Search
Close this search box.

Alþjóðleg bókmenntahátíð í Reykjavík í fjórtánda sinn

Fjórtánda Bókmenntahátíðin í Reykjavík verður sett miðvikudaginn 24. apríl og stendur til 27. apríl. Verður hún sannkölluð hátíð lesenda og höfunda og fer fram í Iðnó, Norræna húsinu og Veröld, húsi Vigdísar. Degi fyrir opnun eða 23. apríl á degi bókarinnar verður blásið til spennandi bókmenntadagskrár norðan heiða í menningarhúsinu Hofi á Akureyri þar sem erlendir og innlendir höfundar taka þátt.

Fjöldi íslenskra og erlendra rithöfunda hefur boðað komu sína á Bókmenntahátíð í Reykjavík, og munu margar nýjar þýðinga á erlendum bókum verða gefnar út af íslenskum forlögum í kringum hátíðina. Höfundahópurinn er afar fjölbreyttur og lesendur ættu allir að finna áhugaverða dagskrárliði við sitt hæfi; lesið verður upp úr nýjum bókum af ýmsu tagi og höfundaviðtöl verða á sviði. Þá verða höfundasamtöl um glæpasögur, kvikmyndaaðlögun, fjölskyldusögur og fleira. Sem fyrr er hátíðin öllum opin, aðgangur er ókeypis og auk þess verður hægt að fylgjast með dagskránni í streymi í gegnum vefsíðu.

Til viðbótar fjölda rithöfunda er einnig von á stórum hópi erlendra bókaútgefenda og blaðamanna sem koma á hátíðina til þess að kynna sér fjölbreytta flóru íslenskra bókmennta og höfunda.


Dagskrá fyrir alla: upplestrar, kvikmyndasýning, ball og sögustundir

Auk höfundasamtala og upplestra verður á hátíðinni sérstök barnadagskrá. Fimmtudaginn 25. apríl, á sumardaginn fyrsta, verður börnum flóttamanna og hælisleitenda boðið að fagna sumri með bóklestri og smiðjum í barnabókasafni Norræna hússins í samstarfi við Rauða krossinn, IBBY á Íslandi og Norræna húsið. Leiðsögn verður um sýninguna Barnabókaflóðið á arabísku og lesið verður úr bókum Áslaugar Jónsdóttur á arabísku en Barnabókaflóðið verður öllum opið í barnabókasafninu þann dag og eins og aðra daga hátíðarinnar. Laugardaginn 27. apríl verður einnig boðið upp á smiðjur og sögustundir fyrir börn og mun norski rithöfundurinn Maja Lunde vera með sögustund fyrir yngstu börnin sem fram fer á norsku en einnig verður lesið á íslensku. Sagnaþulur mætir og segir krökkunum sögur svo eitthvað sé nefnt.

Höfundar Bókmenntahátíðar munu heimsækja bókaklúbba og leshringi nú sem áður og hefur skapast skemmtileg stemning í heimahúsum þegar höfundar sækja lesendur sína heim.

Dagskrá um pólskar bókmenntir fer fram í Menningarhúsinu Gerðubergi í samstarfi við Borgarbókasafnið. Þar mun Jacek Godek flytja erindi um íslenskar bókmenntir í pólskum þýðingum og pólskar bókmenntir sem njóta nú mikillar hylli í heiminum en hafa þó lítið verið þýddar á íslensku enn sem komið er. Jacek hefur þýtt fjölda höfunda af íslensku á pólsku. Sunnudagskvöldið 28. apríl verður sýnd í sal Norræna hússins bíómyndin Jalouse eftir þá David og Stéphane Foenkinos, en myndin byggir á skáldsögu eftir David. David mun kynna myndina og svara spurningum áhorfenda. Hér er um að ræða gamanmynd um ástríka móður sem finnur skyndilega til mikillar afbrýðissemi gagnvart dóttur sinni.

Alþjóðleg bókmenntaverðlaun kennd við Halldór Laxness afhent í fyrsta sinn

Á sumardaginn fyrsta verður haldið alþjóðlegt þing um Halldór Laxness í Veröld, húsi Vigdísar. Í vetur sem leið var þing helgað Halldóri Laxness haldið í Osló og var þá þegar ákveðið að þingið færi fram bæði í Osló og Reykjavík. Þingið er haldið í samvinnu við Gljúfrastein, sendiráð Noregs á Ísland, Stofnun Vigdísar, Fritt ord og Kulturrådet í Noregi. Fram koma íslenskir og erlendir fyrirlesarar sem fjalla um Laxness í fjölbreyttu samhengi. Fyrirlesararnir eru Gerður Kristný, John Freemen, Mímir Kristjánsson, Auður Jónsdóttir, Halldór Guðmundsson, Karin Haugen og Tore Renberg. Þingið fer fram á ensku.

Á þinginu verður jafnframt tilkynnt hver hlýtur Alþjóðleg bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness í fyrsta sinn en til þessara verðlauna var stofnað nú í vetur. Verðlaunin nema 15.000 evrum og eru veitt alþjóðlega þekktum rithöfundi fyrir að stuðla að endurnýjun sagnalistar með verkum sínum, en fyrir það hlaut Halldór sjálfur Nóbelsverðlaunin á sínum tíma. Að verðlaununum standa skrifstofa forsætisráðherra, menntamálaráðuneytið, Íslandsstofa, Bókmenntahátíð í Reykjavík, Gljúfrasteinn og Forlagið og verða þau hér eftir veitt á Bókmenntahátíð í Reykjavík.

Orðstír, heiðursverðlaun þýðenda á erlend mál

Orðstír, heiðursverðlaun þýðenda af íslensku á erlend mál verða afhent í þriðja skiptið föstudaginn 26. apríl og hljóta tveir afbragðsþýðendur verðlaunin fyrir ötult starf sitt sem sendiherrar íslenskra bókmennta úti í heimi. Að verðlaununum standa embætti forseta Íslands, Bandalag þýðenda og túlka, Miðstöð íslenskra bókmennta og Íslandsstofa auk Bókmenntahátíðar í Reykjavík. Dagskrá með verðlaunahöfunum verður í Veröld, húsi Vigdísar, sunnudaginn 28. apríl og verður sú dagskrá brú yfir í þýðendaþing sem Miðstöð íslenskra bókmennta stendur fyrir og hefst mánudaginn 29. apríl.

Kauptu bók og mættu á ballið!

Bækur allra höfunda sem taka þátt í Bókmenntahátíð í Reykjavík verða fáanlegar í Eymundsson. Eymundsson stendur jafnframt fyrir bóksölu á öllum viðburðum hátíðarinnar og það er kjörið að nota tækifærið og biðja höfunda að árita eftir dagskrárliði eða á Bókabarnum í Iðnó.

Formlegri dagskrá Bókmenntahátíðar í Reykjavík lýkur laugardagskvöldið 27. apríl með hinu stórskemmtilega Bókaballi. Þar er tilvalið fyrir lesendur og gesti hátíðarinnar að stíga nokkur spor með uppáhaldshöfundinum sínum.

Dagskrána verður hægt að sjá á ensku og íslensku á vefsíðunni www.bokmenntahatid.is og á samfélagsmiðlum og verður hún auk þess birt í Reykjavík Grapevine. Ókeypis er inn á alla viðburði hátíðarinnar og lesendur hjartanlega velkomnir.

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email