Search
Close this search box.

Aðventa lesin í Gunnarshúsum sunnudaginn 8. desember kl. 13.30

Saga Gunnars Gunnarssonar um eftirleitir Benedikts og fylgdarliðs hans á öræfum uppi hefur fylgt þjóðinni í 80 ár. Aðventa er bók sem kemur inn á metsölulistana ár hvert í desember og er gefin út á nýjum tungumálum enn þann dag í dag. Nú nýverið kom bókin út í Frakklandi hjá Zulma forlaginu sem gefur meðal annars út Auði Övu Ólafsdóttur, Andra Snæ Magnason og Einar Má Guðmundsson. Þessi bók Gunnars er því til í dag á um 20 tungumálum og selst enn vel en hún kom fyrst út árið 1936. Það er orðin hefð að lesa Aðventu upphátt víða um land í desember og hefur sá siður teygt sig til annarra landa. Í sendiráði Íslands í Berlín verður hún til að mynda lesin 3. desember á þýsku. En hér heima ríður Ferðafélag Akureyrar á vaðið með upplestur 1. desember. Þá munu fjórir lesarar skipta með sér lestri á sögunni að Strandgötu 23 á Akureyri og hefst lesturinn kl. 14. Gunnarsstofnun og Rithöfundasamband Íslands fylgja svo í kjölfarið viku síðar, 8. desember, með lestri í húsum skáldsins að Skriðuklaustri í Fljótsdal og Dyngjuvegi 8 í Reykjavík. Að þessu sinni mun Gunnar Björn Gunnarsson, afkomandi skáldsins, lesa á Dyngjuvegi en fyrir austan verður það Benedikt Karl Gröndal, leikari sem les. Á báðum stöðum hefst lesturinn kl. 13.30.

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email