdastjóri í fullu starfi, yfir og allt um kring,  og Tinna kom til liðs við okkur í fyrra sem verkefnisstjóri í hálfu starfi. Nýverið staðfesti stjórn fastráðningu hennar, enda er hún mikill happafengur.  Sjálf er ég oftast á þeytingi og dagarnir stundum langir, en sjaldnast leiðinlegir. Hér er atast í mörgu og má skipta starfsseminni í samninga, sjóðamál, samstarf við stjórnvöld og stofnanir, erlent samstarf og fræðslu-  og félagsstörf, svo sem rekstur orlofshúsa og skáldaskjóla.

Samningar

Á liðnu starfsári hafa einhverjir samningar þokast og aðrir beðið. Samningar við RÚV hafa nú staðið í nokkra mánuði og var löngu orðið tímabært að ganga í þau mál. Þar er samið um frumsamið efni í sjónvarpi og útvarpi og einn ásteytingarsteinninn er pod-cast, sem er aðgengi að efni á rafrænum miðlum. Norðmenn hafa nýverið lent slíkum samningi sem hugsanlegt er að verði hafður til hliðsjónar í þessu samningastarfi. Hvað varðar gullkistuna og endurbirtingar á gömlu efni þá er til skoðunar að aðildarfélög IHM – Innheimtumiðstöðvar gjalda – standi  saman að slíkum samningi við RÚV undir merkjum IHM. Formaður samninganefndar okkar við RÚV er Sigríður Rut Júlíusdóttir, lögmaður RSÍ. Hún hefur sér við hlið Sindra Freyson og Ottó Geir Borg. Það hefur verið afar dýrmætt að hafa Sigríði í þessu hlutverki þar sem þau mæta lögmannateymi Ríkisútvarpsins.

Þá er komin hreyfing á samninga við menntamálaráðuneyti vegna Hljóðbókasafnsins, en þar hefur RSÍ lagt áherslu á að segja ekki upp núgildandi samningi heldur ganga til viðræðna um breytingar á honum, enda starfssemi Hljóðbókasafns bundin í höfundalög. Í næstu viku hefjum við svo viðræður við Menntamálastofnun um endurbirtingu í kennslubókum en þar er brýnt að koma á samningum sem taka mið af efni á rafrænum miðlum. Samtal við útgefendur hefur legið niðri um hríð. Við höfum ekki tekið þá afstöðu að segja upp samningum við þá, en höfum upplýst FÍBÚT um þær breytingar sem við teljum brýnt að gera á núgildandi samningum – um þýðingar og frumsamið efni.

Sjóðir

Sjóðamál eru í föstum farvegi. Fyrst ber að telja að Rithöfundasambandið hýsir Bókasafnssjóð og sér um að úthluta úr honum, jafnt til félagsmanna sem þeirra sem standa utan félagsins. Þetta er fyrirkomulag sem hefur verið við lýði um langa hríð og gefist ágætlega.  RSÍ á aðild að og er stofnfélagi FJÖLÍS, en það eru réttinda- og innheimtusamtök félaga sem eiga hagsmuna að gæta vegna fjölföldunar á höfundarréttarvörðu efni. Úr þessum sjóði kemur það fjármagn sem fer í Höfundasjóð RSÍ, en úr honum er árlega úthlutað ferðastyrkjum og nú í vor einnig starfsstyrkjum í fyrsta sinn. Auk þess er veitt úr honum til íslensku þýðingaverðlaunanna. Þá tókum við þá ákvörðun að veita úr Höfundasjóði verðlaunafé vegna ljóðabókaverðlaunanna Maísstjörnunnar, og miðast sú upphæð nú við starfsstyrk úr höfundasjóði RSÍ. Þá er það IHM sjóðurinn, en hann er sameignarsjóður þeirra félaga sem gæta réttinda einstaklinga sem eiga höfundarrétt af löglega afrituðu efni á rafrænu formi. Þessi sjóður var nánast horfinn, en fyrir öfluga réttindabaráttu IHM fékkst frumvarp um breytingu á höfundalög samþykkt í vetur. Samkvæmt því á þessi sameignarsjóður að vera orðinn um 250 milljónir í dag. Ný ríkisstjórn tók svo við og henni fylgdi ný túlkun á greiðsluákvæði í höfundalögunum. Þannig er enn ekki ljóst hvernig fjármálaráðuneytið hyggst standa við þessa skuldbindingu, en nú standa yfir viðræður um túlkunina og því hefur enn engin greiðsla borist.  Þá eru nú upptaldir þeir sameignasjóðir sem RSÍ sér um að veita úr.

Þó er vert að minnast á annan sjóð, sem sambandið fylgist aðeins með úr fjarlægð, en það er launasjóður rithöfunda. u hefjum við svo viðræður við Menntastofnun um breytinga rtingar . Það er svo forritað. Slðskilnaður, unninn nninguna, eins fl þSú vinna sem við fórum í með samstarfi við BÍL í fyrra, til að lengja enn meir arminn frá RSÍ að launasjóði, hefur skilað sér í faglegra verkferli gagnvart sjóðnum. Ávallt sýnist sitt hverjum hvað varðar úthlutanir, en nú er svo búið um hnúta að formaður og stjórn hafa aldrei vitneskju um hverjir veljast til þessara starfa. Við höfum þó gert athugasemdir við nýjar kröfur frá stjórn listamannalauna um að umsækjendur fallist á að merkja verk sín með stimpli sjóðsins. Það teljum við mjög vafasaman verknað og ábendingar okkar hafa komist á rétta staði. Þá er rétt að árétta hér að barátta RSÍ fyrir starfslaunum til handa ritlistamönnum hefur ávallt snúist um að koma hér á stöðugu kerfi sem byggi upp stétt atvinnuhöfunda. Þannig hafa allir sem leitt hafa þessa baráttu lagt ofuráherslu á að hér sé ekki um staka og verkefnatengda styrki að ræða, heldur starfslaun sem skapa samfellu í ævistarfi listamanns. Þetta er enda bundið í lög og afar brýnt að svo verði áfram til að tryggja að hér þróist blómlegt ritlistalíf þar sem fólk vex með ævistarfi sínu.  Um leið leggjum við ofuráherslu á að þessi sjóður stækki og að mánaðarlaun hækki. Og þá er ég nú komin að næsta lið, sem er samstarfið við ráðuneyti og stofnanir.

                            Stjórnvöld og stofnanir

Við leggjum höfuðáherslu á að stjórn RSÍ fundi þétt og reglulega með menntamálaráðherra um málefni ritlistar, bókmennta og tungumáls. Þar eru höfundar lykilmanneskjur í grunnstarfi, hvort heldur um ræðir menntakerfið eða útgáfu ritverka á fjölbreyttum vettvangi. Við höfum fundað tvisvar á ári með okkar fagráðherra, fundir hafa verið skilvirkir og málefnalegir og við höfum alltaf mætt með skriflegt erindi og skýra málefnaskrá. Þannig áttum við fund um miðjan mars með nýjum menntamálaráðherra, Kristjáni Þór Júlíussyni. Erindi okkar við ráðherra var fjórþætt. Við gerðum honum grein fyrir að erfiðlega hefði gengið að koma Bókasafnssjóði höfunda í þá stærð sem lagt var upp með árið 1998 þegar sjóðurinn var stofnaður. Þá var talað um að koma sjóðnum sem fyrst í 300 milljónir króna, en með þjarki hefur tekist að toga hann á löngum tíma í 70 milljónir. Hér er ekki um styrki að ræða heldur greiðslur fyrir aðgengi almennings að öllum bókverkum í landinu. Í dag eru greiddar 60 krónur á útlán á hverju frumsömdu verki og 40 krónur fyrir þýdd verk. Upphæðirnar eru einhliða ákvörðun stjórnvalda. Og þá minntum við á mikilvægi þess að koma sjóðnum í stöðugra starfsumhverfi svo stærð hans sé ekki háð geðþóttaákvörðunum stjórnmálamanna hverju sinni.

Þá ræddum við almennings- og skólabókasöfn við ráðherra og mikilvægi þess að styrkja innkaup allra bókasafna í landinu og að ríkisvaldið komi þar að. Víða eru sameinuð skóla- og héraðsbókasöfn. Innkaup á nýju efni eru sáralítil fyrir skólana og því takmarkaður aðgangur barna og ungmenna að nýju efni. Metnaðarfullir stjórnendur skólasafna hafa gripið til þess ráðs að betla gamlar bækur af foreldrum til að fylla hillur. Hér þurfa menntamálayfirvöld að koma að með öflugum hætti. Lestur er vart hægt að efla nema með stórauknu aðgengi að lesefni. Leikskólar kaupa til dæmis engar bækur og þar er engin innkaupaskylda eða fjárstuðningur. Þá ræddum við stöðu launasjóðs rithöfunda, en sjóðurinn hefur lengi staðið í stað og á meðan bætast við höfundar, ungir og öflugir, sem eiga erfitt með að komast á starfslaun. Sú staða hægir á endurnýjun og dregur úr nýsköpun. Við ítrekuðum við ráðherra að fjölga þyrfti starfslaunum, auk þess að hækka mánaðarlaunin og finna þeim fast og viðunandi viðmið.  Að lokum bentum við Kristjáni Þór á að hans stóra verk ætti að vera að beita sér fyrir afnámi virðisaukaskatts. Bókaútgáfan berst í bökkum og tölur um sölusamdrátt í síðasta ári eru sláandi. Því skýtur skökku við að skattpína þessa atvinnugrein þegar rætt er um að efla læsi og viðhalda tungumáli. Það er skýlaus krafa að afleggja bókaskattinn og einfalda þannig skattaumhverfið.

Ráðherra hlustaði á málflutning okkar af vinsemd og virðingu. Hann gerði þó ekki ráð fyrir að geta haft áhrif á afnám virðisaukaskatts. Hann sagði ólíklegt að það þyrfti að bæta í launasjóðinn, miklu heldur að endurskipuleggja sjóðsumhverfi listamanna og hagræða og jafnvel hugsa hlutina upp á nýtt. Lítil svör fengust frá ráðherra vegna erindis höfunda, en ákveðið var að funda á haustdögum á ný. Mjög mikilvægt er að halda þessu samtali áfram, upplýsa og ítreka svo hnika megi málum áfram til góðs.

En af nánara samstarfi þá höfum við unnið með Reykjavík- bókmenntaborg UNESCO að ýmsum verkefnum á starfsárinu og meðal annars komið að málþingi um gildi orðlistar og tekið þátt í afmælishaldi í tilefni af fimm ára afmæli Bókmenntaborgar. Í vikunni undirrituðum við samstarfssamning við Landsbókasafn-Háskólasafn vegna Maístjörnunnar – nýrra ljóðabókaverðlauna sem fæddust í fangi Kára Tuliníusar á aðalfundi í fyrra. Þá á RSÍ í margvíslegu samstarfi við menningarstofnanir í landinu.

RSÍ hefur átt í viðræðum við  Borgarbókasafn og FÍBÚT um rafrænt útlánakerfi bókasafnanna. Borgarbókavörður hefur kynnt fyrir okkur kerfi sem til stendur að taka í gagnið og grunnhugsunin er að útlán rafbókar sé í engu frábrugðin útlánum blaðbóka, þ.e.a.s. eitt leyfi – eitt útlán.

                            Erlenda samstarfið

Norræn samvinna er okkur ómetanleg og oft berum við okkur saman við nágrannalöndin og nýtum okkur þeirra verk til viðmiðunar. Þannig er RSÍ aðili að Norræna höfunda- og þýðendaráðinu ásamt Hagþenki og er það afar gjöfult og upplýsandi samstarf. Oft höfum við leitað ráða hjá formönnum og framkvæmdastjórum norrænu félaganna og sótt í þeirra viskusjóði. Þá er RSÍ aðili að European Writers Council, eða Evrópuráði höfunda. Þar hefur nú einhver stjórnarkrísa ríkt undanfarin misseri. Við höfum mætt á fundi og fylgst með og vonum að úr rætist. Á síðasta fundi í Brussel í nóvember var meðal annars rætt um bókasafnssjóði höfunda, en víða hefur ekki tekist að efla þessa sjóði svo þeir skili höfundum réttmætum afnotagjöldum. Nærtækt dæmi er frá Írlandi, en fulltrúi írskra höfunda sagði bókasafnssjóðinn þar nánast vera að hverfa og kallaði eftir stuðningi frá Evrópuráði höfunda. Við getum glaðst yfir stöðu sjóðsins hér á landi þótt hann sé enn langt frá okkar setta marki.  Á Evrópufundinum var einnig rætt um e-bækur og sýndist okkur fæstir vera komnir með nothæft og skilvirkt útlánakerfi fyrir þær. Vandinn felst víða í því að ná bókasöfnum samhæfðum að samningaborði. Hér á landi gegnir öðru máli. Í Brussel var einnig tæpt á hlutverki ritlistarinnar þegar vernda skal tungumál á örtungusvæðum. Fulltrúi félags katalónskra höfunda sagði róðurinn þungan við verndun katalónskrar tungu á þeirra smáa málsvæði. Þó eru ríflega tíu milljónir manna mælandi á katalónska tungu. Norðmenn skilgreina sig líka sem örtunguþjóð og því má svo sannarlega reyna að finna nýja skilgreiningu fyrir málsvæði íslenskunnar. Evrópska samstarfið er afar mikilvægt og fulltrúar höfunda í samtökunum sérhæfa sig í því að rata um reglugerðarskóga Evrópusambandsins. Nýverið sóttum við um aðild að Alþjóðasambandi rithöfunda, en þar eru fyrir 59 félög höfunda, og verður rithöfundasambandið sextugasta aðildarfélagið. Við vorum að fá staðfestingu á inngöngu í dag. Allt er þetta lærdómur fyrir okkur. Við sjáum svo skýrt á fundum með erlendum kollegum hvað vel er gert á heimavellinum og hvað þarf að laga.

Fræðsla og félagsstarf

Að lokum vil ég tæpa aðeins á fræðslu- og félagsstarfinu. Grunnskólaverkefni RSÍ- Skáld í skólum hóf sitt ellefta starfsár í haust. Mikil ásókn var í dagskrárnar sem miða að því að ná til barna frá 1. bekk og upp í tíunda bekk. Skáld í skólum er grasrótarverkefni og því er stýrt héðan úr húsi. Davíð Stefánsson og Tinna Ásgeirsdóttir héldu utan um það að þessu sinni. Áherslan var á skapandi skrif og verkstæði höfundarins, en það er svar við óskum frá skólafólki.  Gunnarshús er líflegur vinnustaður. Fjórir höfundar starfa hér í vinnustofum hússins og Sögufélagið leigir Norðurstofu sem áður var bílskúrinn. Erlendir gestir eru duglegir að nýta sér kjallaraíbúðina hér í húsi en við leigjum hana út gegn vægu gjaldi. Félagsmenn nýta Gunnarshús mikið til ýmiskonar funda og mannfagnaða. Þá eru skáldaskjólin okkar á Eyrarbakka og í Suðursveit í fullri notkun allt árið, ásamt því að við höfum aðgang að mörgum skáldaskjólum víðsvegar um land. Árlega, á aðventu, er Aðventa Gunnars Gunnarssonar lesin í húsinu og þar fylgjum við Gunnarsstofnun á Skriðuklaustri. Þá var haldin hér í húsi glæsileg útgáfuhátíð í desember í samvinnu við Gunnarsstofnun. Tilefnið var að í vetur voru 80 ár liðin frá því að sagan kom út fyrst í Þýskalandi og Danmörku. Húsfyllir var í Gunnarshúsi á þessu minningarafmæli í vetur. Þá héldum við tvær málstofur um sviðslistirnar í marsmánuði. Fyrra kvöldið rýndum við í fræðin og skoðuðum þrjú ritverk sem nýverið komu út um leikhús og sviðslistir. Hlín Agnarsdóttir hélt síðan utan um dagskrá um stöðu leikritunar og  framtíðarsýn og var góður rómur gerður að.

Útgefendur heimsóttu félagsmenn á haustfundi í Gunnarshúsi og ræddu stöðuna á útgáfumarkaði. Sitt sýndist hverjum, en ljóst að mun meira sameinar höfunda og útgefendur en sundrar þeim.

Sú nýbreytni var á höfundakvöldum fyrir jólin að höfundar pöntuðu kvöld og skipulögðu sjálfir en RSÍ aðstoðaði við að auglýsa eftir leiðum sambandsins. Það gafst ágætlega, en hugsanlega verður breytt fyrirkomulag í haust. Allt fer þetta eftir óskum og hugmyndum félagsmanna.

Hið ánægjulega hefur gerst að SÍUNG – félag barnabókahöfunda var endurvakið fyrir skömmu. Það er mikill styrkur að hafa innanhúss starfandi hagsmunahópa fyrir mismunandi greinar og svo gott að barnabókahöfundar taki höndum saman og þétti raðirnar, enda mikil gróska þar um þessar mundir.

Rithöfundasambandið hefur stækkað hratt undanfarin misseri. Það er ásókn í félagið og eftir næsta inntökufund má gera ráð fyrir að við skríðum yfir á sjötta hundraðið. Þar hafa bæst í hópinn ungir ritlistamenn og eldri sem skrifa inn í alla og ólíka miðla samfélagsins. Við finnum að ört breytast áherslur og ungir höfundar takmarka sig síður við einn miðil en stækka frekar leikvöllinn.

Og að lokum vil ég einmitt víkja að tæknimálum – hinni rafrænu veröld. Með aðgangi að nýju póstkerfi getur skrifstofa RSÍ nú auðveldlega staðið fyrir rafrænum könnunum af ýmsu tagi. Slíkar kannanir verða nýttar til að styrkja gagnabankann okkar og kortleggja ritlistina, en það er nauðsynlegt til að skýra markmiðin og herða baráttuna fyrir ritverkafólk. Á dögunum gerðum við kjarakönnun og sama kerfi gerir okkur nú kleift að hafa allar kosningar rafrænar á vegum félagsins. Nú í fyrsta sinn héldum við rafrænar kosningar og úrslitin verða gerð kunn hér á eftir. Fimm voru í framboði, þrír í aðalstjórn og tveir í varastjórn.

Tveir stjórnarmenn gáfu ekki kost á sér aftur og ganga því út úr stjórn nú. Það eru þeir Davíð Stefánsson og Hermann Stefánsson. Þeim er hér með þakkað fyrir vel unnin störf í þágu félagsins og ánægjulegt stjórnarsamstarf. Þá þakka ég líka öðrum stjórnarmönnum samstarfið, þeim Vilborgu, Hallgrími, Bjarna og Sigurlín Bjarneyju – en fyrst og síðast er ég nú þakklát fyrir það á hverjum morgni að mega fljúga með þeim Ragnheiði og Tinnu í öllum veðrum.

Bestu þakkir, Kristín Helga

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email