Search
Close this search box.

Anton Helgi Jónsson hlýtur Ljóðaverðlaun Guðmundar Böðvarssonar og Ingibjargar Sigurðardóttur

Anton Helgi Jónsson

Verðlaunin voru afhent í dagskrá sem fram fór á vegum stjórnar Minningarsjóðs Guðmundar Böðvarssonar og Ingibjargar Sigurðardóttur í Reykholtskirkju 28. ágúst 2022.

Nýjasta ljóðabók Antons Helga, Þykjustuleikarnir kom út s.l. vor hjá Máli og menningu þar sem flestar ljóðabóka hans hafa verið gefnar út. Als eru ljóðabækur skáldsins orðnar tíu að tölu frá því hann gaf  sjálfur út sína fyrstu bók Undir regnboga 1974, 19 ára að aldri. Bækurnar hafa síðan birst í þessari röð: Dropi úr síðustu skúr 1979. Ljóð nætur 1985. Ljóðaþýðingar úr belgísku 1991. Hálfgerðir englar og allur fjandinn 2006, (endurskoðuð og aukin 2012). Ljóð af ættarmóti 2010. Tannbursti skíðafélagsins og fleiri ljóð 2011. Tvífari gerir sig heimakominn 2014. Handbók um ómerktar undankomuleiðir 2020. Þykjustuleikarnir 2022.

Meðal helstu höfundareinkenna Antons Helga er ríkt skopskyn sem með tímanum hefur fengið æ dýpri undirtóna.  Hann beitir heimspekilegri nálgun á viðfangsefnin sem geta verið afar hversdagsleg, jarðbundin og líkamleg.  Einföld sem flókin fyrirbæri eru skilgreind upp á nýtt með frumlegum og óvæntum hætti, tvíræðni og margræðni eru meðal helstu einkenna í skáldskap hans. Ljóðin afhjúpa hvers kyns mótsagnir mannlegs lífs, bresti samfélagsins en einnig einstaklingsins. Anton Helgi hlífir ekki sjálfum sér. Skáldið hefur frábær tök á tungumálinu og tónfallið gerir ljóðin að auki einstaklega vel til flutnings fallin.

Rithöfundasamband Íslands óskar Antoni Helga til hamingju!

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email