Arndís Þórarinsdóttir og Rán Flygenring tilnefndar til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2023

14 norrænar myndabækur, barnabækur og unglingabækur eru tilnefndar til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2023. Verkin sem tilnefnd eru í ár innihalda meðal annars tímalaus ævintýri, full af lífi, þar sem fjölbreytileikinn er ekki boðskapurinn í sjálfu sér heldur aðeins eitt atriði sem ljær frásögnunum trúverðugleika. Tilkynnt verður um verðlaunahafann þann 31. október í Ósló.

Tilnefndir íslenskir höfundar eru:

Arndís Þórarinsdóttir fyrir bókina Kollhnís (2022) Mál og menning gefur út.

Úr rökstuðningi dómnefndar:

Kollhnís er frumleg og áhrifarík saga um erfið málefni þar sem óáreiðanlegur sögumaður er í forgrunni og þröngt sjónarhorn hans teymir lesandann áfram á hnitmiðaðan og djarfan hátt. Eftir því sem líður á söguna fer lesandann að gruna að upplifun Álfs sé ekki fullkomlega traustsins verð. Agaður frásagnarmáti Arndísar og stíll dregur listilega fram, með kímni og kærleik, hvernig sterkar tilfinningar bjaga hrekklausa sýn sögumannsins á fólkið sem hann dáir.

Rán Flygenring fyrir myndabókina Eldgos. Angústúra gefur út 2022.

Úr rökstuðningi dómnefndar:

Eldgos kann í fyrstu að virðast hress og einföld saga um mæðgin og óblíða náttúru, en hún ristir mun dýpra. Frásögnin vekur með okkur margslungnar hugleiðingar um fordóma og fífldirfsku, ógn og ótta og mikilvægi þess að bera ábyrgð á sjálfum sér gagnvart náttúrunni. Brá og Kaktus reyna árangurslaust að bjarga tófu sem hefur orðið innlyksa á hól sem stendur úti í glóandi hrauni. Þá berast bjargvættir úr óvæntri átt. Kaktus reynist vera grálúsugur og lýsnar koma stökkvandi úr hári hans, flykkjast yfir á hólinn „eins og þaulæfð, pínulítil björgunarsveit“ og bjarga tófunni. Rán teflir saman öfgum tilfinninga sem vakna við að horfa inn í jörðina og sjá fjöllin verða til, annars vegar og svo hins vegar þeim sem hversdagsógn lúsafaraldursins vekur. Er tilfinningin um berskjöldun og valdaleysi kannski svipuð, þótt ógnin sé af ólíkum meiði?

Rithöfundasamband Íslands óskar Arndísi og Rán til hamingju með tilnefningarnar!

LESA MEIRA

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email